trusted online casino malaysia
Ingi Rúnar Eðvarðsson 26/07/2015

Ísland, Færeyjar og unga fólkið

Færeyjar gengu í gegnum fjármálakreppu á níunda áratutug 20. aldar. Í kjölfarið fluttu margir úr landi, einkum ungt fólk sem fór til Danmerkur. Færeyingum fækkaði í kjölfarið og langan tíma tók að snúa þróuninni við.2013-02-25 16.18.39

Fyrir nokkrum árum reiknaði Hagstofa Færeyja út að eftir nokkra áratugi myndi aftur verða fólksfækkun og það myndi stórlega vanta í nokkra árganga, einkum konur. Færeysk stjórnvöld skipuðu nefnd til að fara ofan í kjölinn á vandanum árið 2013. Verkefnisstjórinn, Erika Hayfield, sendi mér langa greinargerð í tölvupósti á ensku þar sem segir m.a.:

Ein helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir er skortur á konum. Í Færeyjum eru 2.000 færri konur en karlar – aðallega konur á barneignaraldri. Það liggur í augum uppi að þetta er mikill halli í ljósi þess að við erum aðeins um 48.000 alls. Þessi skortur á konum hófst í raun á fjórða áratug 20. aldar en enginn hefur veitt því athygli þar til nýlega. Við höfum borið þá ,,byrði“ að hafa efnahagslíf sem er nær alfarið byggt á sjávarútvegi – eitthvað sem rannsóknir (og reynslan) leiðir í ljós að er ekki mjög aðlaðandi fyrir konur og starfsáhuga þeirra.

Staða Færeyinga er nokkuð önnur en okkar Íslendinga. Færeyingar hafa öll félagsleg réttindi í Danmörku og sækja því þangað í nám og störf. Einnig hafa þeir rétt á atvinnuleysisbótum. Erika benti mér jafnframt á að öfugt við Ísland og aðrar þjóðir þá hefur þróunin verið sú að unga fólkið færi til Danmerkur og kæmi ekki aftur. Það hefur ekki viðkomu í stærri borgum eins og á Norðurlöndum og snýr kannski ekki heim á ný þegar aðstæður þeirra breytist.

Til að bregast við þessum vanda skoðaði starfshópurinn úrræði fyrir ungar konur og leit einkum til háskólamenntunar og fjölbreytni í atvinnulífi fyrir konur. Ég var fenginn til að kynna stofnun og þróun Háskólans á Akureyri og kollegi minn Peter Arbro frá Háskólanum í Tromsø var fenginn til að kynna þróun síns háskóla. Við áttum fundi með ráðamönnum og svo var haldinn opinn fundur í Þórshöfn sem vakti mikla athygli fjölmiðla og almennings. Um framhald þessa verkefnis veit ég ekki – hvort því var hrint í framkvæmd eður ei. Hins vegar litu Færeyingar mjög til Háskólans á Akureyri sem áhugaverðs fordæmis.

Í gær kom frétt um nýja rannsókn sem Háskólinn á Akureyri er þátttakandi í. Þar kemur fram að íslensk ungmenni líti til útlanda í framtíðinni femur en að búa á Íslandi. Tölur Hagstofunnar sýna að í fyrra jókst aftur flutningur Íslendinga til útlanda umfram þá sem fluttust til landsins. Athyglisvert er að árunum 2009-2013 voru karlar í miklum meirihluta þeirra sem fluttu af landi brott, en kynjahlutfallið snerist við 2014. Og nú vofir yfir flótti heilbrigðisstarfsfólks til Noregs og annarra landa. Að meirihluta til konur.

Atvinnustefna núverandi stjórnvalda er sú sama og verið hefur hér á landi um árabil: Efla landbúnað, sjávarútveg og stóriðju. Þessar atvinnugreinar hafa lítt höfðað til ungra kvenna fram að þessu.

Í ljósi þeirra vísbendinga sem nú eru uppi meðal unga fólksins samanber forsíðufrétt Akureyrar vikublaðs í dag, talna um brottflutning og uppsagnir tel ég það vera verðugt rannsóknarefni fyrir stjórnvöld og sveitarfélög að skoða gaumgæfilega hvernig unnt sé að halda í hæfileikaríkt fólk og efla byggðir vítt og breytt á Íslandi. Eins og dæmin frá Færeyjum sýna þá er það ekki sjálfgefið fyrir smáþjóðir á hnattrænum tímum.

Þessi pistill birtist upprunalega í Akureyri vikublaði 16. júlí 2015.

Latest posts by Ingi Rúnar Eðvarðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi, Pistlar
1,186