trusted online casino malaysia
Ingi Rúnar Eðvarðsson 16/09/2014

Endurminningar úr Áburðarverksmiðjunni

Á námsárum mínum vann ég í Áburðarverkmiðjunni eitt sumar. Tengdapabbi minn vann þar og reddaði mér vinnu. Hann var bóndi og kunni mjög vel við sig í verksmiðjunni eftir að hann flutti til Reykjavíkur.

Olía

Strax frétti ég að í raun og veru væri verksmiðjan sprengjuverksmiðja. Sömu hráefni og voru notuð í áburðinn væru einnig notuð í sprengiefni. Það var skýringin á því hvers vegna verksmiðjunni var valinn staður á Gufunesi á þeim tíma, svo fjarri byggð í Reykjavík.

Vinnan var þægileg innivinna. Lesa af mælum á klukkutímafresti og fara í eftirlistsferðir. Tékka á að allt væri í lagi. Banka í rör og sparka í pípur, skoða ofan í síló. Launin voru svo sem allt í lagi enda unnið á vöktum. En engin uppgrip þannig. Andinn var góður. Fólk hittist og spjallaði saman, tekið var í spil og fengið sér í nefið. Meðalaldurinn var nefnilega um sextugt hjá föstum starfsmönnum. Og flestir voru þeir Vestfirðingar frétti ég. Enda forstjórinn frá Patreksfirði og vissi sem var að traustustu og bestu starfsmennirnir voru Vestfirðingar. Hann réð því helst ekki aðra.

Svo var blessuð verksmiðjan seld í marsmánuði 1999. Var Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn þá? Mig minnir að iðnaðarráðherrann hafi heitið Finnur Ingólfsson.

Nú hafa nokkrir Framsóknarfrömuðir lagt fram frumvarp á hinu háa Alþingi um að kanna hagkvæmni þess að stofna á ný áburgðarverksmiðju. Markmiðið er afar göfugt sem ber vott um einkar hlýtt hjartalag. Hugmyndin er að skap nú vel launuð störf, draga úr atvinnuleysi og fá brottflutta Íslendinga ofan af villu vegar og snúa aftur heim. Að ekki sé minnst á að vekja ungum Íslendingum von í brjósti. Af fyrri reynslu finnst mér líklegt að starfsmenn verði fyrrum bændur, sjómenn og iðnaðarmenn. Ungt skólafólk mun ugglaust hafa gaman að spjalla við slíka spekinga, heyra gamansögur og kvæði. Jafnvel fá sér í nefið.

Latest posts by Ingi Rúnar Eðvarðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,311