Fólkið í blokkinni
Ég varð of seinn í kvöldmatinn. Gleymdi mér við að hlusta á Gísla Martein lýsa Júróvisjón.
Niðri á horni var rólegt. Juan, eigandinn, sat þar við annan mann, auk rúmenska barþjónsins. Þeir voru að horfa á tennis. Madrid Open, sagði Juan.
Þú veizt vonandi að það er Júróvisjón í sjónvarpinu? spurði ég.
Er það í kvöld? – Hann kom alveg af fjöllum.
Af eintómri greiðasemi við mig skipti hann um sjónvarpsstöð. Og þarna sátum við, þetta litla samevrópska samfélag, og biðum eftir atkvæðagreiðslunni.
Juan hafði allt á hornum sér, talaði um mafíu og atkvæði nágrannaríkja til vina sinna. Þessi keppni væri orðin eign austur-Evrópu og hreint ekkert skemmtileg.
Við sáum brot úr lögunum, sem þeir höfðu aldrei heyrt áður. Viðbrögðin voru fyrirsjáanleg.
Juan: Ef Spánn fær einhver stig fyrir þetta drasl verða þau frá Portúgal. Með það fór hann inn að elda fyrir mig lambakjöt.
Rúmenski þjónninn: Getum við skipt aftur yfir á tennis?
Ég sagðist þvert á móti dást að rúmenska jóðlinu – það væri uppáhaldslagið mitt. Hann dæsti og fór að þrífa vaskinn.
Yfir lambakjötinu – sem er vel að merkja það bezta í heimi, ef undan er skilið lambalæri Bjarna snæðings – skemmtum við okkur samt við að spá fyrir um hvar douze points hvers lands myndu lenda. Við höfðum rétt fyrir okkur í áttatíu prósentum tilvika, sem Juan þótti staðfesta kenningu sína um mafíu og nágrannapólitík.
Í miðri atkvæðagreiðslunni bættist okkur liðsauki, ungur maður frá Litháen sem hyggst verða kostgangari hjá Juan í hálfan mánuð. Þegar við Juan vorum alveg á báðum áttum um hvernig Eistland myndi greiða atkvæði ákvað Litháinn að skjóta inn mjög sennilegum spádómi:
Finnland.
Sem var að vísu ekki rétt hjá honum, en okkur þótti þetta afar gáfuleg tilgáta á meðan hún lifði og bráðnauðsynlegt tillegg í okkar samevrópska púkk. Litháanum leið strax næstum eins og heima hjá sér, svona nýkominn í bæinn.
Spænska útsendingin á Júróvisjón var að því leytinu miklu verri en sú íslenzka, að þar var enginn Gísli Marteinn. Spænsku þulirnir létu eins og þeir væru túlkar á ráðstefnu og þýddu jafnóðum það sem úkraínsku kynnarnir sögðu, og fæst af því var sérlega djúphugsuð hnyttni. Og trúið mér, í spænsku döbbi yfir ensku með úkraínskum hreim skilst varla nema þriðja hvert orð.
Svo er ég hreint ekki viss um að spænskt sjónvarpsfólk megi leyfa sér kaldhæðni, sem Gísli Marteinn tileinkaði sér ekki fyrr en á fullorðinsárum og þá við misjafnar undirtektir (hæ, Eiríkur Jónsson). Kæmi mér ekki á óvart að gleymzt hafi að afnema einhverja tilskipun Frankós um óviðurkvæmni og hótfyndni í sjónvarpinu.
Skipafréttir voru lesnar með meiri tilþrifum í útvarpinu hér áður.
Nema hvað. Juan bauð góða nótt þegar hinni eiginlegu atkvæðagreiðslu landanna var lokið og Spánn hafði fengið cero puntos. Ekki svo mikið sem hóst frá Portúgal. Juan sofnaði með enn minni trú á mannkynið en áður.
Í seinni hluta atkvæðagreiðslunnar, þar sem hundruðum stiga var allt í einu dælt yfir keppendur eftir þessi fáeinu fram að því, þá fannst loks svolítið réttlæti í lífinu. Spánn fékk cinco puntos þrátt fyrir allt og þurfti því ekki að þola það sem Daníel Ágúst tók af svo miklu æðruleysi hér um árið. Núll stig.
Ég ætla að gleðja Juan með því á morgun, að Spánn hafi þrátt fyrir allt fengið fimm stig úr sameiginlegum sjóðum Evrópu. Draumurinn um Evrópu er nefnilega ekki um keppni eða átök, heldur margar og ólíkar þjóðir sem samfélag, þótt hver hafi sín séreinkenni og tiktúrur.
Og meiraðsegja þessir ömurlegu eiga og mega vera með, líka lúserarnir frá Spáni. Við værum fátækari án þeirra og við vitum að þeir geta betur.
Sumar þjóðir eru jafnvel mjög sérlundaðar og mega vera það hinna vegna, á meðan fólk bíður ekki skaða af. Þannig er lífið í evrópsku blokkinni.
Evrópa sem samfélag er samt einmitt ástæða þess að þjóðrembum til vinstri og hægri er illa við hugmyndina, þótt hún sé farsælasta friðarbandalag sögunnar. Merkilegt.
Ég veit ekki hvort Juan gleðst yfir þessum stigum sem Spánn fékk undir lokin, en ég veit að hann skilur þau. Hann veit nefnilega þrátt fyrir allt um hvað Evrópa snýst. Hún snýst um okkur. Fólkið í blokkinni.
Þegar ég hef huggað Juan á morgun ætla ég hins vegar að biðja rúmenska þjóninn að jóðla fyrir mig.
Það verður reyndar talsvert brattari brekka.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019