trusted online casino malaysia
Ingi Rúnar Eðvarðsson 03/09/2014

Af hverju má Jón ekki heita Gnarr?

Alkunna er að Jón Gnarr hefur staðið í stappi við Þjóðskrá um að fá að heita Gnarr að eftirnafni eða kenninafni. Þessi deilda hefur borist í erlenda miðla, enda Jón orðinn heimsfrægur eftir að hafa verið borgarstjóri í Reykjavík.Jón Gnarr

Finnsk-sænski félagssálfræðingurinn Johan Asplund telur að nafnahefðir og nafnalög séu afar áhuga­vert rannókarefni um tengsl einstaklings og samfélags. Í lokakafla bókar sinnar Tid, rum, individ och kollektiv sem gefin var út árið 1985 greinir hann nafnalögin í Svíþjóð. Hann kemst að því að opinbert nafn hafi lengi verið valda- og eftirlitstæki stjórnvalda til að fylgjast með borgurunum. Ekki gat yfirvaldið t.d. leyft að lögbrjótar og skúrkar gætu skipt um nafn eftir hentugleika.

Löngum kenndu Svíar sig við bæjarnöfn, starf eða við föður, segir Asplund. Núverandi ættarnafnakerfi er ekki gamalt (að kenna sig við ætt samanber Anderson). Ættarnöfn áttu uppruna sinn meðal aðalsins, því næst hjá prestastéttinni, síðan meðal borgara og að lokum meðal bænda. Fyrstu nafnalögin voru samþykkt 1901 í Svíþjóð. Mikið var lagt upp úr því í fyrstu að nafna­kefið væri einfalt að allri gerð. Í samræmi við tíðarandann var miðað við eftirnafn föður. Þannig var málum háttað til ársins 1963 þegar nafnlögum er breytt með þeim hætti að börn geta einnig valið að kenna sig við móðurfjölskyldu kjósi þau svo. Það tengdist aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Svo gerast byltingarkenndar breytingar í nafnanlögunum frá 1979 þegar fólk getur með einföldum hætti skipt um nafn eins oft og það kýs. Skýringin er einföld. Kennitölur voru komnar til sögunnar og tóku við eftirlithlutverkinu af nafnakerfinu. Asplund segir í því samhengi: ,,Þegar yfirvöldin geta óháð því hvað maður heitir með skilvirkum hætti fundið, auðkennt og haft eftirlit með manni, þá er það ekki svo skrýtið að maður fær heimild til að heita nánast hvað sem er“ (1985, 317).

Þegar ég las þessa skemmtilegu greiningu Johans Asplund bjóst ég við að svipuð þróun mynd eiga sér stað á Íslandi. Það reyndist rangt. Lög um mannanöfn eru enn nokkuð íhaldssöm hér á landi. Einstaklingur má ekki heita fleiri en þremur nöfnum, einu millinafni og ekki er heimilt að taka upp ný ættarnöfn (Lög um mannanöfn 45/1996). Á því eru ýmsar skýringar og má þar nefna:

  • Nafnahefðir okkar eru nátengdar sagnaarfinum. Egill, Skallagrímur, Auður, Njáll, Skarphéðinn, Gunnar, Berþóra, Snorri, Sturla, Sighvatur og Höskuldur eru enn ljóslifandi meðal þjóðarinnar.
  • Ísland er eitt fárra landa sem kenninafn er kennt við föður en ekki ætt. Þannig lifa fornöfnin áfram sem eftirnöfn og festir enn í sessi hina ævafornu nafnahefð.
  • Íslenskar fjölskyldur búa flestar nær hver annarri en víða erlendis og samskipti milli kynslóða eru meiri af sömu ástæðum. Hér er mjög algengt að börn beri nafn afa síns og ömmu.

Þó hafa orðið breytingar í þá veru að nafnalög heimila einstaklingum að kenna sig bæði við föður og móður. Það hafa fjölmargir gert hin síðari ár, einkum konur. Svo hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað hratt á Íslandi eftir 2004. Þeir voru 6,7% þjóðarinnar árið 2013. Það eru 21.446 einstaklingar (Hagstofa Íslands, 2014). Þegar afkomendur þeirra eru meðtaldir er þetta fjölmennur hópur. Og kennitölur gegna opinberu eftirlitshlutverki. Þrýstingur á breytingar er mikill fyrir vikið. Hvað varðar umsókn Jóns Gnarr þá finnst mér að hana ætti að samþykkja. Beygist Gnarr ekki eins og kjarr? En til þess þarf að breyta mannanafnalögum. Boltinn er því hjá Alþingi.

Latest posts by Ingi Rúnar Eðvarðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,296