Afnám veiðigjalda
Fram er komið á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld. Við fyrstu sýn vekur einkum athygli hve klén lagasmíð þetta frumvarp er. Efnið er rýrt, rökstuðningur marklítill, engar upplýsingar um efnislegar forsendur eða talnalegar staðreyndir. Þetta breytir því þó ekki að á ferðinni er mál sem er alvarlegt langt umfram þann örlætisgjörning að gefa kvótagreifum landsins nokkra milljarða af eign þjóðarinnar til viðbótar.
Lögin um veiðigjöld eru auðlindamál fremur en tekjuöflunarmál. Þau voru sett með það grundvallarsjónarmið í huga að rétturinn til veiða í fisksveiðilögsögu Ísland sé eign þjóðarinnar, hann sé ein af náttúruauðlindum hennar. Eign þjóðarinnar á þessari auðlind felur í sér tilkall til þess auðlindaarðs sem nýting hennar skapar.
Í gildandi lögum um veiðigjöld segir að annar tilgangur laganna sé „að tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar.“ Í samræmi við það voru í upphaflegu lögunum skýr tengsl á milli auðlindarentu í fiskveiðum og veiðigjaldanna. Fjölluðu þau að mestu um það hvað eigandi auðlindarinnar, þjóðin, skuli fá í sinn hlut af umframarðinum eða rentunni af fiskveiðiauðlindinni og hve stóran hlut útgerðir skuli fá til viðbótar við eðlilegan hagnað af þeim fjármunum sem þær hafa lagt fram. Með lagafrumvarpinu nú eru þessi tengsl rofin og ekkert rökrænt samhengi er lengur á milli tilgangs laganna og ákvörðunar veiðigjaldanna og reyndar lítil vitræn hugsun í aðferðafræði frumvarpsins.
Meginefnisatriði frumvarpsins er að ákveða heildarfjárhæð veiðigjalda og þar með hlutdeild þjóðarinnar í umframarðinum af fiskveiðiauðlindinni. Engin málefnaleg sjónarmið er þó að finna í frumvarpinu eða greinargerð þess fyrir því hvernig heildarfjárhæð veiðigjalda er ákveðin. Engar talnalegar forsendur eru þar, aðeins slegið fram tölum sem hafa enga efnislega þýðingu, eins og komið verður að síðar, og varpa engu ljósi á niðurstöðuna. Fátækleg umfjöllin greinargerðarinnar virkar sem yfirklór til að fela geðþóttaákvörðun. Ákvæði frumvarpsins um heildarfjárhæð veiðigjalda hanga í lausu lofti. Þau eru ekki í neinu röklegu samhengi við önnur ákvæði laganna og ekki rökstudd á neinn hátt.
Þess er að vísu getið að um sé að ræða ákvörðun til eins árs, sem á e.t.v. að vera afsökun á slælegum vinnubrögðunum, en samt er látið að því liggja að frumvarpið byggi á því að „mikil vinna (hefur) verið unnin á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og laga um veiðigjöld.“ Látið er að því liggja að við ákvörðun heildarveiðigjalda sé miðað við að þau séu tiltekið hlutfall af EBT hagnaði. Má líta á það sem vísbendingu um það sem koma skal í þeim efnum og er þá endanlega slitin tengsl veiðigjalda og auðlindarentu. Í gildandi lögum er gjaldtakan miðuð við við umframarð í fiskveiðum eða auðlindarentuna, þ.e. tekjur af sjávarútvegi að frádregnum rekstrarkostnaði, raunkostnaði fjárfestingar og eðlilegum hagnaði. Nú stendur til að miða við það sem á máli fjármálatæknimanna er kallað EBT hagnaður en það eru tekjur af fiskveiðum að frádregnum rekstrarkostnaði, afskriftum og fjármagnsliðum svo sem vöxtum verðbótum, og gengismun.
Þessi aðferðafræði og þær tölur sem vitnað er til í greinargerðinni eru framhald af þeim talnaleik sem Deloitte setti á svið fyrir umbjóðendur sína, LÍÚ, við meðferð upphafslegs furmvarps um veiðigjöld. Hann felst ekki síst í því að telja eingöngu fram tekjur af fiskveiðum en taka til frádráttar vexti og annan fjármagnskostnað vegna peningalegra eigna sem eru fiskveiðum óviðkomandi svo sem vegna kaupa félaga á verðbréfum og eignarhlutum í öðrum fyrirtækjum o.fl. Reikningar útgerðarfyrirtækja bera það með sér að þau eiga miklar peningalegar eignir, reiðufé og innistæður, verðbréf og eignarhluti. Af 535 milljarða heildareign sjávarútvegsfyrirtækja skv. yfirliti Hagstofu Íslands í árslok 2012 eru um 330 milljarðar í reiðufé, áhættufjárfestingum og öðrum eignum en rekstrarfjármunum.
Því verður vart trúað að íslenskir stórbissnessmenn láti þessa fjármuni liggja án ávöxtunar en engar tekjur eru reiknaðar af þessum eignum, ekki vextir af bankareikningum og verðbréfum og enn síður arður eða hagnaðarhlutur af dótturfyrirtækjum t.d. þeim fyrirtækjum sem stóru útgerðarfyrirtækin eiga erlendis og sjá um sölu á erlendum mörkuðum. Hvort og hvernig hagnaður þeirra kemur til gjaldeyrishungraðs lands er svo önnur saga. Það að tekjurnar eru ekki taldar fram kemur ekki í veg fyrir að allur fjármagnskostnaður, líka sá sem er tilkominn vegna þessara eigna, er tíundaður og talinn til frádráttar. Þetta og það hvernig reikningshaldi er varið í þessum efnum er þess valdandi að þessi aðferðafræði getur aldrei orðið vitræn leið til að nálgast raunhagnað og auðlindarentu í fiskveiðum.
Stóraukin renta í fiskveiðum á síðustu árum er ekki vegna breytinga á starfsemi fyrirtækja eða fjárfestingum. Hún er að langmestu leyti komin til vegna hækkunar á fiskverði, aðallega vegna lækkunar krónunnar. Til að lýsa þeim áhrifum má nefna að lækkun á gengi íslensku krónunnar um 10% hækkar tekjur útgerðarinnar um ca 25 milljarða í íslenskum krónum. Útgerðarkostnaður mældur í gjaldmiðli söluteknanna breytist ekki. Olía, vextir o.s.fr kostar jafnmarga þorska og áður. Innflutningur neysluvöru á árinu 2012 var áþekk fjárhæð og söluandvirði fiskafurða. Með 10% gengislækkun hækka þessar vörur um ca 25 milljarða, sem neytendur í landinu þurfa að greiða til viðbótar. Hækkun tekna í sjávarútvegi og aukin auðlindarenta vegna lækkunar á gengi krónunnar er þannig tekið beint úr vasa almennings. Það er ekki torvelt að skilja dálæti útgerðarmanna á íslensku krónunni sem dælir fé í vasa þeirra í viðvarandi niðursveiflu og eiga svo vísa hjálp stjórnvalda, eins og frumvarp þetta sýnir, ef krónan vogar sér að rétta úr kútnum eitt andartak.
Af þeim ástæðum, sem tilgreindar hafa verið, gefur skattstofn sem þessi ekki rétta mynd af afkomu fiskveiða og breytingu á auðlindarentunni en mun breytast með ýmsum ráðstöfunum sem hafa ekkert með rentuna að gera. Þannig mun aukin skuldsetning hækka frádráttarbæra fjármagnliði og yfirfjárfesting auka afskriftir sem hvort tveggja leiðir til lækkunar á stofni veiðigjaldanna. Skuldsetning getur hækkað vegna viðskipta með kvóta milli útgerða, lántöku til að borga út arð eða stofnunar dótturfélaga t.d. ef útgerðir ákveða að kaupa fjölmiðil til að sannfæra þjóðina um eigið ágæti. Kostnaðurinn yrði borinn að hluta með lækkun veiðigjalda og þjóðin greiddi eigin heilaþvott. Uppsöfnun arðs í erlendum sölufyrirtækjum í stað þess að nýta hann til að greiða niður skuldir hefur sömu áhrif.
Þessi aðferðafræði ekki bara órökrétt. Hún felur í sér ótal möguleika til hliðrunar og ómálefnalegra áhrifa á skattstofninn. Hún hvetur til aukinnar bjögunar með verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila hvort sem kaupandinn er innlendur eða skráður erlendis. Hún felur í sér óhagræðishvata af ýmsum toga, svo sem skuldsetningu, lánsfjármögnun kvótaviðskipta, hækkun kvótaverðs og yfirfjárfestingu. Einn af stærstu kostum rentuskattlagningar er að skattaðilar hafa litla möguleika til að hafa áhrif á hana með ráðstöfunum sínum. Í þessu tilviki er því öfugt farið og sýnir enn að ekki er um skattlagningu auðlindarentu að ræða heldur geðþóttaákvörðun útgerðaroligarka og þýlyndra stjórnvalda.
- Engin skattsvik(Enn um örlátan söngvara) - 16/10/2015
- Örláti söngvarinn - 16/10/2015
- Er Skrokkalda kjarabót? - 20/05/2015