trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 24/11/2014

Höfundarréttur og þungarokk

Ég hef síðan að ég var unglingur verið mikill þungarokksaðdáandi og get kallað mig sannan málmhaus. Það hefur verið mjög spennandi að fylgjast með þróun tónlistarinnar víðsvegar um heim. Þetta er tónlist sem heyrist ekki oft í útvarpinu og finnst sumum hún vera hin mestu óhljóð. Ég uppgötvaði þessa tegund tónlistar á svipuðum tíma og umræðan um ólöglegt niðurhal fór af stað. Ég rakst á Metallica rétt áður en þeir fóru í mál við Napster. Á þeim tíma var Napster aðalstaðurinn til þess að ná sér í tónlist á netinu. Ég gat skilið hlið listamannsins, og hefði glaður borgað smá pening fyrir lögin sem ég var að ná mér í en gallinn var að á þessum tíma voru engar slíkar leiðir til staðar. Í plötubúðum var takmarkað úrval af uppáhalds tónlistinni minni. Ég þurfti að panta sérstaklega og stundum var það ekki einu sinni hægt.

Aðstæður eru hins vegar allt aðrar í dag. Ég er með aðgang að Spotify og get pantað mér plötur á Amazon. Það er ekkert fullkomið fyrirkomulag en það er ágætis byrjun. Ég get meira að segja styrkt hljómsveitir beint með að kaupa lög í mp3 formi, boli og sérstakar útgáfur af plötunni beint frá hljómsveitinni. Allt án hefðbundinna milliliða sem stjórna hvaða vörum ég hef úr að velja. Ég er búinn að kynnast hljómsveitum frá Færeyjum, Brasilíu, Ísrael, Indlandi, Japan og Kína svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er nóg af listamönnum sem hafa grætt á því að ég heyrði tónlistina þeirra frítt á netinu. Ég er þó nokkuð lánsamur miðað við marga þungarokksaðdáendur erlendis. Aðdáendur í Iran, Saudi Arabíu og fleiri einræðisríkjum fá einungis aðgang að þungarokki í gegnum ólöglegt niðurhal og smygli á plötum.

Höfundarréttur er í dag ein helsta ástæðan fyrir því að það virðist vera í lagi að brjóta á borgararéttindum fólks í hinum vestræna heimi. Ritskoðun á netinu virðist aðalega eiga sér stað gegn síðum á borð við thepiratebay.org. Það fer ekki á milli mála að ólögleg dreifing á sér stað í gegnum Pirate Bay en þar er svo sannarlega líka heilmikið af fullkomlega löglegu efni. Maður verður því að velta því fyrir sér hvort það sé í lagi að ritskoða allar þær síður þar sem ólöglegt niðurhal á sér stað. En þá er einnig hægt að færa rök fyrir því að það ætti að ritskoða Google og Dropbox enda bjóða þau fyrirtæki upp á dreifingu á höfundarréttarvörðu efni. Ekki þarf annað en að slá inn orðið torrent með nafn á kvikmynd hjá Google til þess að finna síðu sem bíður upp á ólöglega dreifingu höfundarvarins efnis.

Afleiðingin er sú að hlutleysi internetsins (eða Net Neutrality) eins og við þekkjum það er í hættu. Stór hluti af umferðinni á netinu í dag er orðin svokölluð ,,peer to peer” umferð, sem er ein aðal leið fólks til að deila skrám sín á milli. Þar með talið er höfundarréttar varið efni. Umferðin í gegnum slíkar þjónustur er það mikil að sumir vilja leyfa þjónustuaðilum að ákveða hversu mikil bandvídd má fara í t.d. Pirate Bay eða Youtube. Ef hlutleysi netsins verður ekki virt myndi það gera að verkum að Síminn, Vodafone, 365 og fleiri ákveða fyrir þig í hvað þú mátt nota bandvíddina hvort það sé VOD eða Youtube.

Það sem þetta þýðir er að internetið mun líkjast útvarpi og sjónvarpi töluvert meira. Öll sú nýsköpun sem a sér stað á internetinu hverfur hægt og rólega og í staðinn munu fyrirtæki geta keypt sér meiri umferð á síðurnar sínar með því að bjóða upp á meiri bandvídd. Ég hef ekki séð né heyrt mikið þungarokki í útvarpi og sjónvarpi undanfarið og vil þess vegna fá að njóta þess að hafa þann fjölbreytileika sem internetið bíður upp á.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,253