Breytingin
Þetta eru alveg hábölvaðar alþingiskosningar.
Skoðanakannanir eru svo samhljóða, að við stöndum að óbreyttu frammi fyrir miklu verr mönnuðu alþingi eftir en áður.
Eiríkur Bergmann hafði orð á þessu í einhverjum fréttatímanum, en það fékk ekki mikla athygli. Breytingin er fólgin í þessu:
Að óbreyttu verður Viðreisn ekki áfram á þingi. Frjálslyndur, alþjóða- og jafnréttissinnaður flokkur, á stundum of hægrisinnaður fyrir minn smekk, en laggó – sem fékk ofaníkaupið félagsmálaráðherra sem mér hefur sýnzt segja og gera nokkurn veginn allt rétt, hvort sem kemur að jafnrétti, öryrkjum eða öðrum réttlætismálum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann hefur líka staðið sig vel að mestu – ekki dansað með sérhagsmunum eins og allir forverar hennar.
Um fjármálaráðherrann þykir mér fleira. Of íhaldssamur í ríkisfjármálum og sérstaklega var undarleg hugmynd hans um að hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu gæti verið gagnleg gengislækkunaraðferð.
En olræt. Ég myndi samt kjósa alla þingmenn Viðreisnar um bæði jól og páska. Þetta er gott, vel meinandi og gagnlegt fólk.
Að óbreyttu verður Björt framtíð heldur ekki áfram á þingi. Þar er nú annar frjálslyndur, alþjóða- og jafnréttissinnaður flokkur, á stundum aðeins of óljós og fljótandi fyrir minn smekk, en laggó.
Ég myndi kjósa alla þingmenn Bjartrar framtíðar vetur, sumar, vor og haust. Þetta er gott, vel meinandi og gagnlegt fólk.
Hvað fáum við svo í stað þessara tveggja flokka – að óbreyttu? Miðflokk Sigmundar Davíðs og Flokk fólksins.
Úr því að Bó er byrjaður að auglýsa jólatónleika vil ég ekki tala illa um fólk. Í sumum tilvikum þarf þess heldur ekki.
En þessi er semsagt breytingin. Í stað frjálslyndis og alþjóðahyggju fáum við illa dulbúna þjóðrembu- og einangrunarhyggju.
Er of seint að hætta við þessar helvítis kosningar?
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019