trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 18/08/2014

Veisluspjöll

Í gær, sunnudag, sigldi nýtt „íslenskt“ farskip inn í Reykjavíkurhöfn. Lagarfoss. Hann er í eigu Eimskipafélags Íslands, sem segist vera 110 ára gamalt. Landsmönnum var boðið til veislu um borð. Frímúraraprestur bað guð að blessa skipið. Það var fallegt af honum.

En.

Það var verið að falsa söguna. Lagarfoss er ekki íslenskt skip. Það er frá Nýfundnalandi. Heimahöfn þess er St. Johan´s. Hvers vegna, spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins. Því ráða flókin skattamál, sagði forstjóri Eimskips. Og ekki öðru. Hann þurfti ekki að segja að þetta væri vegna þess að félagið tímir ekki að greiða skatt í ríkissjóð Íslands og kýs að að borga hann til Nýfundnalands. Lögin þar eru þannig að Eimskip fær stærstan hluta opinberu gjaldanna greiddan til baka inn í sína sjóði. Áhöfnin greiðir líka sín opinberu gjöld til lands heimahafnarinnar. Það hefur í för með sér að ekki eru greidd tryggingagjöld hér vegna áhafnarinnar og því eiga sjómennirnir ekki rétt til atvinnuleysistrygginga og fæðingaorlofs svo tvennt sé tekið til. Persónubundnir samningar eru gerið við hvern og einn áhafnarmeðlim. Útgerðin ræður hvaðan áhafnir koma. Hvort Eimskip hefur notað sér þann möguleika sem felast í þessu fyrirkomulagi, að ráða menn frá Asíu á smánarlaunum, er ekki ljóst, en leiðin er þeim fær.

Önnur sögufölsun blandaðist inn í veisluhöld gærdagsins. Eimskip segist vera 110 ára gamalt félag. Það er rangt. Eimskipafélag Íslands, Óskabarnið, fór á hausinn í Bólunni. Annað félag með sama nafni og nýrri kennitölu var reist úr öskunni. Þetta var árið 2004 ef rétt er munað.

Sannleikurinn lítur þá svona út:

Eimskipafélagið er 10 ára. Samkvæmt alþjóðalögum telst Lagarfoss vera frá Nýfundnalandi þótt eigandinn eigi lögheimili á Íslandi. Ekkert skipa félagsins er íslenskt.

Um leið og beðist er velvirðingar á þessum veisluspjöllum skal tekið undir með guðsmanninum og vonast til að skipi, útgerð og áhöfn farnist vel í framtíðinni.

Eftirskrift:

Pistlahöfundur neyðist til þess að játa það á sig að hann hefur ekki næga kunnáttu í braski til að sjá í gegn um það, að St. John´s á Nýfundnalandi býður ekki góðu kostina til útgerðar, sem frá er greint hér að framan.

Í tilviki Lagarfoss er því ekki um að ræða St. John´s þar heldur St. John´s í Karabíska hafinu. Þar búa tæplega 100 þúsund manns. Þar er mikil paradís fyrir ferðamenn og skipafélög. Höfundur biðst velvirðingar á vanþekkingu sinni á alþjóðlegu svindli.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,236