Búsetublús
Ég veit ekki alveg hvort það er hægt að leggja einhverja dýpri merkingu í það þegar frambjóðandi í sveitarfélaginu mínu, Fjarðabyggð, segist ekki geta hugsað sér að búa í byggðarlaginu mínu, Stöðvarfirði, sem nota bene er í Fjarðabyggð.
Sjálfsagt er það minnimáttarkennd og heimóttarskapur að lesa eitthvað annað en persónulegan smekk frambjóðandans út úr þessum ummælum; það er örugglega gróf oftúlkun að hugsa, hvað þá segja: Hmmm…frambjóðandinn er að segja þeim sem vilja flytja austur á land að það sé ekki fýsilegt að búa á Stöðvarfirði.
Auðvitað vill fólk ekki búa hvar sem er, það er ósköp skiljanlegt. Ég segi til dæmis fyrir mína parta, að ef ég pakkaði dótinu mínu saman og tæki mig upp héðan frá Stöðvarfirði myndi ég ekki vilja flytja í annað smápláss úti á landi. Ég myndi flytja til Reykjavíkur eða úr landi fyrst ég væri á annað borð búinn að pakka saman. Annað væri lítil tilbreyting og eiginlega tilgangslaust.
En ég er ekki í framboði og það skiptir engu máli hvort ég gæti hugsað mér að búa á Fáskrúðsfirði eða Norðfirði; Mjóafirði, Eskifirði eða Reyðarfirði. Það er öllum sama um það vegna þess að ég er ekki að sækjast eftir því að ráðskast með útsvar fólksins í þessum ágætu þorpum; ég er ekki að bjóða mig fram til að vera talsmaður þess í baráttunni um lífsgæðin; ég er ekki að biðja fólkið um að kjósa mig vegna þess að ég beri hag þess fyrir brjósti.
Ég þekki þennan frambjóðanda ágætlega og bara af góðu einu. Ég þykist vita að hún meini ekkert vont með því að segjast ekki geta hugsað sér að búa á Stöðvarfirði um leið og hún biður Stöðfirðinga að kjósa sig inn í bæjarstjórn. En samt þykir Stöðfirðingum vont að heyra þetta og ég bið íbúa annarra byggðakjarna að taka Stöðvarfjörð út úr þessari yfirlýsingu frambjóðandans og setja nafnið á plássinu sínu þar inn í staðinn.
Eða væruð þið til í að framlengja þetta aðeins og heyra þriðja mann á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu alþingiskosningar segja: Fjarðabyggð er flott en ég gæti ekki hugsað mér að búa þar.
En líklega yrði þá bara um persónulegan smekk frambjóðandans að ræða og enginn í Fjarðabyggð myndi taka það óstinnt upp.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015