Bæjarráð Ísafjarðar – Falleinkun
Gjáin á milli landsbyggðar og höfuðborgar er staðreynd. Því miður. Þúfnahyggjan og margra ára varnarbárátta og óttastjórnun hafa fært okkur þessi ósköp. Kosningakerfið viðheldur síðan kerfinu þar sem vægi atkvæða er misjafnt eftir búsetu og rúmar að auki 74 sveitarfélög sem langflest eru varla starfhæf sökum smæðar.
Þessi gjá birtist okkur m.a. í bókun bæjarráðs Ísafjarðar í tilefni af fyrirhuguðum flutningi Fiskistofu til Akureyrar:
30. júní 2014
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar áformum um flutning Fiskistofu út á land. Vonandi verður þetta til þess að fleiri stofnanir og verkefni á vegum hins opinbera verði flutt á landsbyggðirnar á næstum misserum. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bendir á að engin starfsemi Fiskistofu hefur verið á Ísafirði frá áramótum þrátt fyrir fyriráætlanir stjórnvalda að byggja upp starfsemina. Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að fjölga störfum Fiskistofu á Ísafirði og byggja enn frekar upp starfsemi Hafrannsóknar¬stofnunar á Ísafirði vegna nálægðar við fiskimið og fiskeldi. Vestfirðir er sá landshluti þar sem fólksfækkun hefur orðið hvað mest og er nauðsynlegt að grípa til alvöru byggðaaðgerða. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hvetur stjórnvöld til að horfa til Vestfjarða þegar flytja á störf út á land til að styrkja stoðir vestfirskrar byggðar.
Bæjarráð Ísafjarðar fagnar og hvetur ríkisstjórnina til dáða. Það er óhætt að segja að bæjarráðið taki ekki sama pól í hæðina og starfsfólk Fiskistofu sem er verið að flytja hreppaflutningum til Akureyrar:
Óhætt er að gagnrýna vinnubrögð stjórnvalda við þá aðferðafræði leifturárásar sem beitt var við kynningu ákvörðunarinnar, sem birtist starfsmönnum eins og þruma úr heiðskíru lofti. Í kjölfarið upplifa margir í senn vanlíðan og lítilsvirðingu við störf sín og fagþekkingu. Engin rök eru enn fram komin sem hníga til þess að ná megi fram fjárhagslegum ávinningi, eða hagræðingu með flutningi stofnunarinnar. Þvert á móti má búast við að kostnaður við flutningana geti verið mun meiri en láti er í veðri vaka skipt. Sá mannauður sem stofnunin býr yfir virðist jafnframt einskis metinn.
Maður hefði talið eðlilegra að bæjarráðið sýndi þessu starfsfólki hluttekningu í stað þess að fagna svo mjög. Ef einhverjir þekkja stöðuna, sem þetta starfsfólk og fjölskydur þess eru í, þá eru það íbúar Vestfjarða. En það er greinilega ekki sama hver á í hlut eins og lesa má í annarri bókun bæjarráðsins fyrir nokkrum vikum. Sú bókun var sett fram af því að einkafyrirtæki ákvað að flytja starfsemi sína frá Vestfjörðum til Grindavíkur. Þá var allt annað hljóð í strokknum – samfélagsleg ábyrgð og ýmislegt fleira:
7. apríl 2014
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar telur útilokað fyrir eigendur Vísis hf., að loka starfsstöðvum Vísis á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi, án samráðs við þá aðila sem málinu tengjast. Í ljósi þess hvernig til starfseminnar var stofnað er ekki rétt að Vísir hf. á Þingeyri taki þessa ákvörðun án samráðs við Ísafjarðarbæ og aðra hlutaðeigandi aðila. Ef fyrirtæki ætla að eiga fullan þátttökurétt í samfélaginu þá eiga þau skilyrðislaust að sýna meiri samfélagslega ábyrgð en þarna birtist. Þessi tíðindi ættu jafnframt að vera stjórnvöldum áminning um að gera þær breytingar sem þarf svo að fiskveiðistjórnunarkerfið tryggi trausta atvinnu og byggð í landinu, eins og því er ætlað.
Á norðanverðum Vestjfjörðum búa 4800 manns. Þar eru rekin 3 sveitarfélög og þau halda uppi þrefaldri stjórnsýslu. Yfirbyggingin í kringum þessa stjórnsýslu kostar um 230 m.kr. á ári (þá er ekki verið að tala um sviðsstjóra eða aðra stjórnedur sveitarfélagsins). Skatttekjur eru samtals 2,8 milljarðar en þar af eru tekjur úr jöfnunarsjóði um 740 m.kr. eða 26%. Með sameiningu þessara sveitarfélaga – svo ekki sé talað um sunnanverða Vestfirði – mætti spara verulega fjármuni og þá mætti nota í uppbyggilega hluti á Vestfjörðum.
Hvers vegna ætli bæjarráð Ísafjarðar álykti aldrei um þetta? Ekki undir 100 milljónir á ári sem mætti nota til nýsköpunar á svæðinu – það væri nú eitthvað. En bæjarráðið er fast í gömlum hugmyndum og úreltri byggðastefnu. Bæjarráðið veltir ekki fyrir sér afleiðingum aðgerða stjórnvalda heldur fagnar hugmynd sem byggð er á hugmyndafræði þar sem sambærilegar aðgerðir hafa allar misheppnast. Vestfirðingar eru háðari sjávarútvegi meira en flestir á Íslandi. Það getur því bitnað illa á Vestfirðingum ef Fiskistofa lendir í hremmingum og ef starfsemi hennar verði ófaglegri. Það er nefnilega þannig að ef enginn flytur með Fiskistofu á Akureyri er hætt við að fagleg þekking glatist. En það virðist engu skipta. Bæjarráð Ísafjarðar kolféll því miður á prófinu.
- Bæjarráð Ísafjarðar – Falleinkun - 01/07/2014
- Af hugmyndafræði og raunveruleika - 22/06/2014
- Hriplek vörn landsbyggðarinnar - 18/06/2014