Bréf til vinkonu
Elsku Kata.
Já, ég ætla að kalla þig það, af því að mér líður þannig. Það væri líka tilgerðarlegt að breyta því eftir tuttugu ára vinskap.
Í ávarpinu felst engin óvirðing, þvert á móti. Ég hef borið mikla virðingu fyrir þér og vil fyrir alla muni halda því áfram.
Það er nú verkurinn.
Það urðu mér og mörgum fleiri ómæld vonbrigði þegar þú ákvaðst að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum – af mörgum ástæðum. Ég skal nefna örfáar á eftir.
En einhvers staðar í litla heilanum blundaði samt jákvæður þanki: „Kannske verður þetta ekki svo slæmt. Kata verður forsætisráðherra. Hún er réttsýn og fylgin sér, og lætur enga vitleysu viðgangast. Hún er ekki valdapólitíkus af gamla skólanum eins og Steingrímur Joð, sem er tilbúinn að semja um og verja hvað sem er ef hann fær að halda völdum.“
Svona getur maður nú verið bjartsýnn og jákvæður, kæra mín.
En svo gerðist það. Við fyrstu mótstöðu var allt gefið eftir. Þegar dómsmálaráðherrann þinn hafði verið ítrekað dæmdur fyrir lögbrot og við blasti að skattgreiðendur þyrftu að greiða stórfé í bætur þess vegna, þá ákvaðst þú og flokkurinn þinn að það væri bara alltílæ.
Í þingsal voru fluttar svona ræður, efnislega: „Við ætlum að styðja þennan dómsmálaráðherra, þrátt fyrir lögbrotin sem við vorum brjáluð yfir fyrir kosningar, af því að það er svo mikivægt að vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.“
Við þetta urðu meiraðsegja bjartsýnisverur eins og ég frekar efins. Eða fengu kannske grun um að versti óttinn væri rökstuddur.
Rifjum aðeins upp.
Síðasta ríkisstjórn sprakk af því að Bjarni Benediktsson var – tja, hvernig eigum við að orða það? Hann var ekki alveg hreinskilinn við samráðherra sína um mál barnaníðings, sem tengdist honum beint. Sumsé málið, ekki glæpamaðurinn. Held ég.
Þarsíðasta ríkisstjórn sprakk út af Panama-skjölunum, einkum vegna ósanninda og spunavaðals Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. (Það eru bara tvö og hálft ár síðan. Manstu?)
En Sigmundur var ekki einn í Panama-skjölunum. Þar var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra líka alveg ljóslifandi, bæði í gegnum félagið Falson og aflandsfélög föður síns.
Bjarni Benediktsson skrökvaði ítrekað um Falson og umsvif þess. Auk þess sá hann í reynd um fjármálavafstur föður síns, eins og umfjöllun Stundarinnar hefur afhjúpað rækilega. Það er ekki falleg lesning.
Hinn lögbannaði fréttaflutningur Stundarinnar sýndi líka að fjármálaráðherrann þinn var ekki bara einhver umsvifamesti fjármálabraskari landsins, heldur stundaði hann líka veðmál út á eigin reikning – eða þannig. Hann veðjaði á að þessi og hin hlutabréfin myndu hækka eða lækka í verði og tapaði á því tugum milljóna.
Hann var á þessum tíma alþingismaður með hálfa milljón í mánaðarlaun eins og þú. Þegar veðmálin reyndust vera vitlaus borgaði pabbi skuldirnar. Hefurðu spurt fjármálaráðherrann þinn, kæra vinkona, hvernig hann gerði þann gjafagjörning upp við skattinn? Eða gerði hann það alls ekki?
Hefurðu spurt fjármálaráðherrann þinn hvernig hann telur fram sem hlunnindi gistingu svo mánuðum skiptir í húsinu á Flórida, sem var þegar síðast spurðist í eigu aflandsfélags föður hans? Það heitir Greenlight Holding, ef þig langar að fletta því upp. Eða langar þig ekki að vita það?
Svona mætti áfram telja mjög lengi, en þá kæmist ég í vont skap. Þú getur gúgglað þetta eða lesið Stundina. Eða teygt þig upp í hillu í bók sem heitir Hinir ósnertanlegu.
Ég þykist samt vita hvert svarið er. Nei, ekki þetta óskiljanlega um að fórnarlambið hann Bjarni Benediktsson og hans „siðferðilegu álitamál“ séu bara afsprengi gallaðs kerfis og þess vegna sé ótilhlýðilegt eða jafnvel ósmekklegt að ýja að því – sem smotteríi eða aukaefni – að það skipti einhverju máli að hann sé fjármálaráðherra landsins.
Nei, þú reynir áreiðanlega að tala um málefni. Árangurinn. Í umhverfismálum, jafnrétti og öllu því. Og náttúrlega sveigjanleika krónunnar.
Jamm. Eigum við að tala um réttlátara skattkerfi, þegar fjármálaráðherrann þinn segir hátekjuskatt „ekki til umræðu“? Eigum við að tala um náttúruvernd og sjókvíaeldi? Eigum við að halda áfram um sitthvað annað smálegt, sem flokkurinn þinn segist standa fyrir? Og þar með þú.
Ekki? Ókei, sleppum því þá. Segðu mér frekar, hjartans Kata mín, hvers vegna er svona mikilvægt að vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum? Með Bjarna Benediktssyni braskara og Sigríði Andersen, dómsmálaráðherra sem tekur ekki mark á dómstólum? Þetta eru ráðherrarnir þínir.
Er það vegna þess hvernig Brynjar Níelsson talar um jafnréttismál? Hvernig Ásmundur Friðriksson talar um útlendinga? Hvernig Birgir Ármannsson drekkir nýju stjórnarskránni og öllum öðrum tillögum til úrbóta í innantómu lagastagli?
Vonandi veiztu svarið. Mig grunar samt að svo sé ekki. Þá fer ég að hugsa um að þú sért orðin eins og Steingrímur Joð. Það er óendanlega vont. Af því að mér þykir vænt um þig.
Knús og allt sem er gott.
Kalli.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019