trusted online casino malaysia
Ingi Rúnar Eðvarðsson 27/10/2014

Ójafnrétti er dauðans alvara

Sænski félagsfræðingurinn og fyrrum prófessor við Cambrigde-háskóla, Göran Therborn, gaf út mjög fróðlega bók í fyrra sem hann nefnir The killig fields of inequality. Þar rekur hann afleiðingar vaxandi misskiptingar og ójafnaðar innan landa og milli ríkja þjóða og fátækra. Einnig ræðir hann rót vandans og getur um mögulegar lausnir.

Goran-T-179x300

Therborn styðst við rannsóknir fræðimanna og gögn alþjóðlegra stofnana eins og OECD og Sameinuðu þjóðanna. Hann nefnir mörg dæmi um alvarlegar afleiðingar ójafnaðar sem ætti að vekja ugg í brjósti siðaðra manna og kvenna. Nefni ég hér nokkur dæmi.

  • Líflíkur lækkuðu um þrjú ár meðal hvítra karlmanna með litla menntun í Bandaríkjunum á tímabilinu 1990-2008 og lífslíkur ómenntara hvítra kvenna lækkuðu um liðlega fimm ár. Aðeins eyðni í sunnanverðri Afríku og innleiðing markaðshagkerfis í Rússlandi hefur haft verri áhrif á lífslíkur en aukin skauthverfing lifskjara í stjórnartíð Clintons og Bush.
  • Sömu þróun á sér stað víða í Vestur-Evrópu. Uggvænleg þróun hefur orðið í Finnlandi milli 1998 og 2007 þar sem lífslíkur ríkasta hluta karla jókst um fimm ár umfram fátækasta hluta þjóðarinnar. Meðal kvenna var aukningin í lífslíkum þrjú ár ríkasta hlutanum í vil.
  • Ekki aðeins eru lífslíkur hinna fátæku minni heldur er líklegra að þeir þjáist af langvinnum sjúkdómum og fá slíka sjúkdóma fyrr.
  • Barnadauði er enn mjög algengur í Afríku þar sem eitt barna af hverju fimm dó fyrir fimm ára aldur árið 2010. Á Norðurlöndum, í Japan og Singapúr dóu þrjú börn af hverjum 1.000. Hlutfallið hvað barnadauða varðar milli verst settu landanna og þeirra sem best standa er 60:1.
  • Mestur er munur á lífslíkum milli Japans og Sierre Leone, eða 46 ár!
  • Margt kemur á óvart við lesturinn: Barnadauði í Wastington DC er á pari við Rúmeníu og hærri en í Rússlandi.
  • Fátækt barna (child poverty) hefur aukist frá 7% árið 1979 (þegar Thatcher tók við völdum) í 24% árið 1992.
  • Vegna vannæringar er fólk að minnka sums staðar á Indlandi. Meðahæð tvítugra einstaklinga af báðum kynjum lækkaði á tímabilinu 1975-1995 í Delhi, Haryana og Punjab!
  • Markaðsvæðing Rússlands eftir hrun Sovétríkjanna hefur aukið dánarlíkur um 49% meðal karla, 16 ára og eldri, og um 24% meðal kvenna. Talið er að um fjórar milljónir manna hafi látist af þessum sökum fyrir aldur fram.

Therborn gerir skilgreiningu Sens að sinni. Jafnrétti felst í því að nýta eiginleika sína til að þroskast að fullu sem mannvera. Ójafnrétti er því brot á mannréttindum sem kemur í veg fyrir fulla þróun milljarða einstaklinga (bls. 41). En hvað veldur aukinni misskiptingu í heiminum. Therborn bendir á þrjár stofnanir í því sambandi. Fjölskylduna, markaðshagkerfið og þjóðríkið. Þessar stofnanir munu lifa áfram og því þarf að beina sjónum að því að nota viðeigandi tæki til að draga úr ójöfnuði í framtíðinni.

Hann bendir á að hin síðari ár sé ný stéttaskipting að gera vart við sig innan fjölskyldunnar. Háskólamenntaðir giftast nær eingöngu háskólamenntuðum maka, og þeir sem ekki hafa farið menntaveginn giftist sínum líkum. Hinir fyrrnefndu gifta sig mun síðar á lífleiðinni, eru þroskaðri og það minnkar skilnaðartíðni. Fyrir vikið alast börn þeirra upp með báðum forledrum. Auk þess verja menntaðir foreldrar mun meira tíma með börnum sínum, lesa með þeim, senda þau í tómstundir og fleira. Hér teflir Therborn fram rétti allra barna óháð stétt og fárhag. Þar eru leikskólar og góðir almennir skólar mjög mikilvægir. Í þriðja heiminum þarf að takast á við vannæringu barna.

Markaðshagkerfið er máttugt í að skapa störf og í nýsköpun en það elur jafnframt af sér atvinnuleysi og misskiptingu. Mest misskipting síðari ára er fjölgun mjög ríkra einstaklinga víða um heim vegna fjármagntekna. Therborn telur að réttur til vinnu samkvæmt skilgreiningu Alþjóða vinnumálastofnuninni (ILO) ætti að setja í forgrunn en einnig borgaraleg réttindi. Hið fyrra snýr að því að hafa rétt á góðu starfi til að framfleyta sér og sínum með mannsæmandi hætti, þegar hið seinna snýr að lýðræði og sjálfákvörðunartöku fólksins og ekki síst að setja markaðshagkerfinu skorður. Það ætti ekki að koma niður á samkeppnishæfni segir hann þar sem þau lönd sem fremst standa í flokki samkeppni eru jafnamt með velferðarkerfi og setja markaðinum skorður: Sviss, Finnland, Svíþjóð, Holland og Þýskaland.

Þjóðríkið er afsprengi nútímavæðingar og gengdi lengi hlutverki í að jafna kjör þegnanna. Þjóðríkið mun áfram gegna hlutverki á tímum hnattvæðingar og það er krafa um að fjölga slíkum ríkjum, samanber óskir Skota, Palenstínu og fleiri þjóðarbrota. En þjóðríkinu þarf að breyta á hnattrænum tímum. Ríkið þarf að huga að heildarhag ólíkrar menningar og trúar þar sem mannréttinda allra sé gætt.

Jafnréttissinnar þurfa að mati Therborns að sækja fram á öllum þessum sviðum; fjölskyldunni, markaðnum og þjóðríkinu. Og það er hlutverk hinnar vaxandi, menntaðu, millistéttar að leiða þá þróun í hagkerfi framtíðar.

Bók Therborns er áhugaverð, en hún er ekki hafin yfir gagnrýni frekar en önnur mannanna verk. Hún ætti þó að veita jafnréttissinnum hugmyndir að frekari framþóun samfélagsins.

 

Latest posts by Ingi Rúnar Eðvarðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,434