trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 08/05/2015

Bleikur strokkur, íslenska moskan í Feneyjum og listin sem tækni

Árið 1917 birti rússneski formalistinn Viktor Shklovskíj grein sem heitir (í þýðingu Árna Bergmanns) „Listin sem tækni“. Í greininni ræðst hann gegn þeirri viðteknu skoðuns þess tíma að list (og þar með talið skáldskapur) sé „sérstök aðferð hugsunar, nánar tiltekið sú aðferð að hugsa í myndum“ eins og segir í greininni.

„Ef að allt hið flókna líf fjölda manna líður hjá í meðvitundarleysi, þá er sem lífi þeirra hafi aldrei verið lifað,“ hefur Shklovskíj eftir Tolstoj og bætir við:

Og það sem við köllum list er til svo að unnt sé að endurheimta tilfinninguna fyrir lífinu, til að menn séu næmir á hlutina, til að steinninn sé sannarlega úr steini. Tilgangur listar er að gefa tilfinningu fyrir hlutum eins og við skynjum þá og sjáum en ekki eins og við séum að kannast við þá. Tækni listarinnar er fólgin í þeirri aðferð að gera hlutina framandi, þeirri aðferð að gera formið torvelt, að auka á erfiðleika skynjunarinnar og teygja úr henni, þar eð skynjunarferlið er listrænt markmið í sjálfu sér og verður því að framlengja. Listin er aðferð til að upplifa það hvernig hlutur verður til, en það sem þegar hefur verið búið til skiptir ekki máli.

Oft hef ég hugsað til greinar Shklovskíjs. Það er svo merkilegt hvað list getur stuðað besta fólk, farið í taugarnar á því og jafnvel gert það bálreitt. Og þá er hún einmitt að fá okkur til að hugsa hlutina upp á nýtt, velta þeim fyrir okkur að nýju. Spyrja spurninga.

Fyrir tveimur vikum setti síleíski listamaðurinn Marco Evaristti rauðan ávaxtalit í hverinn Strokk. Ávaxtaliturinn hvarf á nokkrum klukkustundum og olli engum skaða í lífríkinu. Afraksturinn voru bleik gos sem hann myndaði. Myndirnar og gjörningurinn sem gengur undir nafninu The Rauður Thermal Project, eru nú hluti af Pink State seríunni þar sem hann hefur litað náttúrufyrirbrigði bleik og myndað þau. Verk hans má skoða hér.

Beiki strokkurinn vakti hneykslan og reiði margra. Sumir töldu hann sýna íslenskri náttúru – okkar helgustu véum – óvirðingu. Hann var reyndar kærður fyrir athæfið og á að greiða kr. 100.000.- í sekt. Í frétt á RÚV segir:

Sjálfur segir Evaristti að öll þessi reiði og neikvæðni sé hins vegar jákvæð því hún bendi til þess að fólki sé ekki sama um náttúruna.

„Ég fór ekki til Íslands til að vinna skemmdarverk, en það gleður mig alltaf þegar listin mín opnar augu fólks. Ég get fullvissað ykkur um að liturinn sem ég notaði var meinlaus ávaxtalitur og Strokkur var orðinn eins og hann á að sér að vera klukkan þrjú þennan sama dag, þegar lögreglan kom í heimsókn,“ segir Evaristti á Facebook síðu sinni.

„Eftir að hafa verið yfirheyrður af lögreglu var ég sektaður fyrir að skemma Strokk. En þar sem ég trúi því ekki að þetta meinlausa inngrip mitt hafi skemmt Strokk varanlega ætla ég að fara með málið fyrir dómstóla,“ segir Evaristti.

Og um þetta finnst mér gaman að hugsa, ekki síst vegna þess að verk Evaristti minnir um margt á verk Ólafs Elíassonar Green River frá 1998 en Ólafur litaði ýmsar ár, víða um heim, grænar með skaðlausum litum og myndaði þær. Engum sögum fer af leyfisveitingum, allavega ekki hér á landi og ég man ekki til þess að gerð verksins hafi valdið hneykslan og reiði í samfélaginu. Þvert á móti. Við erum alltaf jafnstolt af „stráknum okkar“ sem segist þó sjálfur frekar vera alþjóðlegur listamaður frekar en íslenskur eða danskur, rétt eins og Evaristti sem er frá Síle en býr í Danmörku.

Samanburðurinn vekur margar spurningar. Af hverju eru viðbrögðin svona ólík? Er það vegna þess að annar er útlendingur en hinn næstum alveg íslenskur? Eða er það vegna þess að samfélagið hefur breyst? Árið 1998 var náttúruvernd kannski ekki svo mikið á dagskrá. Þetta var fyrir Kárahnjúka og landinn var enn ekki búin að fá „ganga á fjöll-delluna“ á eins svæsnu stigi. Og kannski erum við hræddari um perlurnar okkar núna þegar við vitum að milljón ferðamenn þramma árlega um okkar viðkvæmu, stígalitlu náttúru? Kannski erum við undir niðri pirruð yfir fjölda ferðamanna og þegar einn þeirra hegðar sér ekki eftir bókinni fær gremjan útrás? Ég hef engin svör við þessu en grunar að sannleikurinn (eins afstætt hugtak og hann getur verið) liggi ef til vill einhvers staðar þarna mitt á milli. En sé tilgangur listarinnar að vekja okkur til meðvitundar og sjá hlutina í nýju ljósi hitti bleiki hverinn beint í mark. Hann hefur vakið harðari viðbrögð en margt sem skemmir náttúruna með varanlegum hætti.

10384895_373387446188180_4029887904585977906_n

Mynd: Marco Evaristti, birt með leyfi listamannsins.

Í dag opnar íslenski skálinn á Feneyjartvíæringnum. Í þetta sinn er framlag Íslands verk eftir listamanninn Christoph Büchel, svissneskan listamann sem hefur verið búsettur á Seyðisfirði í fjölda ára. Verkið er Moskan – Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyjaog er það staðsett í afhelgaðir kirkjubyggingu frá 10. öld. Mér finnst þetta fallegt hugmynd og væri til í að skreppa og skoða verkið sem unnið er í samvinnu við samfélög múslima á Íslandi og í Feneyjum. Guðmundur Oddur Magnússon prófessor sem er á svæðinu segir andrúmsloftið fallegt og friðsælt og ég trúi honum alveg.

Samt ætlaði allt að verða vitlaust í gær, bæði í Feneyjum og á Íslandi. Samfélagsrýnir sagði verkið langsótt, svo dæmi sé nefnt:

Furðuleg er sú ráðstöfun að senda svissneskan myndlistarmann sem fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringinn.

Þar setur hann upp verk sem einhvern veginn kemur Íslendingum voða lítið við, er sprottið upp úr hugmyndaheimi sem við þekkjum vart og er kominn langt sunnan úr Evrópu. Listamaðurinn, Christoph Buchel, setur upp mosku í kaþólskri kirkju. Með afar langsóttum hætti er í sýningarskrá reynt að tengja þetta við múslima á Íslandi.

Í Feneyjum gekk erfiðlega að fá leyfi fyrir verkinu, eins fáránlega og það hljómar í landi þar sem trúfrelsi ríkir og húsið ekki talið hættulegt mönnum. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Björgu Stefánsdóttur framkvæmdastjóra Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar að þótt í orði sé ástæðan fyrir því að leyfið hafi ekki verið veitt tengd öryggismálum þá væri það ekki fyllilega ljóst hvers vegna leyfið kæmi ekki, svör væru óskýr og lagatæknilegar flækjur allnokkrar. Sumir telji að yfirvöld vilji ekki banna sýninguna, enda væri það óheppilegt afspurnar, heldur kysu að aðstandendur íslenska skálans myndu sjálfir hætta við. Þrýstingurinn hefur því greinilega verið allnokkur og hryðjuverkaógn nefnd sem skýring en þó fór það svo að sýningin var opnuð kl. 10 í morgun eftir að munnlegt leyfi fékkst.

Allt þetta vesen, hneykslan og þrýstingur hlýtur að sanna að verkið á erindi – bæði hér á landi og í Feneyjum. Tengslin við þá fáránlegu umræðu og mótstöðu sem moska í Vatnsmýrinni hefur mætt hér á landi blasa við. Það er ansi magnað að hægt sé að framkalla viðbrögð við verkinu í Feneyjum sem endurspegla samfélagið á Íslandi því viðbrögðin verða ekki skilin frá hinu efnislega verki. Þau eru einmitt stór hluti af því.

Inauguration

Flokkun : Efst á baugi
1,261