trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/12/2016

Jólabréf af Sólvallagötu 39: Öll heimili þurfa að eiga súpuskál. Og ausu

Fjölskyldan að Sólvallagötu 39 í Reykjavík sendi frá sér jólabréf sem er svo skemmtilega stílað, og um leið uppfullt með hvunndagsvisku, að Herðubreið fékk góðfúslegt leyfi til að birta það. Höfundur er áreiðanlega Eyþór Árnason, en konan á sterunum er Sigríður Hrafnhildur Gunnarsdóttir.Eyþór Árnason

———-

Jólabréf 2016

Heimilið á Sólvallagötu 39 hefur eignast súpuskál. Loksins, segja sumir, því það þurfa jú allir að eiga súpuskál. Þetta er alls ekkert IKEA-dót eða Kokku-stöff eða annað fínerí, nei, þessi skál er annað og meira. Þetta er nokkurs konar antík, eiginlega bara konungleg, og húsbóndanum finnst hann vera háttsettur við sænsku hirðina þegar hann horfir á hana og nýbúinn að sjá Patti Smith stranda í Dylan þegar hún söng yfir Nóbelinn. Skálin er belgísk, af tegundinni BOCH F (frères; Boch-bræður), svona fyrir þá sem eru sokknir í ættfræði súpuskála. Hún er hvít eða kannski smá út í antíkhvítt (eðlilega) og með dularfullu mynstri á barminum, fínlegu að innanverðu. Að utanverðu er mynstrið grófara en nær samt ekki langt niður á skálarbelginn. Þetta eru nokkrar litlar grúppur og eins konar hörpudiskur í miðju hverrar grúppu. Grúppurnar eða hóparnir eru tíu, fallega dumbrauðir á lit. Síðan sendir hver hörpudiskur út frá sér arma sem líta út eins og kramarhús og út úr þeim vex eins konar vínviður, eða kannski er þetta bara bláberjalyng … Verður nú ekki amalegt að gæða sér á gómsætri bláberjasúpu frá Vilkó á Blönduósi úr skálinni góðu. Já takk. Hún fannst á netinu eins og allt í dag og Sólvallagötuhjónin skelltu sér í langan bíltúr því það þurfti að keyra alla leið upp í Mosfellsbæ til að ná í konungsgersemina. Hún stendur nú á borðstofuborðinu, bíður eftir bláberjasúpunni og virðist líða vel hér í hundrað og einum.

Í ausuna er komið kál
kynt er upp í grilli bál
kærleikur og kók í mál
og kjötsúpa í antíkskál

Já, nóg er nú dótið, segir kannski einhver. En súpuskál verður að vera til á hverju heimili.

En hvað er heimili? Staður þar sem maður hreiðrar um sig, búinn að stimpla gps-kóðann „Ég er kominn heim“ inn í heilann. Hreiður með bókum, myndum á vegg, flatskjá, neti, sófa, blómi, útvarpi á eldhúshillunni með síðasta lag fyrir fréttir, sem er ekki lengur síðasta lag fyrir fréttir (já ömurlegt), plötuspilara og svörtum græjum frá síðustu öld og haug af plötum (Jesús minn!); vegg meðfram súð með samkrulli af litlum myndum og ýmsu dóti, m.a. kampavínstappa úr brúðkaupi Ragnheiðar Völu og litlu reislunni hans Árna í Skógarseli (afa húsbóndans). Sumar myndirnar eru svo upplitaðar af sumarmorgunsólinni sem kemur óttalaus yfir Esjuna að minnið verður að ráða hvað er á þeim. Samt dettur handlögnum heimilisföður ekki í hug að skipta um myndir. Hann er þungur á heimili en alltaf skemmtilegur af bæ eins og sagt var um suma menn fyrir norðan.

En þetta á að vera jólabréf, ekki kort af Sólvallagötu 39; hitabréf í mollu og úrfelli desembermánaðar þegar aldrei birti, aldrei stytti upp. Þrátt fyrir allt þetta regn var djúpt að sækja í brunninn; fatan skellur í vatnið, sekkur í minningabrunninn og vindunni er snúið og upp koma mánuðirnir tólf sem hripa niður gegnum gisna fötuna.

Ýmislegt varð nú samt til að hressa okkur á árinu. Það kom nýr forseti, nýtt alþingi og ný st … nei, sennilega ekki. Fótboltamótið í Frans, þar sem Ísland farsælda húaði Evrópu upp úr sófunum, var mjög kærkomið. Allar áhyggjur hurfu þegar frægar boltaþjóðir lutu í gras á móti strákunum okkar og Sólvallagatan söng „Ég er kominn heim“ í margskiptum röddum með fiðluundirleik. Að vísu sungu ekki allir á heimilinu því sumir syngja í Dómkórnum og eru fint følende og hata þetta lag innilega og þið megið geta hver.

En víkjum aftur að handlagna heimilisföðurnum. Þannig stóð á í sumar að frúin þurfti að taka öfluga steraskammta (ásamt ýmsu öðru misjöfnu) og er ekki ofsögum sagt að sterar virka vel og er óhætt að mæla með þeim, því frúin spólaði öll upp og varð óstöðvandi og neyddist sá handlagni til að hlýða öllum vendingum. Hann varð að mála ganginn og hurðirnar í íbúðinni (að vísu geymir hann aðra hliðina á einni hurð, ætlar að mála hana um páskana) en mesta afrekið var nú samt að skipta um handföng á öllum hurðum í íbúðinni. Sem betur fer fyrir hann eru þær ekki mjög margar. Þannig er mál með vexti að konan sem býr með þeim handlagna hafði hatað þessi ljótu gráu plasthandföng sem voru hér þegar flutt var inn. Hafði hún oft orð á þessu við bónda sinn. En einhvern veginn, með sínum sauðs- og sleðahætti, tókst bóndanum alltaf að eyða þessu tali og beina því að einhverju öðru; fallegu sólarlagi eða einhverju í sjónvarpinu og tókst að humma fram af sér handfangaskipti í tæp 30 ár. Geri aðrir betur! En nú liggja gráir hurðarhúnar á botninum í minningabrunninum og botnfallið hylur þá smátt og smátt.

Bóndanum er samt ekki alls varnað. Á sunnudagsmorgnum, yfir hafragrautnum, bregður bóndi stundum á leik og les allt Reykjavíkurbréf Moggans upphátt og með tilþrifum fyrir frú sína og eru þetta sannkallaðar sælustundir.

Og kannski eru Sólvallagötuhjónin að verða ráðsett, þau fóru nefnilega til Kanarí í febrúar og dvöldu þar í hálfan mánuð. Já, það var lagt af stað með þreyttum og buguðum löndum okkar og þegar við stigum út í vélina í Keflavík spurðum við okkur: „Hvaðan kemur þetta fólk?“ Síðan áttuðum við okkur á því að við vorum alveg eins sjálf og svo komu allir heim með vítamín í kroppnum, búnir að bræða af sér klakahjúpinn. Já, Kanarí er súpernæs (það verður að nota nýju íslenskuna!) og í raun ætti að senda alla landsmenn þangað í hollum á veturna, ekki síst alþingismenn. Þeir myndu bara setja sólrík og mild lög.

Og þarna liðu þau hjónin yfir sandöldurnar eins og þau væru leikendur í Arabíu-Lárusi, hrukku aðeins við þegar allsberir karlar og konur spruttu upp á annarri hverri öldu en það vandist fljótt. Enda lá þarna í leyni alvörunektarströnd móti opnu Atlantshafinu og vakti hjarnhvítur bossinn á Uppsaladrengnum töluverða athygli, enda glampaði á hann eins og silfurpening í sjóræningjakistu. Annars hélt bóndi sig mest í skugganum og grúfði sig ofan í tölvuna, hlustaði á kvikmyndatónlist og einbeitti sér að „Draumheldum náttfötum“.

Kátur var á Kanarí
Kólumbusarsjórinn.
Kærkomið og kyrrlátt frí
en kallinn sótti‘ í bjórinn.

Já og kallinn ákvað allt í einu að ráðast í jólabakstur því hann hefur komist að því að í honum býr lítill bakaradrengur. Hann hefur nefnilega bakað gómsætt bananabrauð með góðum árangri undanfarið. Nú fann hann gamla hálfmánauppskrift sem hann hafði hripað niður eftir móður sinni forðum. Þetta var auðvitað alvöruuppskrift handa stóru heimili svo það var nú ákveðið að skera aðeins niður. Að vísu finnst bóndanum hálfmánar langsamlega bestir af öllum jólasmákökum og var tregur til að fara í hálfa uppskrift, en hvað um það. Það var lagt af stað. Mælt mjög vandlega; hveiti, sykur, lyftiduft o.s.frv. Deigið hnoðað með látum og að lokum hafðist það og herlegheitin sett í ísskápinn, svona til að láta brjóta sig yfir nóttina. Bakaradrengurinn vaknaði að vísu nokkrum sinnum, fór ofan og signdi yfir deigið til öryggis.

Eyþór ÁrnasonDaginn eftir var kveikt á ofninum og deigið flatt út. Eitthvað var það samt óþjált í meðförum, fannst bakaranum, en lét það ekki á sig fá enda kannski ekki mjög vanur með kökukeflið. Skellti sveskjumaukinu í miðjuna og braut faglega saman og pressaði með gaffli eins og lög gera ráð fyrir. Inn í ofninn fór þetta og síðan var legið með nefið við glerið. Eitthvað fór þetta illa í hitanum því þegar leið á baksturinn fóru kökurnar að springa og sultutauið vall út á plötuna. En sá sem stóð utan við ofninn hélt enn í vonina, því það er bragðið, já bragðið en ekki útlitið, sem skiptir máli. Og loksins var kominn réttur litur á mánana og út voru þeir dregnir og meistarinn horfði með spenningi á þá kólna. Því eins og allir vita getur það farið illa að innbyrða sjóðheitt sveskjumauk. Leið nú og beið og loks var óhætt að smakka. Fyrsti bitinn var pínu skrítinn. Kannski út af spenningnum, næsti var aðeins verri og þriðji alveg hræðilegur. Eftir allan þennan undirbúning, blessunarorð og von um handleiðslu að handan var allt unnið fyrir gýg. Það kom nefnilega í ljós að þessir hálfmánar, sem voru nokkuð laglegir að sjá, voru bara glerharðir hveitikögglar. Og þá kom það á daginn sem bakaradrenginn hafið grunað allan tímann en ekki þorað að impra á og ekki viljað hugsa til enda, að í deigið fór helmingi meira hveiti en átti að fara í hálfa uppskrift! Og þó að það væri hundur á heimilinu myndi hann ekki líta við þessum hveitisteyptu skrímslum. Eða eins og Valdimar í Bólu sagði forðum daga þegar mjólkursamlag KS var að pína kúmenostinn í sveitavarginn: „Mér fannst hann vondur og hundurinn át hann ekki.“ Svo sennilega situr bakaradrengurinn uppi með ófögnuðinn, ber harm sinn í hljóði og maular þetta á feisbúkk-jólasíðkvöldum með vel kældu öli. Því má samt bæta við að bakarasnáðinn gerði aðra tilraun. Hún gekk betur. Að vísu litu sumir hálfmánarnir út eins og fílamaðurinn en bragðið var í áttina svo árið 2020 er von!

Á höfðinu hárin ört grána
en heljarstökk fór yfir rána
bakarasnáði
er bjó til með láði
brokkgenga hálffulla mána.

Já, það er í raun margt í minningabrunninum ef fatan fer nógu djúpt. Annars þarf ekki að kafa djúpt. Það er jú allt sjóðandi á yfirborðinu. „Tölum um tilfinningar“ segir Árni Gunnar. Það er gott, en langbest að gleyma sér með augasteininum Elísabetu Míu. Og fjölskyldan hlakkar til að fá Sólveigu Vöku heim frá Leipzig í jólafrí. Og fólkið kveður okkur. Nú kemur Ragnar móðurbróðir húsbóndans ekki lengur með sínar fallegu gjafir á aðfangadagskvöld. Leonard Cohen sagði so long, so long og Bowie fór inn í skápinn og lokaði.

Kertið logar í glugganum. Við vindum upp fötuna. Hún er enn hálffull, aðeins verið fleytt ofan af. Nokkrar ausur. Kannski er þetta svona hálf súpuskál. Af ekta jólabláberjasætsúpuhrærigraut.

Gleðileg jól, elskurnar, takk fyrir allt gamalt og gleðilegt nýtt ár!

Sigga, Eyþór og stóðið.

———-

(Eftirmáli Herðubreiðar: Eyþór er verðlaunað ljóðskáld (þótt kveðskapurinn hér að ofan bendi ekki endilega til þess) og hefur gefið út fjölmargar ljóðabækur, nú síðast Ég sef ekki í draumheldum náttfötum. Dæmi um ljóð Eyþórs má lesa hér, hér og hér.

1,461