Árangur Vinstri grænna
Katrín Jakobsdóttir flutti fróðlega ræðu á flokksráðsfundi Vinstri grænna í dag.
Hún rakti þar meðal annars hversu miklum árangri flokkurinn hefði náð í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi, sem hefði þó verið svo umdeilt.
Sérstaklega tiltók hún aukinn jöfnuð, aukna fjárfestingu í menntun, stórátak í umhverfismálum og mikil áform í jafnréttismálum.
Þið getið lesið ræðuna hér, til dæmis krúsidúlluna um að hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20 í 22 prósent sé hækkun „um tíu prósent“. Þetta er strangt til tekið alveg rétt og hljómar náttúrlega mun betur en „hækkun um tvö prósentustig“. En trixið sýnir líka að Katrín hefur lært aðeins of mikið í pólitík.
Hið sama gildir um allan árangurinn. Ekki ætla ég að gera núna athugasemdir við einstaka liði eða fullyrðingar þar, en vekja athygli á því sem er ekki sagt.
Katrín Jakobsdóttir hefði nefnilega getað flutt miklu magnaðri og flottari ræðu ef flokkurinn hennar væri ekki í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Hún hefur ekki náð árangrinum, sem hún er svo stolt af, vegna samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn heldur þrátt fyrir það.
Það stóð nefnilega til boða að mynda annars konar ríkisstjórn eftir síðustu kosningar – með Samfylkingu, Viðreisn, Pírötum og Framsóknarflokki eða Flokki fólksins.
Meginrök Katrínar fyrir því að hafna þessum möguleika voru að meiri hlutinn yrði of tæpur, jafnvel aðeins 32 þingmenn. Sú röksemd féll um sjálfa sig um leið og núverandi ríkisstjórn var mynduð og Vg misstu tvo þingmenn fyrir borð. Stjórnarmeirihlutinn er nefnilega aðeins 33 þingmenn.
Lífið gerist ekki í viðtengingarhætti eða skildagatíð, en það væri samt mjög gagnlegt fyrir Katrínu og félaga hennar á fundinum að velta fyrir sér hvers konar ræðu um árangur og uppbyggingu hún hefði getað flutt sem forsætisráðherra í annars konar ríkisstjórn.
Við þurfum ekkert að lýsa slíkri ræðu. Vinstri græn vita alveg sjálf hvernig hún hefði getað orðið.
Þess í stað kaus flokkurinn að gera Bjarna Benediktsson að fjármálaráðherra eitt kjörtímabil í viðbót. Þess í stað kusu Vinstri græn að standa vörð um Sigríði Andersen sem dómsmálaráðherra.
Þess í stað kusu Vinstri græn að fara í ríkisstjórn sem á líf sitt undir Ásmundi Friðrikssyni og Brynjari Níelssyni. Fyrir utan allt hitt.
Það er út af fyrir sig einhvers konar árangur. Ég ætla samt að stilla mig um að óska þeim sérstaklega til hamingju með hann.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019