1. apríl 2014
Í gær var 1. apríl, dagurinn þegar öllum er fyrirgefið að plata. Upp að vissu marki, að minnsta kosti.
Flest það sem hendir á þessum degi, hver plataði hvern og hvernig, líður fljótt úr minni og ég gæti ekki fyrir mitt litla líf rifjað upp hvað fram fór þennan dag í fyrra. Hvað þá í hitteðfyrra.
En 1. apríl 2014 mun líklega seint líða okkur úr minni og hann mun verða tengdur nafni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra órjúfanlegum böndum á meðan við sem nú heyrum og sjáum fréttir, lifum.
Í fyrsta lagi þorði forsætisráðherrann ekki að leggja fram millifærslufrumvarpið á þessum degi, heldur lét taka það af dagskrá þingisns, því hann óttaðist að það yrði þaðan í frá kennt við 1. apríl. Með því að taka það af dagsrká þingsins tryggði hann málið verður alltaf tengt þessum degi, enda full ástæða til því um heimsmet í plati er að ræða.
Öllu alvarlegra er þó það sem maðurinn lét hafa eftir sér í kvöldfréttum RÚV þess efnis að í yfirvofandi hörmungum heimsbyggðarinnar felist mikil tækifæri fyrir Ísland.
„Það skortir vatn, orkan verður dýrari, það skortir landrými, þannig að menn gera ráð fyrir því að matvælaverð muni fara hækkandi um fyrirsjáanlega framtíð á sama tíma og það er sífellt meiri þörf fyrir matvælaframleiðslu vegna þess að eftirspurning er að aukast. Þannig að í þessu liggja tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland. Við erum að kortleggja þetta,“ sagði ráðherrann.
Nú vona ég að um aprílgabb sé að ræða; ég vona að maðurinn hafi ekki sagt þetta við fréttamanninn í gær en í raun og veru skiptir það ekki málið því hann hefur sagt þetta áður. Hann sagði nokkurnveginn þetta sama á ráðstefnu um orkumál síðastliðið haust og forseti lýðveldisins þreytist ekki á því að benda á tækifærin sem munu blasa við okkur þegar ísinn á Norðurpólnum verður horfinn.
Þvættingurinn um við verðum í eitthvað betri málum en aðrir jarðarbúar þegar lofstlagsbreytingarnar hafa gjörbreytt veröldinni (ef til vill útrýmt því lífi sem við þekkjum á jarðkringlunni) er ekki það versta í þessu, heldur er það siðleysið sem þarna skín í gegn sem gerir þetta vont. Bara þessi hugsun, tilhlökkun ef til vill, um að við munum græða á hörmungum annarra er svo vond að fólk sem lætur hana hvarfla að sér, á ekki að ráða neinu sem varðar heill samfélagsins.
Það er ekki nóg með að þetta fólk vilji velta skuldum okkar yfir á börn og barnabörn, heldur stendur þeim nákvæmlega á sama um það hvort afkomendur okkar geti dregið fram lífið. Bara á meðan við græðum núna.
- Lokaorð - 29/05/2015
- Traust - 01/05/2015
- Deyfilyfið - 16/04/2015