trusted online casino malaysia
Jón Ólafsson 19/12/2014

Er heimurinn enn að batna – eða er hann alltaf að farast?

Matt_Ridley

Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley er furðuleg bók. Samkvæmt ummælum sem letruð eru á kápu íslensku þýðingarinnar er höfundurinn afburðasnjall, mikill stílisti og húmoristi, og bókin bæði frumleg, umdeilanleg og upplýsandi. Á framhliðinni er mynd af glasi hálfu af vatni – sennilega til að undirstrika þá vel þekktu speki að það segi mest um mann sjálfan hvort maður lýsir glasinu sem „hálffullu“ eða „hálftómu“.

Undirtitill verksins er „Rökin fyrir bjartsýni“ og það er bókin svo sannarlega: Í þessu 359 síðna verki tínir höfundurinn til nánast allt sem hægt er að ímynda sér sem styður þá sannfæringu hans að saga mannkynsins og staða í samtíma okkar gefi miklu meira tilefni til bjartsýni um framtíðina en um svartsýni. Þótt rökin fyrir þessari skoðun séu mörg og sögurnar sem höfundurinn segir margar, fróðlegar og oft skemmtilega útlagðar, má þó segja að grundvallarrökin fyrir bjartsýni birtist í einu einkenni mannlegra samskipta sem þroskast hefur og þróast á síðustu öldum og árþúsundum, en þetta er sú staðreynd að menn, ólíkt öðrum skepnum náttúrunnar, stunda viðskipti. Viðskiptin hafa breytt heiminum, opnað tækifæri og skapað þarfir sem hafa knúið mannkynið til uppgötvana og framfara, sem skýra ótrúlega velferð þess í dag og gefa okkur góðar ástæður til að ætla að hvaða ógnir svo sem að okkur steðja af hálfu náttúru eða myrkra afla í heiminum, þá muni mannkynið vinna sig út úr slíkum hremmingum og halda áfram á framfarabraut sinni. Sé tryggt að viðskipti verði áfram stunduð óhindrað að sem mestu leyti. Eða þetta telur Matt Ridley.

 

Staðfestingarskekkjan

Gallinn við bókina er hins vegar sá að þrátt fyrir fjölda röksemda og dæma sem styðja, eða virðast styðja þá tilgátu sem liggur bókinni til grundvallar – mikilvægi viðskipta – þá gerir Matt Ridley ákveðin mistök sem draga lítillega (svo vægt sé til orða tekið) úr gildi verks hans. Mistökin eru þau að hann sneiðir hjá mótrökunum. Það reyndar erfitt að skilja hvers vegna höfundur sem sagður er „nafntogaður vísindarithöfundur“ fellur í gryfju af þessu tagi. Í bókinni leitast hann við að sýna lesendum sínum fram á að ákveðin tilgáta sé rétt, en í staðinn fyrir að takast á við mótrök gegn henni, talar hann háðslega um þá sem eru annarrar skoðunar og fjallar ekki alvarlega um samfélagsgreiningu þeirra eða mótrök. Þetta gerir að verkum að þótt lesandinn eigi erfitt með að hafna því að tilgáta Ridleys kunni að vera rétt eða að minnsta kosti rétt í ákveðnum atriðum, þá fer því fjarri að gagnrýninn lesandi geti staðið upp sannfærður frá lestri bókarinnar.

Það má lýsa þessu með einföldu dæmi: Hugsum okkur að ég bíti það í mig að allar framfarir mannkynsins megi greina í ljósi með samvinnu af einhverju tagi. Ef ég hleyp í gegnum mannkynssöguna er auðvelt fyrir mig að finna fjölda dæma sem staðfesta þessa kenningu. En með því að halda því fram að röð dæma sem hægt er túlka á þennan hátt gefi mér tilefni til að fullyrða að um orsakasamband sé að ræða, horfi ég framhjá grundvallaratriðum vísindalegrar aðferðar og geri mig sekan um einfalda en algenga villu, svokallaða staðfestingarskekkju. Staðfestingarskekkja (e. confirmation bias) er ákaflega áleitin í daglegum rökræðum og skoðanaskiptum vegna þess að flestum virðist þeir geta verið öruggir um það sem dæmin virðast sanna. Svo tekið sé annað dæmi þá héldu margir fyrir hrun að ákveðnir einstaklingar væru fjármálasnillingar. Hvers vegna? Jú vegna þess að allt sem þeir gerðu virtist skila árangri og mala gull. Hinn ofurjákvæði hefur mikla tilhneigingu til að líta framhjá og forðast gagnrýni, neikvæðni og niðurrif, en einmitt þetta gerir hann berskjaldaðan fyrir staðfestingarskekkjunni.

 

Eyðingarmáttur menningarvitanna

En staðfestingarskekkjan birtist líka í annarri mynd í bók Ridleys. Hann er nefnilega ekki aðeins að sýna lesanda sínum fram á tilefnin til bjartsýni heldur á hann, eða öllu heldur mannkynið, sér óvin sem Ridley þreytist ekki á að hæðast að. Þetta eru „menningarvitar“ (ég hef ekki frumtextann við höndina, en geri ráð fyrir að hér sé átt við þann hóp fólks sem á ensku eru kallaðir „intellectuals“ – oft er orðið „menntamenn“ notað yfir þá á íslensku). Menningarvitar eru holdgerving bölsýninnar og þeir hafa í gegnum tíðina verið helsta hindrun framfara í heiminum. Ridley er djúpt hneykslaður yfir framferði þessa hyskis og finnst nóg um hve mikið mark sé á því tekið. Hann segir: „Menn geta … átt von á snillingaverðlaunum MacArthurs eða friðarverðlaunum Nóbels ef þeir fullyrða að hörmungar vofi yfir. Bókabúðir stynja undan ofurþunga bölsýni og ljósvakinn er yfirfullur af heimsendaspám. Á fullorðinsárum mínum hef ég hlustað á fyrirvaralausar spár um aukna fátækt, væntanlegar hungursneyðir, stækkandi eyðimerkur, farsóttir í aðsigi, væntanleg stríð út af vatni, óhjákvæmilegan olíuskort, súrt regn, kjarnorkuvetur, kúafár, Y2K-aldamótatölvuveirur, drápsbýflugur, kynskipta fiska, hlýnun jarðar, súr höf og jafnvel loftsteina sem munu innan tíðar binda ógnvænlegan enda á þetta hamingjuskeið. Ég man ekki eftir neinu tímabili án þess að hátíðlegir og allsgáðir menningarvitar boðuðu einhverja af þessum ógnum“ (bls. 232).

Við eigum ekki að taka þessar ógnir of mikið inn á okkur, þær eru samvæmt Ridley ýmist hreinn hugarburður eða miklu auðleysanlegri vandamál en „menningarvitarnir“ – „hinar sönnu Altúngur nútímans“ vilja vera láta (bls. 296). Staðreyndin sé sú – og um þetta nefnir hann mörg dæmi – að eiginlega allir spádómar tuttugustu aldar um lækkandi sól mannlegrar velferðar hafi reynst alrangir og borið vott um viðlíka framsýni og átjándu aldar spádómurinn um að um miðja tuttugustu öld yrði þriggja metra lag af hrossaskít alla jafna á götum Lundúnaborgar.

 

Snjallir áróðursmenn

Ég get ekki að því gert að því lengra sem ég les í bók Ridleys, þeim mun oftar dettur mér áróðursmaðurinn snjalli, Halldór Laxness, í hug. Halldór skrifaði árið 1938 bók um Sovétríkin þar sem hann lýsti því á áhrifamikinn hátt hversu mjög hann synti gegn straumnum með því að skrifa bók um afrek og árangur Sovétmanna undir Stalín. Líklegra til árangurs og velgengni væri að skrifa bók gegn Sovétríkjunum og Stalín því sú bók myndi seljast í stórum upplögum. Ridley hefur áhyggjur af því að rit og skrif bölsýnisfólks eigi miklu fremur upp á pallborðið en bjartsýnisrit á borð við bók hans sjálfs. Hann segir: „Ég var nýlega í bókabúð á flugvelli og staldraði við í deild nýrra bóka til að skoða hillurnar. Þar gat að líta bækur eftir Noam Chomsky, Barböru Ehrenreich, Al Franken, Al Gore, John Gray, Naomi Klein, George Monbiot og Michael Moore sem öll héldur því að meira eða minna leyti fram að (a) heimurinn sé skelfilegur staður, (b) að hann sé að versna, (c) að það sé aðallega viðskiptum að kenna og (d) að komið sé að tímamótum. Ég sá ekki eina einustu bjartsýnisbók“ (bls. 240). Þetta er skrítin staðhæfing. Nú hef ég ekki tölfræðileg gögn við hendina, en ég veit ekki betur en að sjálfshjálparrit, leiðbeiningabækur og ótölulegar útgáfur um stjórnun, viðskipti, hamingju og árangur komi út jafnt og þétt. Ef búnar væru til hrúgur bölsýnis- og bjartsýnisbóka hefði ég haldið að sú síðarnefnda væri miklu stærri en sú fyrrnefnda. Hér er ágætt dæmi allsvæsna staðfestingarskekkju: Ef tilgáta mín er sú að fleiri bölsýnisbækur komi út en bjartsýnisbækur og til að staðfesta hana fer ég og skoða hilluna með bókum þekktra samfélagsgagnrýnenda, er ólíklegt annað en að tilgáta mín sé staðfest. Hún væri það hins vegar tæpast ef ég liti á hilluna yfir bækur um sjálfshjálp, viðskipti og markaðsmál. Leiti maður ullar er lítið á geitakofanum að græða.

Ridley er einmitt prýðilegur áróðursmaður og bók hans er, rétt eins og Gerska ævintýrið sem Halldór Laxness skrifaði eftir nokkurra mánaða dvöl í Sovétríkjunum bæði vel skrifuð og vel skipulögð bók. Dæmin sem hann fjallar um, söguleg dæmi um samfélagsskilning, framtíðarspár, áhrif nýjunga, viðskipta, hamfara, stríða og uppgötvana eru mörg fróðleg. En ályktanirnar sem hann dregur af þeim eru iðulega rangar. Listinn yfir vár sem ég rakti hér fyrir ofan er ágætt dæmi um það. Sumt af því sem þar er nefnt hefur reynst orðum aukið, en margt af því er enn meðal þess sem telja má til ógna og krefst úrlausnar sem ekki bólar á ennþá. Það er mikilvægt að rugla ekki saman athyglinni sem sum mál fá tímabundið og ógninni sem af tilteknum hættum stafar. Til dæmis er súrt regn ekki gervivandamál þótt það veki ekki jafn mikla athygli í dag og þegar það komst fyrst í hámæli á áttunda áratugnum.

 

Loftslagsmálin…

Stór hluti mannkynsins lifir góðu lífi í heimi sem einkennist af ótrúlegum tækniframförum. Hver neitar þessu? Margt af því sem fólk hefur haft áhyggjur af áður hefur ýmist horfið eða brugðist hefur verið við því og dregið úr slæmum afleiðingum þess. En þetta þýðir ekki að allar áhyggjur af stöðu og framtíð heimsins séu leiðinda bölsýnisspár „menningarvita“. Vandamálin og áhyggjuefnin breytast og færast til. Stærstu vandamál mannkynsins í dag eru ólík þeim sem menn kljáðust við áður vegna þess að þau eru hnattræn og það þýðir að ekkert eitt ríki eða einn aðili getur tekist á við þau. Það þarf að gera á alþjóðlegum vettvangi og með fjölþjóðlegri samvinnu. Matt Ridley trúir ekki á slíkt af tveimur ástæðum: Hann er sannfærður um að vandamálin leysist sjálf (með frjálsum viðskiptum fyrst og fremst) og hann telur að sameiginlegar áætlanir alþjóðasamfélagsins eða margra ríkja séu líklegri til að vera til ills en góðs.

Vitlausasti kafli bókarinnar er þó sennilega tíundi kafli hennar þar sem Ridley fjallar meðal annars um loftslagsvandann. Til að gera langa sögu stutta, þá heldur Ridley því fram að samanlögð áhrif hnattrænnar hlýnunar næstu öldina muni hafa, þegar á heildina er litið, betri áhrif en verri og að árið 2100 verði heimurinn „betri staður“ en hann er í dag. Þessu til staðfestingar nefnir hann fáeinar mælingar sem virðast stangast við þær niðurstöður sem allur þorri vísindamanna fellst á, að koltvísýringsmagn í andrúmsloftinu muni hafa alvarlegar og stórskaðlegar afleiðingar fyrir vistkefi og hagkerfi heimsins á næstu áratugum. Nú má vel benda á að það skiptir miklu máli frá sjónarhóli vísinda að haldið sé uppi gagnrýni og andófi jafnvel gegn því sem er viðurkennt í vísindasamfélaginu. En Ridley fellur jafnvel enn dýpra í þá gryfju sem bók hans einkennist af (gryfju staðfestingarskekkjunnar) með dæmunum sem hann rekur í umfjöllun sinni um loftslagsmál. Í stað þess að ræða af einhverri dýpt um allar þær mælingar og fyrirvara sem sérfræðingar á sviði loftslagsmála hafa gert og lýst, lætur hann eins og fáein dæmi sem hugsanlega er hægt að túlka á annan veg séu raunveruleg gagnrýni á niðurstöður vísindamanna.

Það mætti fara betur í saumana á mörgum atriðum í bókinni því hún fer yfir víðan völl. Hún er ekki leiðinleg aflestrar, en vandinn er þessi: Bókin hefur öll helstu einkenni áróðursritsins að því leyti að höfundurinn leggur skilning í dæmin sem hæfir niðurstöðu hans og leggur sig með því fram um að sannfæra lesandann um ákveðna heildarsýn á samfélagsumræðu samtímans sem jafnvel mætti líkja við samæriskenningu: Vondir umhverfissinnar og „menningarvitar“ draga okkur hin á asnaeyrum bölsýninnar þegar við ættum að gleyma slíkum heimsósóma og vera bjartsýn.

Kannski líður einhverjum betur eftir að hafa meðtekið slíkan boðskap. Eða líður skringilega – eða langar kannski til að hlæja. Ég held samt að eitt ættu þó allir að geta verið sammála um eftir stutta umhugsun: Sú staðreynd að í gegnum tíðina hafa verið til heimsendaspámenn eru engin rök fyrir því að gera lítið úr eða vísa á bug þeim niðurstöðum alls þorra vísindamanna að til lengri tíma séu loftslagsbreytingar af völdum hlýnunar, sem einkum stafar af koltvísýringsmagni í andrúmsloftinu, stórkostleg ógnun við allt mannkyn. Að halda öðru fram er álíka gáfulegt og að telja Stalín bjargvætt mannkyns.

 

Matt Ridley. Heimur batnandi fer. Rökin fyrir bjartsýni. (ísl. þýð. Elín Guðmundsdóttir, ritstj. Hannes H. Gissurarson). Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2014.

 

Flokkun : Menning, Pistlar
1,477