Af hverju ég varð aldrei sósíalisti
Ég hef aldrei nokkurn tímann verið sósíalisti. Ekki einu sinni þegar ég var í menntaskóla. Ég skildi aldrei hvernig mannlegt samfélag átti að geta rúmast í einni kenningu. Verkfræðin væri þvílík að mér féllust hendur við tilhugsunina eina saman. Ég sem gat ekki einu sinni komið mér í skólann á réttum tíma.
En svona hef ég alltaf verið. Efasemdarmanneskja frá fæðingu. Sem barn þóttu mér ríkjandi hugmyndir fullorðinna álíka innihaldsríkar og loftbólur. Endalausar reglur um nákvæmlega ekki neitt. Reglur sem átti að fylgja án nokkurs rökstuðnings. Ég hætti að borða morgunmat því enginn virtist vita af hverju það væri hollt. Okkur var sagt að vatn væri hollasti drykkur í heimi, en samt hefur það ekkert næringargildi. Af hverju átti ég að þamba tvo lítra af vatni á dag? Af hverju ekki einn lítra? Eða fimm? Af hverju ekki sykurlaust kók?
Þetta gerði mig óörugga. Mér fannst vont að vita til þess að fullorðna fólkið í lífi mínu léti mig innbyrða fæðu af því að einhver sagði þeim að gera það. Á sama tíma og þau predikuðu um gildi skólanáms, vísinda og þekkingar. Hvers konar samfélag ver milljörðum í menntun og þekkingarþróun þegar fólk getur ekki svarað einföldum spurningum? Eða sagt bara eins og er, að það vissi það ekki.
Já, ég var þreytandi barn. Sem lærði fljótt að fólk reiðist þegar það er spurt spurninga sem það veit ekki svörin við.
Frelsi=markaðsbúskapur=peningar + græðgi
Þetta almenna áhugaleysi um tilgang allra hluta er alveg sérstaklega áberandi í stjórnmálum. Kreddurnar ráða öllu. Í heilögu stríði landsbyggðar og höfuðborgar, einkavæðingar og ríkisreksturs, á engin endurskoðun hugmynda sér stað. Þið getið því rétt ímyndað ykkur hversu mikla lukku það vekur í samkvæmi að kona segist hafi miklar efasemdir um jafnaðarstefnuna, félagshyggju og félagslegt réttlæti. Að henni þyki einstaklingsfrelsið það fallegasta sem til er. Jafnvel þegar það er kuldalegt og vont.
Um leið og fyrstu orðin sleppa tungunni breytist landslagið. Í einu vetfangi er ég stödd í Hungurleikunum, the uncut version. Syndir feðranna leggjast á herðar mínar og ég breytist í Davíð Oddson, Þorgerði Katrínu, hressan músíkant í Vestmannaeyjum, Hannes Hólmstein, og unga stúlku sem vill hvítvín með humrinum (sem er reyndar óvitlaus hugmynd). Ég er spurð hvort ég vilji ‘óheftan markaðsbúskap’, giftast fjárfesti og rukka flóttamenn um skilríki. Er pabbi minn þá kannski ríkur valdsmaður?
Ha? Say whaaaat?
Fyrir utan að það er ómögulegt að vera karl og kona, ung og miðaldra á sama tíma, hef ég aldrei verið gift fjárfesti og er ekki fædd með silfurtrog í munni. Ég hef engan sérstakan áhuga á auðsöfnun og er enn að reyna að sjá samhengið á milli frelsis og óhefts markaðsbúskapar.
Svo ég spyrji nú eins og api: hvenær í ósköpunum urðu peningar og græðgi sami hluturinn? Er græðgi þá ekki til í ófrjálsum samfélögum? Hvar stendur skrifað að frelsi sé hin hliðin á óheftum markaðsbúskap? Og, það sem meira er, síðan hvenær varð Sjálfstæðisflokkurinn uppteknari af peningum en vinstri flokkar?
Samkvæmt mínu viti hugsa vinstri og hægri menn jafn mikið um peninga. Allir hugsa of mikið um peninga. Í stjórnmálum er ekki talað um annað. Hægri menn vilja lækka skatta til að auka velferð í samfélaginu. Vinstri menn, á hinn bóginn, telja lækkun skatta stríða gegn velferð og vilja ekki lækka þá. Allir vilja þó auka velferð okkar hinna.
Á hinn bóginn er ekki minnst einu orði á hamingju, mannlega reisn, örlæti og samhjálp. Og þar, gott fólk, stendur hnífurinn í kúnni.
Andsósíalískt uppeldi
Saga foreldra minna er bæði falleg og harmþrungin í senn. Þau voru heilsuhraust framan af og trúðu því lengi að helsta gæfa fólks væri sú að geta unnið fyrir sér. Pabbi var iðnaðar- og verkamaður sem vann myrkranna á milli. Mamma er lærður leikskólakennari en lét af störfum vegna sjúkdóms fyrir langa löngu. Þau voru bæðin alin upp af harðduglegu fólki. Föðuramma mín saumaði föt á aðra langt fram á nótt en móðuramma mín skúraði Austurbæjarbíó í þeirri von að koma dætrum sínum þremur til náms. Í þeirri baráttu stóð hún eiginmannslaus.
Mér skilst að foreldrar mínir hafi verið frekar hress á þessum árum. Þau sögðu okkur margar sögur af því þegar þau bjuggu á Seyðisfirði í fjögur ár til að safna fyrir íbúð. Mamma hélt afar nákvæmt bókhald í litla stílabók sem er enn til. Í gamla daga, sagði hún hróðug, þurfti fólk sem vildi eignast „almennilegt“ húsnæði að flytja út á land, vinna mikið og safna. Henni fannst það algert lágmark að hún gæti byggt sér hús, menntuð manneskjan. Strit ömmu minnar hefði annars verið til einskis.
Í augum föður míns var ég forréttindamanneskja. Næst á eftir fjölskyldunni elskaði hann Ísland meira en allt. Hann sagði að það væru forréttindi að fæðast á Íslandi. Við systkinin máttum prísa okkur sæl að hafa hvorki upplifað stríð né óvissu, ofbeldi eða hungursneyð. Hann launaði almættinu greiðann og varði stórum hluta frítíma síns í sjálfboðarvinnu á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Ár eftir ár safnaði hann fötum, mat og peningum ásamt bróður mínum og vinum og sendi hungruðum börnum og fjölskyldum þeirra. Hann var einnig virkur i Kiwanis og sagði oft að þar væri hans persónulega velferðarkerfi. Þetta þéttriðna net dásamlegs fólks aðstoðaði foreldra mín og hvert annað hvernig sem stóð á.
Pabbi vann mikið og átti lítið fé en gaf bæði tíma og peninga til að liðsinna öðrum. Hann sagði oft að máltækið „guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir“ ætti ekki við um einstaklinga. Í þessu er verið að vísa til samfélagsins alls, sagði hann. Guð hjálpar því samfélagi sem hjálpar sér sjálft, sem reisir aðra við þegar þeim skrikar fótur. Honum fannst velferðarkerfið heilmilil afturför en það minnti hann á mannfyrirlitninguna í gamla daga þegar hjálparþurfi einstaklingar voru eins og rekald.
Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Jón Baldvin Hannilbalsson og Þorsteinn Pálsson
Samt var ég ekki alin upp í flokkapólitík eða ‘vinstri-hægri’ átökum. Foreldrar mínir voru sam með stjórnmál á heilanum. Á hverju kvöldi glumdi fréttasyrpan í húsinu. Fyrst var hitað upp með útvarpsfréttum á hæsta styrk og svo var kveikt á sjónvarpsfréttum RÚV og Stöðvar 2 strax í kjölfarið. Þar var mikið talað um Steingrím Hermannsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Baldvin Hannibalsson og Þorstein Pálsson. Ég sá engan mun á þeim. Í mínum huga voru þeir einn og sami maðurinn, með fjögur mismunandi nöfn. En foreldrar mínir voru jafn reið út í þá alla.
Pabbi dæsti eða bölvaði en mamma klemmdi saman varirnar.
Í augum pabba voru kosningar merkisviðburður. Þó ekki til að ná fram breytingum, sagði hann, heldur til að standa jafnfætis ráðamönnum.Á kjördag eru allir menn jafnir. Pabbi kaus oftast Sjálfstæðisflokkinn en einstaka sinnum Framsókn. Mamma kaus eins og hann nema í eitt skipti. Þá kaus hún Alþýðuflokkinn til að vera villt. En aldrei litu þau á sig sem Sjálfstæðismenn eða Framsóknarmenn. Allt sem miður fór var engri einni hugmyndafræði um að kenna. Pabbi sagði reyndar að hugmyndafræði ætti ekkert erindi í stjórnmál. Fólk á bara að hafa svigrúm til að skapa sér eigið líf og frelsi til að finna eigin tón og gildismat. Hugmyndafræði sem á ekki rætur í persónunni sjálfri verður ætíð að kúgun.
Að fæðast með frelsi í blóðinu
Eftir því sem árin liðu skildi ég betur inntakið í orðum hans. Vegna aukinna erfiðleika varð pabbi æ ósáttari við ráðamenn. Gleðin í augum hans minnkaði ár frá ári. Pabbi talaði um offjárfestingu í sjávarútvegi og fór hamförum yfir óðaverðbólgunni sem hann taldi sig hafa tapað á. Ég skildi ekki af hverju, en skyndilega urðu foreldrar mínir skuldugri en áður. Hann sagði mér frá gullæðinu í fiskeldi og minkarækt. Margir vina hans sáu þar tækifæri og gripu hvatningu stjórnvalda á lofti. En allt fór þetta illa.
Pabbi kenndi hugmyndafræðinni um. Það er stríð í landinu, sagði hann. ‘Kratarnir,’ bændur og útgerðarmenn keppast við að sýna okkur hvers megnug þau eru. Öll með tölu benda þau okkur á vannýtt tækifæri til að auðgast á. Kratarnir vilja ná tökum á okkur með velferðarkerfinu á meðan hinir vilja stjórna okkur í gegnum landbúnað eða sjávarútveg. Það væri lygi að halda því fram að ég hafi skilið allt sem hann sagði þá. Í mínum huga bjuggum við pabbi á sitthvorri plánetunni. Ég vildi lesa öllum stundum og frábað mér allt tal um bændur og sjómenn. Þessar lýsingar þóttu mér hræðilegar og dálítil tímaskekkja. Bændur voru bundnir ‘á klafa,’ útgerðarmenn yfirgáfu heimabyggðir sínar og Eyjamenn vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Ég hélt bara áfram að lesa.
Hallar undir fæti
Þrátt fyrir hjartahlýju foreldra minna var líf þeirra, og okkar systkinanna, erfitt á köflum. Mamma varð æ veikari og það gerði pabba ráðvilltan. Til að bæta gráu ofan á svart fór heilsa hans sjálfs að versna. Hann fékk hjartaáfall fimmtugur og stuttu seinna fór að bera á sjóndepru. Hann fór í hverja aðgerðina á fætur annarri en allt kom fyrir ekki. Hann varð blindur á skömmum tíma. Pabbi syrgði sjónina samt ekki lengi. Hann vildi ekki verða enn eitt ‘fórnarlamb’ kerfisins og tók því upp hjá sjálfum sér að læra á heiminn án sjónar. Hann gekk með blindrastafinn sinn út um allan bæ, þveran og endilangan. Ég var áhyggjufull alveg þar til ég sá einu sinni til hans á göngubrúnni á milli Fossvogsdals og Hlíðahverfis. Litlu munaði að ég keyrði út af þegar ég sá hann spígsporandi þarna uppi. En þessar áhyggjur hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar ég sá hversu stoltur og keikur hann var. Hann bar höfuðið hátt og lék á alls oddi við gesti og gangandi . Ég áttaði mig á því að sjálfsvirðing var honum allt. Hann var góður í þessu og naut þess að heyra hrós annarra.
Pabbi hélt áfram að ‘velferðast’ með Kiwanisfólkinu sínu og Hjálparstarfi kirkjunnar. Hann tók einnig virkan þátt í Blindrafélaginu og var að sjálfsögðu kominn í nefnd þar áður en við gátum blikkað auga.
Í dag stend ég í þakkarskuld við Kiwanis og Blindrafélagið. Þegar pabbi dó sá ég fyrst velferðarkerfið hans í verki. Þetta kerfi sem hann trúði á og hélt í honum lífinu. Í jarðarförinni kom Kiwanis og sá og sigraði. Til að létta undir með veiku mömmu minni sáu vinir pabba um nánast allt og stóðu fjárhagslegan straum af erfidrykkjunni.
Ég hélt ég myndi ekki lifa dauða hans af. Systkini mín ekki heldur. Öll höfum við erft dugnað hans og eljuna þó okkar birtingarmynd sé talsvert frábrugðin hans. Líkt og honum er okkur í nöp við velferðarkerfið. Þetta kerfi sem elur með fólki þá trú að jöfnuður milli manna sé fenginn með peningatilfærslum.
Peningar munu aldrei geta jafnað út þann aðstöðumun sem fólk býr við, oft frá fæðingu. Peningar hefðu ekki hjálpað okkur þegar mamma var sem veikust. Og svo sannarlega komu þeir ekki að gagni í veikindum pabba. Peningar kaupa ekki gildismat, seiglu, ást og umhyggju. Peningar munu aldrei geta rétt af mismunun í aðbúnaði barna, nema þeir komi án fordóma og skilyrða. Sterk sjálfsmynd og bjartsýni fæst hvorki í áskrift né á brúsa.
Er markaðurinn þá betri kostur?
Ég er oft spurð að því hvort ég telji að markaðurinn geti sinnt velferðarmálum betur en ríkisvaldið. Satt best að segja veit ég það ekki. Sennilega myndi hann gera það álíka vel (eða illa eftir því hvernig litið er á það) . Pabbi hefði auðvitað farið að hlæja og spurt á móti: hvaða markaður? Ertu að tala um mig og þig? Eða er markaðurinn orðinn að stofnun? Og ef svo er, hvernig á slíkt apparat að geta uppfyllt allar þessar ólíku þarfir þarna úti?
Persónulega vil ég helst segja þessu kerfi upp. Mér svíður mannfyrirtlitningin og þessi kuldalega afstaða til bótaþega. Ég vil hjálpa þeim sem minna mega sín án þess að velta vöngum yfir því hvort fólk geti hjálpað sér sjálft eður ei. Er það ekki skilgreiningaratriði hvenær fólk hjálpar sér sjálft eður ei? Ég vil jafnframt umbylta innflytjendalögum og frábið mér kerfi þar sem lúbarinn einstaklingur er rukkaður um skilríki. Að sama skapi finnst mér niðurlægjandi starfsemi atvinnuleysisbótakerfisins og Tryggingastofnunar óboðleg.
Hvað ætli það kosti að halda úti öllum eftirlitsaðilunum sem fylgjast fránum augum með því hvort fólk sé nú örugglega ekki réttum megin við línuna? Hvað haldiði að eftirlitið með þessum örfáu krónum sem renna til öryrkja kosti? Væri ekki ráð að draga úr þessu utanumhaldi og láta meira fé af hendi rakna? Hvernig á fólk annars að geta ‘hjálpað sér sjálft’ ef það á varla til hnífs og skeiðar?
Í mínum huga er velferðarkerfið skrímsli sem trampar á frelsi fólks og sjálfsvirðingu. Menn eru ekki fólk heldur öryrkjar, skuldarar, sjúklingar og flóttamenn. Stríðið á milli hægri og vinstri verður æ heiftúðugra og því lítil orka eftir til endurmats og úrbóta. Vinstri menn vita að þeir þurfa að skera velferðina við nögl því annars fer umræðan um ‘afætur’ á flug. Hægri menn gera slíkt hið sama, því annars eru þeir eins og vinstri menn. Og þá er gert grín að frelsishugsjóninni og markaðsbúskapnum.
Á meðan lækkar sjálfsmat fólk niður í frostmark. Þó opinberir starfsmenn fái einnig greiðslur frá ríkinu, eru greiðslur okkar laun en ekki bætur. Hins vegar eru greiðslur til öryrkja og fátækra bætur en ekki laun. Þetta er merkilegur andskoti. Erum við ekki flest á bótum hvort eð er? Ég fæ barnabætur og vaxtabætur. Ég er einnig á niðurgreiddum lyfjum. Námsmenn og foreldrar án atvinnu fá fæðingarstyrk í stað orlofs við barnsburð. Af hverju er ekki talað um þau sem bótaþega? Hvað með fyrirtæki og einstaklinga sem fá margra milljóna króna styrki á ári til atvinnuþróunar og þekkingarsköpunar? Hvað með listamannalaun? Er þetta ekki allt saman bætur?
Þó velferðarkerfið hafi ekki búið til meiðandi heiti yfir fólk hefur það svo sannarlega ekki bætt úr skák. Skilaboðin eru skýr. Bótaþegar, öryrkjar, ofvirkir og flóttamenn eru annars flokks fólk, bundið á klafa velferðarkerfis sem sleppir ekki takinu. Þetta fólk veit ósköp vel að við lítum á það sem byrði. Það þarf ekki nema útvarpsfréttir og dagblöð til að komast að því.
Finnst ykkur hinum ekki sárt að búa í samfélagi þar sem mannfyrirlitningin er svo sterk að hópur fólks litur svo á að það eigi ekki séns? Hverju skiptir það máli þó einhver sé ekki með stúdentspróf þegar það er hægt að fletta nánast öllu upp á netinu? Hvar stendur það skrifað að vinna eigi sér bara stað á bak við búðarborð eða inni í stofnun? Hvar er sköpunargleðin og ástríðan? Af hverju búumst við alltaf við því að skert líkamsgeta sé ávísun á skerta hæfni? Veit fólk ekki að sköpun og hugvit hefur ekkert með líkamlega burði að gera?
Það segja margir að það sé ekki vinna að vera öryrki. Tja, það er að minnsta kosti atvinnuskapandi fyrir aðra. Hvað yrði nú um starfsmenn Tryggingastofnunar ef öryrkja nyti ekki lengur við?
Pabbi minn sagði oft að hugtakið vinna væri skilgreint of þröngt. Til að mynda var það ekki talið vinna hér áður fyrr að syngja á Hótel Borg. Né passa börn. Jafnvel sjálf ástríðuatvinnugreinin, fiskveiðar, átti einu sinni undir högg að sækja. Að busla með bát í vatni var dútl og tímasóun
Í augum pabba var allt ‘ bardús’ vinna. Og þá skipti engu hvað menn voru að bardúsa, svo framarlega sem þeir undu sér við það.
Mikið ofboðslega sakna ég hans pabba míns.
Ykkar,
Svandís Nína
- Af hverju ég varð aldrei sósíalisti - 03/10/2014