trusted online casino malaysia
Hallgrímur Helgason 14/05/2014

Farið og sjáið Vonarstræti. Stórkostleg kvikmynd. Hver er þessi Baldvin Z?

Screen Shot 2014-05-14 at 13.23.25

Farið og sjáið Vonarstræti. Stórkostleg kvikmynd. Hver er þessi Baldvin Z?

Ég eyddi gærkvöldinu í sneisafullum Sal 1 í Smárabíó, einn með fólki sem ég hafði aldrei séð áður, að horfa á íslenska kvikmynd eins og maður hefur ekki séð áður. Það er eitthvað nýtt hér á ferð, einhver ný næmni, ný nálgun, nýtt plan.

Byrjum á leiknum. Sjaldan hefur svo massífur leikur sést á íslensku tjaldi. Hér fara stórgóðir leikarar á kostum. Þorvaldur Davíð, Hera Hilmars og einkum þó “gömlu mennirnir” Valur Freyr og Þorsteinn Bachman. Valur nær að fanga útrásartímann með brosinu einu, hef bara aldrei séð hann svona góðan, (vissi ekki að svo góður drengur færi svo létt með að mastera vonda kallinn). Og Steini Bakk ber myndina hreinlega á herðum sér, skapar eina eftirminnilegustu persónu kvikbókmennta okkar, rithöfundinn og dramarónann Þormóð Thorlacius (húrra líka fyrir góðu nafni). Leikstjórinn leyfir skáldinu “Móra” líka að anda og andvarpa, gefur honum tíma og rými til að lifna almennilega við. Hann fær jafnvel að fara með heilu ljóðin eftir sig á ljóðakvöldi í miðborginni, og það í heilu lagi, og það ekki bara eitt heldur tvö. Hér fer leikarinn á þvílíkum kostum, tekst að lyfta frekar leim ljóðum upp í alveg óskiljanlegar hæðir með raddbeitingu og augnaráði einu saman. Er yfir lauk var maður jafnvel farinn að fantasera um að verða eins og Móri…

Sagan og sögurnar eru góðar og díalógarnir eru ótrúlega fínir. Kannski er smá fyrirsjáanleiki í Flórídaferðinni, en þó smá böggandi uppbrot í því að þær senur séu teknar á Ítalíu! Var “Hannes” að spara? Allt sem persóna Steina Bakk segir er brill, og frasar Sigga í bankanum eru oftast góðir, sumir reyndar þekktir en þurftu samt að komast í mynd. Biggi í Maus er hér að stimpla sig inn sem handritshöfundur! Hann skrifar handritið í samvinnu við leikstjórann, sem ég veit enn ekki hver er, (nema ég hafi hitt hann á settinu á Hæ Gosi út í Hrísey um árið?) sem vinnur hér mikinn sigur við undirleik Ólafs Arnalds og stýrir myndinni af ótrúlegu næmi fyrir stemmningu og tilfinningum. Það er alltaf til merkis um góðan leikstjóra þegar börnum er sýnd full virðing í framvindunni.

Períódufílingurinn er kannski ekki alveg þarna allan tímann (maður er aldrei alveg viss um að þetta eigi að vera 2006, nema einstaka sinnum) en fílingurINN er alltaf til staðar. Þjóðfélagslýsingin er ansi góð, hér er kastljósinu beint að okkur frá þremur hliðum svo skuggarnir kastast langt út í myrkrið. Leikskólakennarinn, bankaspaðinn, og Næstabarsbyttan.

Vel er farið með persónusögu leikskólakennarans Eikar sem dýpkar með hverri mínútunni, án þess nokkurntímann að fara út í misnotkunarrúnkið (afsakið orðalag), þannig að allt meikar sens er upp er staðið. Hera Hilmars sprengir sjarmaskalann í æðislegum reykvískum næturlífssenum, þegar hún og Móri rölta heim af barnum, og eiga dásamlegt samtal frammi fyrir hinum dæmigerða íslenska örlaga-taxa.

Saga fótboltamannsins sem verður “senter í bankanum” er dapurleg en átakanlega trúverðug. Þorvaldur Davíð er eins og heil íslensk þjóð sem rambar inn í góðærisruglið og verður siðrofinu að bráð. Hvað ætli einkavæðing bankanna hafi eyðilagt mörg hjónabönd? Sjálfsagt er vart til verra helvíti en það sem finna má í svörtum Range Rover og hér er það komið í allri sinni dýrð. (Alltaf vorkennir maður fólkinu í svörtu Reinsunum þegar maður sér það á gatnamótunum, að vera svona fast í gljáfægðri fortíðinni, en eftir þessa mynd er eiginlega kominn tími á landsátak til að bjarga því hreinlega út úr þessum líkvögnum.)

Persónan Móri og túlkun Þorsteins Bachman á henni er þó það sem stendur upp úr í þessari frábæru bíómynd. Ekki veit maður hvernig leikarinn fer að því en hann mætir hér til leiks með steinrunnið andlit, drætti sem frusu á dramatískan hátt fyrir margt löngu síðan (við fáum smám saman að sjá þá sögu), og stórleikurinn er þeim mun meira afrek þar sem hann hefur einungis neðri vör og augu/augabrúnir upp á að hlaupa, restin af andlitinu er helfrosin föst í fortíðinni. Magnað. Steini þarf ekki nema lyfta einni augabrún og áhorfandinn tekst á loft í sæti sínu. Það er bara svo gleðilegt að sjá svona gott efni.

Eins og títt er eftir góða listneyslu sat maður hálf lamaður í sætinu að lokinni sýningu á meðan fólkið ruddist út í raunveruleikann, svona líka óþolinmótt að komast burt úr paradís listarinnar og heim í sitt hvítveggjaða hversdagshelvíti (aldrei skilið þennan æðibunugang) og keyrði síðan hálf skekinn heim, ólöglega hægt, hugsandi fallega til þessarar ungu hæfileikakynslóðar sem virðist geta allt í mynd og tónum og stendur sjálfsagt á öxlum einhverra en er að uppfylla óskir og drauma sem kraumað hafa í hérlendum listakreðsum áratugum saman.

Það er eitthvað nýtt hér á ferð, einhver áður ókunn gæði. Ef Frikki Þór sá um þöglumyndatímabilið í íslenskri kvikmyndagerð og Balti gerði fyrstu talmyndirnar líður manni eins og hér séu nú að verða til fyrstu litmyndirnar. Allavega… Með Vonarstræti tekur kvikmyndagerðin okkar skrefið upp á danska planið.

Farið og sjáið Vonarstræti. Stórkostleg kvikmynd. En hver er þessi Baldvin Z?

 

Flokkun : Pistlar
1,790