trusted online casino malaysia
Gísli Tryggvason 05/11/2014

Vopnamálið (II)

(Mynd: Wikiped.)

(Mynd: Wikiped.)

Ef vér slítum í sundur lögin, slítum vér og í sundur friðinn

 

– er sagt að Þorgeir ljósvetningagoði hafi mælt í stærstu málamiðlun Íslandssögunnar.

 

Í síðasta pistli komst ég að eftirfarandi ótvíræðu niðurstöðu um fyrra álitaefnið – hver hafi heimild eða vald til þess að taka ákvörðun um (aukinn) vopnaburð lögreglu á Íslandi:

 

Alþingi eitt getur tekið ákvörðun um (aukinn) vopnaburð lögreglu.

 

Alþingi hefur valdið

Þessi pistill fjallar um hvort Alþingi hafi tekið slíka ákvörðun því

 

Með lögum skal land byggja – og með ólögum eyða.

 

Lögregla skal m.ö.o. starfa í samræmi við lög. Næsta spurning er þessi:

 

Hefur til þess bær aðili – Alþingi – ákveðið (aukinn) vopnaburð lögreglu?

 

Í þessum pistli mun ég rökstyðja svar mitt við síðari spurningunni.

 

Hefur Alþingi ákveðið vopnaburð lögreglu?

Síðara álitaefnið er aðeins meira vafamál í mínum huga. Ýmsir fjölmiðlamenn og aðrir ólöglærðir hafa tekið tilvitnun í vopnalög ranglega eins og sjálfkrafa opna heimild – opinn tékka (d. blanco check); þar segir þó aðeins:

 

Lög þessi gilda ekki um vopn, tæki og efni skv. 1. og 2. gr. sem eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu.

 

Af framangreindu – og kjarnanum í lagaáskilnaðarreglunni, sem tæpt var á í síðasta pistli, leiðir að mínu mati að Alþingi má ekki framselja slíkt vald til

  • ráðherra – og enn síður mætti ráðherra svo framselja hið framselda vald til
  • ríkislögreglustjóra – og hann til
  • einstakra lögreglustjóra (eins og ríkislögreglustjóri gerði ráð fyrir í sjónvarpsfréttaviðtali við RÚV þegar málið komst í hámæli).

 

Hvað þýðir að Alþingi ákveði (aukinn) vopnaburð lögreglu?

Til að fyrirbyggja (mis)skilning sem aðeins bar á í kringum síðasta pistil minn tek ég fram að þessi lög sem önnur skulu vitaskuld vera almenn; ég geri ekki ráð fyrir frekar en aðrir löglærðir eða upplýstir menn að lögin eigi í þessu tilviki að vera sértæk eða „kasusistisk“ eins og lög sem byggja á fordæmum eru gjarnan. Eftirfarandi ummæli lagaskólabróður míns, Jóns Einarssonar lögfræðings, voru forskot á sæluna í þessari rökræðu:

Það, að gera ráð fyrir að Alþingi verði að setja sérstaka heimild um hvaðeina, og ella sé það bannað, felur í sér að gert er ráð fyrir að Alþingi geti hugsað út í öll möguleg og ómöguleg tilvik. Þarf Alþingi að setja lagaheimild um að Vegagerðinni sé heimilt að nota veghefla til að hefla vegi? Og verður þá skortur á sérstöku pósitívu ákvæði þar um til þess að öll heflun Vegagerðarinnar á vegum verði sjálfkrafa að ólöglegt atferli?

 

Þannig voru lög okkar á þjóðveldisöld gjarnan orðuð fremur sértækt:

Nú ef maðr lér grip sinn, þá skal hverr láni heilu heim koma eða gjalda verð eiganda sem … skynsamir menn meta, nema hinn týnist, er lét var, með láni, því at eigi mátti hann þat lán ábyrgjast er hann mátti eigi líf sjálfs síns.

 

Fordæmisreglur – t.d. að Jón skuli greiða Guðrúnu skaðabætur vegna þess að hann braut kristalsvasa hennar af gáleysi eru ekki orðaðar þannig að karl skuli bæta konu kristalvasa ef hann rekst í hann; nú er sambærileg regla orðuð eitthvað á þessa leið:

Sá aðili, sem bakað hefur öðrum aðila fjárhagslegt tjón með ólögmætu og saknæmu atferli, skal bæta það tjón sem telja má sennilega afleiðingu þessa atferlis.

 

M.ö.o. hefur mér ekki dottið í hug að Alþingi þurfi að samþykkja sérstök lög í hvert sinn sem vopnaburði lögreglu er breytt lítilsháttar (eða honum haldið við) – svo fremi sem gildandi lög heimila þá breytingu og fyrirliggjandi vopnaburð.

 

Sömuleiðis tel ég augljóst að ekki gildir sama um vopnaburð og vopnabúr lögreglu og um skólaborð í ríkisskólum, sprautur á ríkisspítölum eða veghefla á þjóðvegum; þar skipta fjárlög hins vegar máli sem endranær. Varla þarf að orðlengja um þann mun eða ástæður hans.

 

Eins og rökstutt var í síðasta pistli dugir svonefnd réttarvenja ekki heldur til að réttlæta (aukinn) vopnaburð lögreglu að mínu mati – þótt hún sé í sumum tilvikum gild réttarheimild. Þá tel ég ekki orðum eyðandi á að reglur um neyðarrétt og neyðarvörn séu tækar sem varanleg heimild um (aukinn) vopnaburð einnar elstu þjóðfélagsstofnunar íslenska ríkisins; slíkar reglur eru t.a.m. taldar hafa heimilað Íslendingum að taka þjóðhöfðingjavald einhliða (og í upphafi tímabundið) í sínar hendur 1940 þegar sá óvænti atburður gerðist að Danmörk var hernumin af Þýskalandi þar sem þjóðhöfðingi Íslands, Danakonungur, var staðsettur í Kaupmannahöfn.

 

Vopnalögin veita enga heimild til vopnaburðar

Svohljóðandi ákvæði vopnalaga er samkvæmt framangreindu og síðasta pistli að mínum dómi marklaus og felur engan veginn í sér lagaheimild til vopnaburðar lögreglu (eða annars sem lög eða lagaheimld þarf til):

Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.

 

Jafnvel þótt lagaáskilnaðarregla ætti ekki við í þessu tilviki – heldur aðeins óumdeild lögmætisregla eins og ég vék að í síðasta pistli – er ljóst að í þessum 6 orðum í lagatexta felst ekki gilt framsal – a.m.k. meðan tilvitnað ákvæði styðst ekki við einhverjar efnisreglur, frá löggjafanum sjálfum; slíkt galopið framsal fellur um sjálft sig – eins og laganemi í „almennunni“ á fyrsta ári! Hluti af slíkum efnisreglum – í lögunum sjálfum – gæti hljóðað eitthvað á þessa leið:

Sérsveit ríkislögreglustjóra er heimilt að beita skotvopnum við tilteknar hættulegar aðstæður sem ráðherra lögreglumála skal skilgreina nánar í reglugerð sem kynnt skal fyrirfram í lögreglumálanefnd Alþingis. Í þeirri reglugerð skal einnig fjallað um hvaða staða, reynsla og menntun er áskilin til þess að fá og halda leyfi til að beita skotvopnum. Í reglugerð ráðherra skal kveðið á um eftirlit með beitingu skotvopna […] Í sérstökum tilvikum getur ríkislögreglustjóri heimilað öðrum en sérsveitarmönnum að bera skotvopn […] Sama gildir um deildir eða einstaka fulltrúa í sérsveit ríkislögreglustjóra sem staðsettir eru á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

 

Standast leynilegar reglur?

Þessu til frekari rökstuðnings má vísa til stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

 

Birta skal lög.

Þetta ákvæði hefur verið talið ná til allra settra reglna, þ.e. laga sem Alþingi hefur sett og forseti staðfest, bráðabirgðalaga, reglugerða sem ráðherra setur samkvæmt lagaheimild og stjórnskipunarvenju um nánari útfærslu laga í stjórnvaldsreglum, svo og annarra reglna sem stjórnvöld hafa heimild til þess að setja. Rétt er þó ávallt að hafa í huga að meta þarf hverju sinni hvort framsal reglusetningarvalds frá löggjafanaum – Alþingi – stenst; dómstólar hafa síðustu áratugi gert auknar kröfur til þess að slíkt framsal standist. Hvað sem því líður tel ég augljóst að óbirtar reglur – hvað þá beinlínis leynilegar reglur – standast varla nema e.t.v. ef um er að ræða reglur um innri starfshætti stjórnvalda (d. cirkulære) sem varða borgarana engu. Svo er ekki í þessu tilviki enda varðar það að mínu mati borgara þessa lands miklu – hvort sem þeir eru hlynntir eða andvígir (auknum) vopnaburði lögreglu – hvort lögregla eigi að (eða megi) bera vopn, hvers vegna, hvenær og hvaða vopn – svo og hver innan lögregluliðsins eigi (ekki) að bera vopn.

Ég er eiginlega svolítið hissa á að fáir ef nokkrir hafa bent á þetta nánast „kafkaíska“ fyrirbæri – að í ungu ríki sem almennt hefur verið talið lýðræðislegt réttarríki sé talið ganga upp að svo mikilvægt atriði sem (aukinn) vopnaburður lögreglu styðjist eingöngu við óbirtar og leynilegar reglur!

Ef á óbirtar reglur myndi reyna gæti farið svo að dómstóll beitti þeim ekki eða annar úrlausnaraðili byggði ekki á þeim, t.d. umboðsmaður Alþingis, sbr. hér að neðan. Lágmarksskilyrði þess að unnt sé að beita eða byggja á óbirtum reglum (hvað þá leynilegum) er að löggjafinn hafi kveðið á um að tiltekinn hluti þeirra skuli ekki birtur opinberlega og að fyrir liggi, a.m.k. í lögskýringargögnum, hvers vegna og hvernig réttaröryggi skuli þá tryggt skv. tilvitnuðu stjórnarskrárákvæði. Kæmi þar neðangreint þingeftirlit m.a. til skoðunar.

T.a.m. mætti ímynda sér að nákvæmar verklagsreglur um hvenær grípa mætti eða skyldi til vopna (e. rules of engagement) væru ekki aðgengilegar almenningi og þar með hugsanlegum glæpahringjum eða hryðjuverkamönnum.

 

Er heimildin í lögreglulögum? 

Á fasbókarsíðu minni hefur löglærður vinur minn rökstutt að heimildina sé ekki að finna í vopnalögum – eins og flestir virðast álíta, ranglega samkvæmt framangreindu – heldur í lögreglulögum. Fyrrnefndur lögfræðingur og vinur skrifaði á fasbók hjá mér:

 

Lögreglan er valdbeitingaraðili í þjóðfélaginu, hennar tilgangur er að halda uppi lögum og rétti og verja borgaranna. Til að hún geti gengt því hlutverki þarf hún, eðli málsins samkvæmt, að hafa aðgang að tækjum sem nýtast henni til að uppfylla þann tilgang sinn.

 

Í lögreglulögum er aðeins eitt ákvæði þar sem beinlínis er fjallað um valdbeitingu:

 

Handhöfum lögregluvalds er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.

 

Síðari málsliðurinn hefur f.o.f. þann tilgang að minna á löngu óumdeilda meðalhófsreglu ríkisréttar – á sérlega mikilvægu sviði – sem bæði hefur verið byggt á í áratugi í dómaframkvæmd og hefur verið löfest, m.a. í stjórnsýslulögum. Fyrri málsliðurinn er mjög rúm og almenn heimild til valdbeitingar sem felst e.t.v. í eðli máls en rétt hefur þótt að lögfesta. Erfitt er að orðlengja um þá afstöðu mína að í reglu um að handhöfum „lögregluvalds“ sé heimilt að beita „valdi“ felist engan veginn nægileg heimild til vopnavalds. Ef þessi heimild næði samkvæmt tíðaranda og aðstæðum hverju sinni til valdbeitingar frá hefðbundnum handtökum, lögreglubrögðum og kylfu til „basúku“ og þungavopna væri það óvenjulega almenn og teygjanleg regla og byði upp á alltof mikla óvissu og ágreining auk þess að slíkt framsal reglusetningarvalds til lögreglustjóra – ekki aðeins ráðherra lögreglumála – stenst engan veginn nútímakröfur samkvæmt fjölda dóma Hæstaréttar. Í besta falli gæti réttarvenja heimilað slíka túlkun ef Alþingi – sem einnig er handhafi fjárveitingarvalds – hefði heimilað fjárveitingu reglulega til tiltekinna skotvopnakaupa; svo er ekki eftir því sem ég best veit. Þá tel ég réttarheimildina eða lögskýringarregluna „eðli máls“ ekki duga til þess að í þessu lagaákvæði felist heimild til (aukins) vopnaburðar lögreglu.

 

Ég tel því að vopnaburður lögreglu, einkum notkun skotvopna, og enn frekar aukning á aðgangi lögreglu að og notkun á slíkum „tækjum“ – hvort sem er til varnar eða afvopnunar/árásar – áskilji skýra lagaheimild frá Alþingi; að mínu mati hefur Alþingi ekki sett neina slíka reglu í lög.

 

Niðurstaða

Niðurstaða mín samkvæmt framangreindu er ótvíræð:

Alþingi hefur enga ákvörðun tekið um (aukinn) vopnaburð lögreglu.

 

 Eftirlitsstofnanir og fjárlög

Að þessu sögðu tek ég fram að mér finnst ekki ólíklegt að umboðsmaður Alþingis fjalli um málið – væntanlega eftir kvörtun einhvers af þeim fjölmörgu borgurum sem undrast þessa ráðstöfun og leggjast að óbreyttu gegn henni – enda hefur umboðsmaður Alþingis sætt óvenjulega harðri ágjöf af hálfu stjórnmálaafla eftir að hann tók – réttilega að mínu mati – að eigin frumkvæði til skoðunar svonefnt lekamál í innanríkisráðuneyti.

Þá geng ég út frá því sem vísu að önnur eftirlitsstofnun á vegum löggjafarþingsins, Ríkisendurskoðun, muni fjalla um þann þátt málsins sem er hvað skrýtnastur; hvort byssur voru gefnar eða seldar. Lengi ég þennan pistil því ekki með umfjöllun um efnið Fjárlög sem ég hef skrifað sérstakan kafla um í ritið Stjórnskipun Íslands, í ritstjórn dr. Gunnars G. Schram prófessors (1997). Þar kemur væntanlega til skoðunar hvort undarleg áratuga hefð fyrir málamyndasamningum við Norðmenn um vopnagjafir á borði, sem keypt séu í orði, standast fjölmargar reglur ríkisréttar – svo margar að ég lengi ekki nóttina og þennan síðari pistil með því að vitna í þær. Hitt vil ég nefna að ef Norðmenn hafa rétt fyrir sér en ekki forstjóri Landhelgisgæslunnar kemur til skoðunar hvort stjórnarskráin hafi líka verið brotin:

Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Þessi regla er ekkert grín – þó að áratuga tómlæti handhafa fjárstjórnarvalds gagnvart ósiðum handhafa framkvæmdarvalds gæti bent til þess og enda þótt ákvæði um fjárstjórnarvaldið í nýju stjórnarskránni séu miklu sterkari og betri, að gefnu tilefni.

 

Frekara eftirlit – með lögreglu

Enn fremur vil ég árétta þá skoðun mína að þinglegt eftirlit með lögreglu sé löngu tímabært – og má þar vitna í orð sem stundum eru eignuð einræðisherranum Lenín:

„Traust er gott; eftirlit er betra!“

Vafalaust er þetta almenn afstaða einræðissinna og fasista. Sömuleiðis held ég að afstaða almennings til stjórnvalda og lögreglu – í tilefni orða biskups og ráðherra kirkjumála í fyrri viku – sé þessi:

Traust er gott (og ávinnst hægt og tapast hratt) – en aðhald er nauðsyn!

 

Hvar eru alvöru fjölmiðlar – og samtök?

Hitt finnst mér ótrúlegt að fjölmiðlar séu svo hrekklausir að gleypa þá „lögskýringu“ hráa – og kyngja – að lögregla til sjós og lands hafi sjálfdæmi um (aukinn) vopnaburð sinn! Þá hef ég orðið fyrir vonbrigðum með að samtök, sem ég hefði talið standa nærri að fjalla um málið, að skuli sofa á óvopnuðum verðinum. Auk fjölmiðla og almennings hafa einungis kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu amast við meintum fyrirætlunum um að vopna lögreglu frekar en tíðkast hefur.

 

Nýja stjórnarskráin tekur óbeina afstöðu

Til gamans má að lokum vitna í aðfararorð nýju stjórnarskrárinnar okkar, sem þjóðin samþykkti sem grundvöll í formlegri þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrir rétt rúmum tveimur árum og Alþingi á eftir að staðfesta hvenær taki formlega gildi:

 

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

 

Næst…

Í næsta pistli verður væntanlega – vegna nokkurra fyrirspurna frá fjölmiðlum o.fl. – fjallað um hvort í vopnainnflutningi til landhelgisgæslu hafi falist refsivert smygl.

Latest posts by Gísli Tryggvason (see all)
Flokkun : Pistlar
1,257