trusted online casino malaysia
Ingi Rúnar Eðvarðsson 10/01/2015

Að glata trausti þjóðar

Ég hef áður á þessum vettvangi fjallað um traust. Þar segir meðal annars:

Traust er vafið úr mörgum þráðum. Heiðarleiki, ráðvendni og hreinskilni eru mikilvægir þræðir. Einnig góðvild, hollusta og velvilji.GPM_7680

Íslensk þjóðfélag hefur verið einsleitt hvað varðar trú, kyn og tungumál. Það eflir traust milli þegna. Ættartengslin næra traustið enn frekar. Fjármálakreppan haustið 2008 og síðar búsáhaldabyltingin juku mjög á torgryggni, andúð og vantraust. Mér finnst að lögreglan hafi staðið sem með eindæmum vel íbúsáhaldabyltingunni og síðar þar sem hún hefur virkjað traustið í samfélaginu og reynt að fremsta megni að róa andrúmsloftið. Hún hefur uppskorið ríkulega þar sem traust til hennar hefur aukist á liðnum árum þegar aðrar stofnanir samfélagsins mælast með síminnkandi traust.

Í nýjasta tölublaði Íslenska þjóðfélagsins – tímariti Félagsfræðingafélags Íslands sem ég ritstýri ásamt fleirum,  er tvær mjög fróðlegar greinar eftir Ingólf V. Gíslason og Tómas Bjarnason sem fjalla um þetta viðfangsefni. Ingólfur gerir viðbrögð lögreglunnar að umtalsefni og veltir fyrir sér hvers vegna líkamlegt ofbeldi varð ekki meira en raun ver vitni. Hann tekur viðtöl við 13 lögrelumenn sem stóðu í eldlínunni. Niðurstaða Ingólfs er þessi:

Meðal þeirra þátta sem útskýra lítið ofbeldi eru þjálfun lögreglmannanna og afpersónugering, sú tilfinning þeirra að hafa alltaf haft yfirhöndina, almenn samúð með mótmælendum og lítill raunverulegur ótti við þá.

Grein Ingólfs má finna hér.

Tómas Bjarnason, sérfræðingur hjá Capacent Gallup, fjallar um mælingar á trausti hjá Capacent Gallup til Alþingis, stjórnmálamanna, lögreglu og forseta Íslands í kjölfar efnahagshrunsins. Í greinni kemur margt mjög áhugavert fram. Greinina má nálgast hér. Í greininni kemur m.a. fram að traust til fjármálakerfisins hafa lækkað um 33 prósentustig frá 2008, traust til Alþingis um 32 prósentustig, en á sama tíma hefur traust til lögreglunnar aukist um 4 prósentustig og til heilbrigðiskerfisins um 5 prósentustig. Það hlítur að vera mikið áhyggjuefni í lýðræðisþjóðfélagi hversu fáir virðast treysta Alþingi og stjórnálamönnum. En það er margt fróðlegt í greininni og vitna ég hér í tvær síðustu málsgreinar hennar (2014, bls. 34):

Fyrri greiningar sýna að fyrir hrun jókst traust á þinginu með aukinni menntun en eftir hrun hvarf það samband. Þannig bentu fyrri niðurstöður til þess að hrunið hafi verið fólki með lengri menntun meira áfall en fólki með skemmri menntun. Það styður þær hugmyndir að sá hópur hafi bæði átt meira undir því að viðhalda ríkjandi þjóðskipulagi og að hann sé gagnrýnni á frammistöðu stjórnvalda en þeir sem skemmri menntun hafa. Niðurstöðurnar nú benda til þess að fólk með lengri menntun treysti nú þinginu í meira mæli á ný. Það gæti bent til þess að þessi hópur hafi í auknum mæli fundið að stjórnvöld gættu hagsmuna hans eða myndu gera það í framtíðinni.

Niðurstöðurnar styðja ekki þá tilgátu að stofnanirnar sem til skoðunar voru; lögregla, forseti, Alþingi og stjórnmálamenn, séu beinlínis fulltrúar andstæðra hópa eða hagsmuna. Niðurstöðurnar styðja á hinn bóginn að við hrunið hafi þessar ólíku stofnanir að einhverju leyti orðið fulltrúar ólíkra hagsmuna, þjóðfélagshópa og viðhorfa. Þetta sést skýrast þegar bornir eru saman þeir hópar sem treysta Alþingi annarsvegar og forsetanum hinsvegar. Þannig mætti segja að tilhneiging sé í þá átt að forsetinn hafi notið trausts stjórnarandstöðunnar og fólks með verri skuldastöðu og skemmri menntun, en að Alþingi hafi á hinn bóginn notið trausts þeirra sem studdu stjórnarflokkanna og fólks með betri skuldastöðu og lengri menntun.

Ég hvet allt áhugafólk um þjóðfélagsmál að lesa þessar greinar og aðrar í sérhefti um afleiðingar frjármálakreppunnar á íslensk samfélag.

 

Latest posts by Ingi Rúnar Eðvarðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,429