Fiskur, fiskur og fiskur

Sumir segja að það sé böl að eiga auðlindir, einsog fiskinn, og fallorkuna, og landslag sem selst. Það væri betra að vera einsog Danir eða Hollendingar og lifa af mannauðinum einum saman.
En nú er það ekki svo, við eigum fiskinn og nýtum hann auðvitað.
Það er bara þetta með að eiga fiskinn. Í lögunum stendur að við eigum fiskinn öll saman, við öll dýrin í skóginum. Samt hefur það ekki verið svo. Ég get ekki farið út og hafið fiskveiðar, ég á ekki kvóta.
En þeir sem „eiga“ kvótann telja sig einmitt eiga hann, en auðvitað eigum við hann öll.
Þess vegna er réttlátt að þeir sem fá að hagnast á auðlindinni greiði eigendunum fyrir þau afnot. Er það ekki augljóst?
Þeir sömu og vilja „eiga“ kvótann og fiskinn víla ekki fyrir sér að kaupa aðgang að auðlindum annarra landa dýrum dómum. Þá er það útgerð sem borgar sig.
En ef þeir eru krafnir um hið sama hér við Íslandsstrendur þá er það allt í einu ekki hægt, þá er allt í einu allt á hvínandi kúpunni og ekki hægt að stunda fiskveiðar.
Mér finnst nú einfaldlega að ef menn treysta sér ekki til að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni þá eigi þeir einfaldlega að skila inn kvótanum. Ég er sannfærður um að það sé nóg af sjómönnum sem geta sótt þessi auðæfi okkar allra og greitt fyrir það auðlindagjald og hagnast samt. Og við högnumst öll.
En það er óþarfi að rífast um upphæðina á kvótanum. Því hvað sem verður nú sagt um markaðinn blessaðan, sem þeir dásama yfirleitt mest sem nú vilja lækka veiðigjaldið, þá er hann nú langbesta aðferðin til að finna út eðlilegt og réttlátt verð fyrir aðganginn að auðlindinni.
Auðvitað á að bjóða allan kvóta upp. Það á að byrja á því að bjóða upp 5 prósent og halda svo áfram þar til allt er komið. Í 20 ár, það er góður aðlögunartími fyrir „eigendur“.
- Stjórnarmyndun – hvað nú?! - 07/11/2017
- Tæp stjórnarmyndun! - 05/11/2017
- Sigurvegarar kosninganna – eða ekki! - 29/10/2017