trusted online casino malaysia
Gísli Tryggvason 29/10/2014

Vopnamálið (I)

MP5

Í þessum fyrsta pistli mínum á nýjum vettvangi ætla ég ekki að fjalla um (og biðst undan umfjöllun um það í athugasemdum)

  • hvort lögregla í Íslandi eigi að bera vopn,
  • hvers vegna lögregla hérlendis megi (ekki) – eða eigi (ekki) að – hafa aðgang að vopnum,
  • hvenær vopnaburður íslenskrar lögreglu er (ó)nauðsynlegur eða (ó)æskilegur,
  • hver innan lögregluliðs íslenska ríkisins eigi (ekki) að bera vopnin eða
  • hvaða lögregluvopn eigi (ekki) að vera um að ræða á Fróni.

Tilefni þess að ég rýf loks um 18 mánaða bloggorlof mitt er engu að síður frétt fyrir rúmri viku um að til standi að lögreglulið á Íslandi fái aðgang að annars konar og öflugri skotvopnum en hingað til; ég reyni að orða þetta svo að athugasemdir snúist ekki mest um að hanka mig á hugtökum eins og vélbyssa, hríðskotabyssa, (hálf)sjálfvirk byssa o.s.frv. Fréttir undanfarna viku hafa fjallað um ýmsar vægast sagt skrýtnar hliðar þessa máls. Af einhverjum sökum hefur enginn fjölmiðill – svo ég viti til – spurt og a.m.k. ekki birt svar – við því hver geti ákveðið að lögregla skuli eða megi bera vopn samkvæmt ofangreindu.

 

Pistillinn er um lögfræði

Ástæða þess að ég ætla ekki að fjalla um vopnaburðinn sjálfan samkvæmt ofangreindri upptalningu er að ég er ekki sérfróður um þetta enda þótt ég hafi einhverjar – misvel ígrundaðar – skoðanir á því öllu; ég þykist hins vegar sérfróður um svonefndan ríkisrétt, sem má segja að sé samheiti yfir þær fræðigreinar lögfræðinnar sem fjalla um æðstu stjórn ríkisins og mannréttindi (stjórnskipunarréttur*) annars vegar og hins vegar þær fræðigreinar sem fjalla nánar um skipulag og starfsemi einstakra greina ríkisvaldsins, þ.e.

  1. dómsvalds (réttarfar),
  2. framkvæmdarvalds (stjórnsýsluréttur) og
  3. löggjafarvalds (þessi undirgrein stjórnskipunarréttar hefur ekki enn hlotið viðurkennt heiti) og
  4. fjárstjórnarvalds (fjárstjórnarréttur sem fjallar um sérstakan þátt ríkisvalds eins og síðar verður fjallað um í sérstökum pistli).

Hvað ætla ég þá að fjalla um?

 

Hefur lögreglan sjálfdæmi um vopnaburð sinn?

Álitaefnið – og umfjöllunarefni mitt – er

  1. Hver hefur heimild eða vald til þess að taka ákvörðun um (aukinn) vopnaburð lögreglu á Íslandi? Þar er um að ræða algengt álitamál í ríkisrétti og ýmsum undirgreinum hans sem ég hef nefnt bærni (d. kompetence), þ.e. hver er til þess bær að ákveða allt ofangreint – hvort, hvers vegna og hvenær lögregla sé búin vopnum, hver innan hennar og hvaða vopn? Leitast ég við að svara þessari spurningu í pistlinum.
  2. Hefur til þess bær aðili ákveðið (aukinn) vopnaburð lögreglu? Í næsta pistli mun ég rökstyðja svar mitt við síðari spurningunni.

Ég gef mér í upphafi það staðreyndaratriði (d. faktum) að um sé að ræða breytingu á vopnaburði lögreglu – og gef mér einnig það matskennda álitaefni að um sé að ræða verulega breytingu; um þetta hefur þó verið rifist töluvert megnið af vopnavikunni.

 

Hvers vegna ég – og hvers vegna nú?

Annir í lögmannsstörfum mínum eru ekki eina ástæða þess að ég birti þennan pistil ekki fyrr en viku eftir að fréttir bárust fyrst af leynilegum flutningum á „vélbyssum“ til landsins frá Noregi; aðalástæðan var að ég trúði því ekki fyrstu dagana að það stæði ómótmælt dögum saman – sem lögreglumenn og lögreglustjórar til lands og sjós – sögðu, beint eða óbeint, að lögreglan hefði sjálfdæmi um vopnaburð.

Ég var viss um að fjölmiðlar reyndu að fá – og fengju – einhvern til þess að benda á hið rétta að mínu mati; það geri ég nú, þar sem ég hef a.m.k. misst af þeim fréttum þar sem stjórnendur lögreglunnar – löglærðir sem ólöglærðir – eru leiðréttir eins og nauðsynlegt er að mínum dómi.

 

Þarf lögfræðing til að benda á þetta?

Reyndar var ég svo hissa á þessum málflutningi – og síðar þögn um hið gagnstæða (og að mínu mati rétta) – að ég taldi að ekki þyrfti lögfræði – eða lögfræðing eins og mig – til; ég hefði haldið að einföld stjórnmálafræði, sagnfræði eða jafnvel mannfræði dygði til þess að „úrskurða“ að lögreglumenn, lögreglustjórar, ríkislögreglustjórar til sjós og lands eða lögreglumálaráðherra gætu auðvitað ekki bara ákveðið (með leynd og að því er virðist blekkingum) upp á sitt eindæmi að vopnvæða lögreglu í alveg nýjum mæli. Í ríki

  • sem setti það í stofnsáttmála sinn 1918 að það skyldi vera ævarandi hlutlaust;
  • þar sem vopnuð stórátök hafa ekki orðið í um þúsund ár;
  • þar sem blóðug átök síðustu hundrað ár má telja á fingrum annarrar handar (Gúttóslagurinn, 1932; átökin um aðild að NATO 30. mars 1949 og búsáhalda“bylting“ 2008-9);
  • þar sem morð hafa verið um 1-2 á ári síðustu áratugi og
  • þar sem enginn var drepinn af lögreglu fyrr en 2013

hefði ég talið að nærtæk kenning út frá áðurtöldum greinum félagsvísinda að „sérfræðingarnir“ í málinu væru einmitt ekki þeir sem eiga – hugsanlega – að halda á vopnunum; kenning mín er, sem sagt, að í ríki með okkar sögu og stjórnskipun er óhugsandi annað en að lýðræðislega kjörnir fulltrúar á löggjafarþingi ákveði slíkan vopnaburð formlega – gjarnan að höfðu samráði við sérfræðinga auk almennings.

 

Treysta – þar til næsti borgari er skotinn?

Sl. laugardag gekk alveg fram af mér þegar biskup í þjóðkirkjunni minni taldi sjálfdæmi lögreglu um vopnaburð nánast sjálfgefið af því að við eigum að treysta – þar til annað kæmi í ljós; þetta leyfir helsti trúarleiðtogi kristinnar kirkju á Íslandi sér að segja örfáum mánuðum eftir að fyrsti borgarinn var skotinn til dauða af lögreglu við sorglegar aðstæður sem (sumir) fjölmiðlar hafa greint svo vel frá að ég tel á grundvelli frétta að réttarvörslukerfið sé ófullkomið og mistækt í besta falli. Mikið vafamál er því hvort ég sem borgari treysti lögreglu fyrir fleiri, nálægari, nýrri og öflugri vopnum – en það er annað mál. Biskup er a.m.k. hvorki bær til þess að ákveða neitt um vopnaburð lögreglu né leggja okkur borgurunum (innan eða utan þjóðkirkju) línur um afstöðu okkar til þess breytta vopnaburðar.

 

Hver ræður?

Að ríkisrétti má í dæmaskyni nefna eftirfarandi tilvik þar sem er krafist settra laga frá Alþingi til að

  • leggja á skatta og mæla fyrir um refsingu; um þetta eru bein stjórnarskrárákvæði (40., 77. og 69. gr);
  • flytja ríkisstofnun frá Reykjavík; Hæstiréttur kvað upp úr um þetta í dómi í máli um flutning Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness 1998, þótt deila megi um túlkun Hæstaréttar í málinu skal það ekki gert hér enda liggur þar með fyrir dómafordæmi – sem sýnir auk þess að fleira er matur en feitt kjöt, þ.e. áskilnaður um sett lög frá Alþingi er ekki bundinn við þau tilvik sem sérstaklega eru tiltekin í stjórnarskránni;
  • krefjast þess að umsókn borgara sé á sérstöku formi; um þetta liggur fyrir nokkuð gamalt álit umboðsmanns Alþingis – sem sýnir að ekki þarf dómafordæmi til að lagaáskilnaðarregla teljist fyrir hendi.
    – o.s.frv.

Af þessum dæmum tel ég augljóst að samkvæmt íslenskum stjórnlögum þurfi sett lög frá Alþingi til að

  • vopnvæða lögreglu og enn frekar til að
  • auka vopnvæðingu lögreglu að umfangi og einkum styrkleika, svo og væntanlega hvað varðar aðgengi og bærni (sem ég gef mér samkvæmt framangreindu).

 

Lögmætisregla – ef ekki lagaáskilnaðarregla

Jafnvel þótt ég hefði rangt fyrir mér um að sett lög þurfi beinlínis til að ákveða vopnaburð lögreglu og lagaáskilnaðarregla ætti ekki við hljóta allir lögfræðingar – og eiginlega allir lýðræðissinnar – að samþykkja að svonefnd lögmætisregla hljóti að gilda um vopnaburð lögreglu; umrædda reglu má e.t.v. skýra með aldagamalli enskri grundvallarreglu um „rule of law“ – nú eða bara úr okkar gömlu þjóðveldislögum:

 

Með lögum skal land byggja…

 

Þessi fimm orð segja betur en mörg orð í lagadeildum landsins – að stjórnvöld (þ.m.t. lögregla) skuli

  • skipulögð með lögum,
  • skipuð samkvæmt lögum og
  • starfa samkvæmt lögum.

 

Dugir áratuga venja?

Þarna er orðið „lög“ notað í rýmri merkingu – um fleira en samþykkt frumvörp á Alþingi. Meðal svonefndra réttarheimilda, sem væntanlega teljast í sumum tilvikum nægileg heimild samkvæmt lögmætisreglu, er réttarvenja. Af nokkrum skilyrðum þess að réttarvenja teljist fyrir hendi man ég t.a.m. að lærifaðir minn, prófessor Sigurður Líndal, kenndi að venja þyrfti að myndast

  • fyrir opnum tjöldum og
  • í friði.

 

Vissi fólk allt um lögregluvopn?

Hið fyrrnefnda, sem nefna má gagnsæi í anda tíðarinnar, er umdeilanlegt; margir lögreglumenn og aðrir sem styðja vopnvæðingu og hafna því að um sé að ræða (verulega) breytingu halda því fram að lögregla hafi haft aðgengi að vopnum í áratugi og það hafi allir vitað eða átt að vita. Ég vissi að lögregla hefði lengi haft kylfu og nýverið fengið sprey – eins og frægt er orðið. Ég hélt hins vegar að svonefnd víkingasveit eða sérsveitin væri sú sem fyrst og fremst væri þjálfuð og viðbúin með meiri háttar vopnum á borð við skotvopn; sem harður landsbyggðarsinni í 30 ár hefði ég sjálfsagt talið – ef ég hefði hugsað út í það – að í helstu þéttbýliskjörnum utan stórhöfuðborgarsvæðisins (svo sem Akureyri, Egilstöðum, Höfn og Ísafirði) væru einhvers konar víkingasveitarígildi eða einstakir sérsveitarmenn – en nú er ég eiginlega frekar að lýsa því hvernig þetta ætti að mínu mati að vera en hvernig þetta var eða ég hélt að vopnaburður væri hjá lögreglu víða um land. Samkvæmt þessu finnst mér afar vafasamt að venja um skotvopnaburð lögreglu hafi myndast

  • þar sem alkunna hafi verið (í skilningi laga) að lögregla hafi í áratugi haft tiltekið aðgengi að vopnum og
  • hvert það aðgengi og vopnabúr væri.

Þá er erfitt að mynda venju sem réttlæti breytingu á venjunni – þ.e. aukinn vopnaburður – en þá erum við komin að forsendunni sem ég gaf mér í upphafi; er þetta einhver breyting?

 

Enginn friður!

Gagnsæið er auðvitað forsenda  friðarins enda er erfitt að velja frið eða ófrið um eitthvað sem maður veit ekki um; af ófriðnum í huga mér, í umfjöllun fjölmiðla, umræðu á fasbók og á Alþingi (þegar stjórnarandstaðan tekur við sér) tel ég augljóst að enginn friður er eða var um þessa vopnvæðingu lögreglu þótt erfitt sé að henda reiður á vopnamálinu.

 

Niðurstaða

Niðurstaða mín um fyrra álitaefnið – hver hafi heimild eða vald til þess að taka ákvörðun um (aukinn) vopnaburð lögreglu á Íslandi – er því ótvíræð:

 

Alþingi eitt getur tekið ákvörðun um (aukinn) vopnaburð lögreglu.

 

Næst…

Í næsta pistli verður fjallað um hvort Alþingi hafi tekið slíka ákvörðun.

 ***

 

* Án þess að vilja virðast sjálfhælinn um of er sjálfsagt að taka fram að höfundur hefur í nær aldarfjórðung, síðan snemma í laganámi, sinnt stjórnskipunarrétti meira en flestum greinum og meira en laganemar og lögfræðingar almennt; í kjölfarið aðstoðaði höfundur dr. Gunnar G. Schram, prófessor í stjórnskipunarrétti, við endurskoðun grundvallarrits prófessors Ólafs Jóhannessonar „Stjórnskipun Íslands“ og síðan við endurútgáfu ritsins undir sama heiti undir ritstjórn dr. Gunnars heitins. Síðan hefur höfundur skrifað mikið um stjórnskipunarrétt og skyld mál – m.a. er höfundur lagði fyrstur til árið 2008 að boðað yrði til sjálfstæðs stjórnlagaþings í kjölfar hrunsins, samdi og tók þátt í að semja tvö fyrri frumvörpin um stjórnlagaþing og bauð sig svo fram til stjórnlagaþings 2010 og náði kjöri. Í tengslum við það skrifaði höfundur í nokkrar vikur tugi pistla (f.o.f. á Eyjunni sem ég þakka fyrir samstarfið hingað til) um gildandi stjórnarskrá og sýn sína á hvað þyrfti að endurskoða. Loks skrifaði höfundur – sömuleiðis á Eyjunni – yfir 100 pistla um jafnmargar greinar nýju stjórnarskrána eins og stjórnlagaráð gekk frá tillögu sinni í frumvarpsformi til Alþingis 2011. Af öðrum undirgreinum ríkisréttar má sem dæmi nefna að höfundur hefur í nær 20 ár lagt stund á stjórnsýslurétt – þ.m.t. í lokaritgerð sinni til embættisprófs í lögum, „Bótaábyrgð við meðferð opinbers valds“, 1997 – svo og í störfum sínum frá 1997 sem lögmannsfulltrúi, framkvæmdarstjóri BHM, talsmaður neytenda og nú sjálfstætt starfandi lögmaður hjá VestNord lögmönnum.

 

Latest posts by Gísli Tryggvason (see all)
Flokkun : Pistlar
1,397