trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 25/03/2014

Vanhæf ríkisstjórn?

Að kalla ríkisstjórn vanhæfa er ekki eitthvað sem ætti að gera nema af fullri alvöru og af brýnni nauðsyn. Nú verður að segjast eins og er að ég studdi vantraust gagnvart síðustu ríkisstjórn enda voru margir hlutir sem betur hefðu mátt fara þá, eins og til dæmis að vísa Icesave málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem betur fer sá forseti okkar sóma sinn í að samþykkja ekki þá samninga og bera þá undir þjóðina og sagan hefur sýnt sig að það var svo sannarlega rétt ákvörðun. Núna er komið nýtt kjörtímabil og ný ríkisstjórn hefur verið kosin til valda. Eins hrikalegar og mér fannst áherslur hennar vera þá ákvað ég að gefa nýju ríkisstjórnini séns til að sýna hvort eitthvað gott gæti komið út úr þessu öllu saman.

Fjárlagafrumvarpið kom upp á yfirborðið og leit út eins og sérhagsmunirnir væru strax komnir af stað en ekki sagði ég vanhæf ríkisstjórn þá. Hagstofufrumvarpið gaf Hagstofunni grænt ljós til að skoða persónuleg fjármál borgara og ein grófasta aðför gegn friðhelgi einkalífsins sem sést hefur hér á landi en samt sagði ég ekki vanhæf ríkisstjórn. Margumtöluð skuldarniðurfelling Framsóknarflokksins varð svo allt í einu mun minni en talað var um fyrir kosningar og skýrasta dæmi um öfugan sósíalisma sem ég hef séð, þrátt fyrir mikla leit á ferli mínum sem áhugamaður um félagsfræði. Enn og aftur sagði ég ekki vanhæf ríkisstjórn. Eftir mikla baráttu við menntakerfið komst ég mér til mikillar gleði inn í Háskóla Íslands í haust en sú gleði breyttist fljótt í áhyggjur og kvíða þar sem ég mátti ekki falla í einu námskeiði ef ég ætlaði að fá námslán miðað við áætlun LÍN um að hækka námsframvindukröfur upp í 22 einingar. Sú tillaga var sem betur fer dæmd ólögmæt af dómstólum þannig að ekki þurfti ég að segja vanhæf ríkisstjórn vegna þess. Lekið var persónuupplýsigum úr innanríkisráðuneytinu um hælisleitandann Tony Omos, en nei, ekki sagði ég vanhæf rikisstjórn. Svo kom upp stóra tryggingamálið svokallaða sem má teljast mjög gróf aðför að friðhelgi einkalífs hjá bótaþegum en samt sem áður ákvað ég að gefa ríkisstjórnini tækifæri að gera gott og lýsa ekki yfir vanhæfni hennar.

Svo kemur þetta ESB mál fram í dagsljósið og ekki er ríkisstjórnin bara að hundsa þjóðarviljann í þessu máli heldur einnig stóran hluta af kjósendum hennar. Þegar skoðannakönnun segir að um 82% þjóðarinnar vilji þjóðaratkvæðagreisðslu, þá er ekki um vikmörk eða minnihluta þjóðarinnar að ræða. RÚV gerði svikin enn augljósari þegar sýndar voru úrklippur úr síðustu kosningabaráttu þar sem núverandi ráðherrar, trekk í trekk, lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Trúverðugleikinn hjá ríkisstjórnini er enginn og ekki er heldur hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að Bjarni Benediktson sagði að síðasta ríkisstjórn ætti að segja af sér við svipaðar aðstæður á síðasta kjörtímabili.

Það er orðið mjög erfitt og eiginlega svakalega pínlegt að sjá erlenda fjölmiðlaumræðu um hið aðdáunarverða Ísland, hvernig við leyfðum bönkunum að hrynja og hentum ábyrgðarmönnum hrunsins í fangelsi. Þetta er ekki beint lygi en þetta er augljóslega ekki sannleikur heldur. Þegar hrunið átti sér stað komu upp nýjar kröfur til að reyna að koma í veg fyrir að slíkt gæti átt sér stað aftur. Ný stjórnarskrá, sem hefði gefið fólkinu heimild til að kjósa um ESB-aðild, er dauð og grafin. Það átti að hlusta meira á fólkið, en því er víst ekki treystandi, hvorki með Icesave né ESB. Mér virðist því nokkuð augljóst að ríkisstjórnin er ekki að fara að skipta um skoðun um þetta mál neitt á næstunni. Ég þarf því eina ferðina en að labba niður á Austurvöll með reglulegu millibili og henda út úr mér slagorði sem ég hef því miður þurft að endurtaka allt of oft.

Vanhæf ríkisstjórn, vanhæf ríkisstjórn.
Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,276