trusted online casino malaysia
Ingi Rúnar Eðvarðsson 19/05/2015

Ferðaþjónusta fatlaðra og útboð

Í gær birti Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skýrslu um sameiningu ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Skýrsluna mlogo_cmyká finna hér. Í stórum dráttum má segja að orsök þess að svo illa tókst til sem raun ber vitni megi rekja til slæmrar tímasetningar, skort á samráði við hagsmunaaðila, að þekking hafi glatast með uppsögn starfsfólks og ekki hafi verið næg þekking á breytingastjórnun.

Á liðnum árum hef ég rannsakað útboð fyrirtækja á Íslandi og mun hér víkja að þeim þætti í ferlinu sem hér er til umræðu.  Í fyrrgreindri skýrslu segir að mælt sé með útboði á akstrinum. Orðrétt segir á bls. 19:

,,Strætó bs. vill gjarnan taka við allri umsýslu á Ferðaþjónustu fatlaðra fyrir sveitafélögin sex á Höfuðborgarsvæðinu. Strætó bs. mun ekki sinna sjálfum akstrinum og leggur því til að hann verði boðinn út. Fyrirtækið er tilbúið að hafa umsjón með því útboði, sé þess óskað.“

Enska orðið outsourcing hefur verið þýtt sem utankaup, úthýsing eða útvistun á íslensku. Í Orðbanka Íslenskrar málstöðvar er útvistun skilgreind sem:

,,kaup á framleiðsluhlutum, tiltekinni þjónustu eða sérfræðiþekkingu frá aðilum utan eigin fyrirtæknis.“

Liðlega sjö fyrirtæki af tíu hafa útvistað verkþáttum hér á landi, þannig að þetta er oðið mjög algeng iðja. Algengast er að tölvu- og upplýsingamálum sé útvistað, en einnig mötuneyti, ræstingu, öryggismálum og akstri. En listinn er lengri og flestir þeir þættir sem stjórnendur fyrirtækja flokka sem stoðþjónustu hefur verið útvistað. Helsta ástæða þess að gripið er til útvistunar er til að lækka kostnað. En ástæður eru fleiri, svo sem að bjóða upp á betri þjónustu, einfalda reksturinn, fá aðgang að sérfræðiþekkingu og einstakri tækni. Oftar en ekki hefur útvistun lukkast vel, lækkað kostnað og bætt þjónustu. En það er ekki alltaf raunin.

Fræðimenn hafa nokkuð fjallað um hættur útvistunar. Nokkrir nefna hættuna á því að þekking á rekstri glatist við flutning verkefna milli rekstraraðila. Í skýrslunni segir:

„Ein stærstu mistökin voru að losa sig við fólkið í þjónustuveri og bílstjórana, þekking þeirra var ekki til nema í höfðinu á þeim og var hvergi skráð. Verkefnið var algjörlega vanmetið og losað sig við alla sem höfðu þekkingu á málunum“ (bls. 42).

Skortur á samráði við hagsmunaaðila má flokka undir svipaðan þátt, þ.e. reynslu og þekkingu var ekki miðlað milli aðila.

Það er bæði kostur og galli útvistunar að áhættu er dreift á milli verkkaupa og verktaka. Gleymum því ekki að verktakar eru sjálfstæðir rekstraraðilar þar sem verkkaupi hefur ekkert um að segja varðandi rekstur og mannahald. Það eykur á vandann ef illa gengur. Til að útboð takist vel til þarf því að gera ítarlega samninga milli aðila. Ef ekki er næg þekking á sérhæfðum rekstri er líklegt að illa takist til. Í skýrslunni segir:

Svo virðist sem ákveðið skilningsleysi á þörfum og sérstöðu notenda ferðaþjónustunnar hafi verið til staðar hjá þeim aðilum innan Strætó sem áttu að koma að breytingum á þjónustunni. Það kann að koma á óvart þar eð Strætó hafði í mörg ár annast þessa þjónustu fyrir Reykjavíkurborg. En til þess er að líta að sá aðili sem hafði haft yfirumsjón með þjónustunni var tekinn frá því verkefni haustið 2013 (bls. 51).

Þá má nefna að ráðgjafafyrirtæki benti á að hefja breytingarferlið á rólegum tíma að sumri og það tæki sex mánuði að fínslípa breytingarnar. Ekki var farið eftir þeim leiðbeiningum.

Fræðimenn hafa einnig bent á að við útboð verkefna sé litið til skamms tíma og einblínt á að lækka kostnað. Það getur dregið úr bæði námi á vinnustað og eins nýsköpun þannig að þegar upp er staðið þá getur þjónusta versnað eftir útboð.

Dæmið um útboð á rekstri fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra eru um margt klassískt dæmi um hættur útvistunar. Það ber að fagna skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar og að hún sé gerð opinber. Það ber vott um lærdómsferli í útboðsmálum á vegum sveitarfélaga. Það er bæði von mín og vissa að vel getur tekist til á næstunni varðandi Ferðaþjónustu fatlaðra. Þar skiptir miklu skýr framtíðarsýn, miðlun reynslu og skráning þekkingar.

 

Latest posts by Ingi Rúnar Eðvarðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,304