Deyfilyfið
Öflugasta deyfilyf samtímans heitir Facebook og það er tekið inn af öllum sem á annað borð opna fíkniboxið sitt. Tölvuna það er að segja.
Fyrir nokkrum árum sagði ég að bloggið hefði leyst af hólmi þá sér-íslensku tuðhefð sem kallast kveðskapur; áðurfyrr orti fólk níðvísur til að losa um reiði í garð yfirvalda og svo kom bloggið og við skrifuðum sum úr okkur uppsafanaða gremju með reglulegu millibili áður en við snerum okkur að því að fylla út skattaskýrsluna eða plana sumarfríið.
Núna er það Facebook sem tekur við óánægjunni, ekki bara þeirra okkar sem áður blogguðu oft á mánuði, heldur allra hinna sem ekki nenntu því eða sjá sér einhverra hluta vegna ekki fært að tjá sig nema í stuttu máli.
Reyndar er það orðið svo í mínu tilfelli, eftir sjö ár á Facebook, að ég get ekki lengur tjáð mig nema í stuttu máli og það er bara þegar ég er andsetinn og einhver skrifar í gegnum mig að lengra tuð eins og þetta er neglt í rafræn orð.
En Facebook er sumsé deyfilyfið sem heldur æstum múgnum af götunum því eftir nokkrar færslur og athugsemdir á samfélagsmiðlinum góða er mestur vindur úr fólki og það snýr sér að skattaskýrslunni og sumarfríspælingum aftur, fegið að hafa komið reiðinni svo snyrtilega frá sér að ráðamenn sveið undan lestrinum þótt stuttur væri.
Og Facebook sparar greiningadeild löggunnar sporin því spæjararnir þurfa ekki að ráfa um og taka myndir af mótmælendum sem væru daglegir gestir á Austurvelli vegna þess að þeim nægir að sitja við skrifborð með hríðskotabyssu í efstu skúffunni og taka skjámyndir af þeim sem fara yfir þau strik sem yfirvöld hafa málað í kringum sig.
Reyndar er ég hissa á því að ríkislögreglustjórinn hafi ekki beðið innanríkisráðherra um nokkrar loftvarnabyssur um leið og hann pantaði tætarana, því forsætisráðherrann sætir endurteknum loftárásum og dregur víglínur í skýin, en þetta var útúrdúr.
En. Á meðan við yrkjum níð í óhefðbundnu formi á Facebook og hellum þannig úr skálum reiði okkar þegar hvert hneykslið skekur í okkur sálartetrið, hver óhæfisstjórnvaldsuppákoman á fætur annarri dynur yfir okkur og vildarvinum eru færðar auðlindir landsins að gjöf og þeir þakka fyrir sig með uppréttri löngutöng, eru stjórnvöld samt örugg með sig því þau þekkja sína þjóð og vita að hún er samansafn tuðara og röflara sem aldrei munu nenna að standa upp af þjóðarrassgatinu og hleypa öllu í bál og brand.
Og nú þegar ég hef ausið þessu úr mér, ætla ég fara út og bera í pallinn.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015