Enginn þvagsprengur
Fjárlagafrumvarp Bjarna Bendiktssonar er vitaskuld marklaust, en ágætur upphafspunktur.
Það er marklaust af því að það er borið fram af ráðherra í starfsstjórn sem nýtur ekki þingmeirihluta. Sem slíkt er það þó að vísu forvitnileg stefnuyfirlýsing – um næstum fáránlega litla uppbyggingu í heilbrigðismálum, skólum (halló, Pisa), kjörum lífeyrisþega, samgöngum og öðrum innviðum, og niðurskurði á vaxta- og barnabótum.
Margar tölurnar eru að vísu í samræmi við nýsamþykkta fjármálaáætlun (halló, Kári Stefánsson um stefnu Bjarna Benediktssonar í heilbrigðismálum), en aðrar alveg á skjön við nýsamþykkta samgönguáætlun, svo dæmi sé tekið.
Aðrar eru fastar og vel þekktar stærðir, eins og vaxtagjöldin – hjálpi okkur hamingjan.
En það skiptir minnstu, því að frumvarpið er að stofni til merkingarlaust plagg. Það mun taka verulegum breytingum og þær umbætur bíða nýs þings. Og einmitt þess vegna er það forvitnilegt upphaf.
Fjárlög hvers árs eru eins og kjölfesta í siglingu þjóðarskútunnar (er þetta nógu klisjukennd líking?). Þar eru hinir stóru drættir markaðir um útgjöld í hverjum málaflokki. Án kjölfestunnar fer skipið að halla. Þarf nokkuð að rifja upp, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var að loks og endanlega að minnihlutastjórn þegar nokkrir meintir stjórnarþingmenn neituðu að styðja fjárlagafrumvarp hennar?
Og vinnan bíður nýrra þingmanna, að klára fjárlögin í samræmi við stefnu sína og sannfæringu. Hún er mörg og margvísleg – hafa píratar til dæmis stefnu um Dýrafjarðargöng? Ef ekki, ræðst hún af rafrænni kosningu þessara 65 eins og stundum áður? Og svo framvegis. Það verður aldeilis fróðlegt að fylgjast með þessu fyrsta verkefni nýs alþingis. Þar reynir á og ekki í litlu.
Mér virðist skynsamlegast að leggja til, að stjórnarmyndunarviðræður verði settar í hægagír á meðan þessari vinnu þingsins vindur fram. Ef fimmflokkunum (eða hvaða flokkum sem er) tekst að ná saman um fjárlög, hina eiginlegu stefnumörkun í mikilvægustu málefnum ríkisins, þá er það skýr vísbending um að þeir geti myndað ríkisstjórn sem er á vetur setjandi.
Ef ekki, þá er lungnaþoli og pólitískum andköfum betur varið í annað en að skrifa og rífast um úrfærslur og málamiðlanatexta um sjávarútveg, stjórnarskrá, landbúnað, ESB og allt hitt. Það eru að sönnu mikilvæg mál, en ef samkomulag vantar um kjölfestuna er hætt við að fljótt strandi á skerjum. (Var þetta ekki alveg frábær framhaldslíking?)
Og enda: Er einhver þvagsprengur sem krefst þess að hér verði mynduð ríkisstjórn fyrir jól? Eftir síðustu breytingar höfum við alveg þokkalega mannaða ríkisstjórn, sem er ólíkleg til að gera nokkurn óskunda á fáeinum vikum.
Nú er lag – svo vitnað sé í okkar góða forseta – að láta reyna á nýtt þing, vilja þess og stefnu. Hún kemur skýrast fram í fjárlögum.
Leyfum nýju þingi að anda í kviðinn eftir átök síðustu mánaða og finna sig í þessu mikilvægasta verkefni. Það væri kærkomin tilbreyting.
Við hin lesum bara góðar bækur á meðan.
Bíðum að vísu líka eftir hinum óhjákvæmilegu bommertum. En þær eru eins og hvert annað tilbehör – allt bragðlaust og skrautlaust án þeirra. En kjarninn er mikilvægastur. Hann er alvara stjórnmálanna.
Og vonandi er enginn í spreng.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019