trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 13/08/2014

Vanþekking eða varmennska

Síðan núverandi ríkisstjórnin settist að völdum hefur hún lækkað veiðigjöld og ákveðið að afnema auðlegðarskatt. Hún hefur einnig lækkað skatt á hæstu tekjur og fellt niður fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatt af ferðaþjónustu. Þessu til viðbótar hefur hún lækkað gjöld á áfengi og tóbaki og boðað frekari skattalækkanir á næstunni. Með þessum aðgerðum verður ríkissjóður af svo sem 100 milljarða tekjum á því kjörtímabili sem stjórninni er ætlað að sitja.

Á sama tíma og þetta á sér stað fer læknum fækkandi í landinu. 40% starfandi lækna er 55 ára og eldri. Þeim mun því fækka áfram. Æ færri þeirra sem fara úr landi til þess að stunda sérnám í fræðunum koma heim að loknu námi. Samhliða þessu fækkar þeim ágætu læknum sem kenna fræðin við Háskóla Íslands. Í þeirra stað munu ekki fást jafn vel menntaðir kennarar.

Það sem dregur úr sérmenntuðum læknum að koma heim er einkum þetta: Laun hérlendis eru mun lægri en þau sem þeir fá erlendis. Vinnutími tím hér er lengri, aðstaða til að vinna verkin svo vel sem verða má er verri hér en erlendis og rannsóknaraðstaða bágborin. Húsnæði hérlendra spítala er vont og í mörgum tilfellum hörmulegt. Tæki til lækninga eru víðast gömul og úr sér gengin.

Eitthundrað þúsund miljónir er mikill peningur. Fyrir hann mætti reisa nýtt hús fyrir Landsspítalann. Það mundi á nokkrum árum spara fyrir sjálfu sér með því hagræði sem af hlytist. Auk þess mætti endurnýja lækningatæki í fjölmörgum sjúkrahúsum, hækka laun og bæta rannsóknaraðstöðu. Það mætti gera það eftirsóknarvert fyrir lækna að snúa heim.

En í stað þess að gera þetta grefur ríkisstjórnin undan velferðarkerfinu í landinu með allt of lágum fjárveitingum. Það verður til þess að það mun ekki geta sinnt sjúkum sem skyldi. Annað hvort gerist þetta vegna vanþekkingar ráðamanna eða varmennsku þeirra. Hvorug ástæðan er sæmandi í upplýstu samfélagi sem sjálft kallar sig velferðarsamfélag.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,395