trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 14/01/2015

Berjumst gegn hatri með tjáningarfrelsi

Nýtt ár er gengið í garð og nýjar áskoranir eru strax farnar að berast sem þarf að takast á við. Það var svo sem við því að búast að nýr slagur um tjáningarfrelsi myndi hefjast en það hefur vísast komið mörgum í opna skjöldu hvernig sá slagur hófst. Mér er mjög annt um Frakkland. Um nokkura ára skeið kallaði ég það land heimili mitt og vildi helst ekkert fara þaðan þegar að því kom. Því hryggði það mig augljóslega að frétta af þeirri hrottalegu atburðarás sem hefur átt sér stað þar í landi undanfarna daga, sem hófst með skotárás þann 7. janúar á höfuðstöðvar vikublaðsins Charlie Hebdo.

Það er þó vert að taka það fram að þetta er langt frá því að vera fyrsta skiptið sem Frakkland hefur þurft að glíma við hryðjuverkaógn. Löngu fyrir hryðjuverkaárasirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001 voru nokkrar sprengjuárásir gerðar á neðanjarðarlestakerfið í París. Árið var 1995 og svo vildi til að ég flutti til landsins einmitt á svipuðum tíma, þá 8 ára gamall. Ég man ekki mikið eftir þessum tíma en man þó að lokað var fyrir allar ruslatunnur á opinberum stöðum til að koma í veg fyrir að hægt væri að skilja eftir sprengjur í ruslinu. En það sem er mér þó minnisstæðast var hvað ég var logandi hræddur við að fara niður í neðanjarðarlestirnar. Einu sinni grátbað ég um að fara ekki niður því ég var hræddur við sprengjur. Íslendingar hafa sem betur fer aldrei þurft að finna fyrir slíkri hræðslu og ekki er ástæða til óttast að það breytist á næstunni. Mannfall er skiljanlega það fyrsta sem maður heyrir af í tengslum við hryðjuverkaáras en sálfræðilega hliðin er hins vegar lúmskari og að mörgu leyti hættulegri.

Það er gott að nýta svona hryllilega atburði til að hugsa málið svolítið vel. Hvers vegna gerðist þetta? Hvernig á að bregðast við? Það er hægt að velta mörgu fyrir sér sem verður hvorki svarað auðveldlega né fljótlega. Þetta er án efa stærsta áskorunin sem tjáningarfrelsið hefur staðið frammi fyrir síðan teikningar af Muhammed í danska dagblaðinu Jyllands Posten olli miklu fjaðrafoki og varð til þess að fjölmiðlar stunduðu sjálfsritskoðun, gerðar voru árásir á dönsk sendiráð og meira að segja tóku nokkur ríki sig til og kröfðust þess að SÞ myndu samþykkja ályktun sem bannaði guðlast. Viðbrögðin við þeim teikningum voru mikið áfall fyrir tjáningarfrelsi þar sem ekki nærri því nógu margir sýndu þann kjark að standa með tjáningarfrelsi skopmyndateiknarans sama hversu ósmekklegar teikningarnar voru.

Sama hversu ósammála maður getur verið skopmyndateiknurum, þá er ekkert að því að teikna myndir af Muhammed í sjálfu sér. Það eru til fjölmörg dæmi um listamenn sem aðhyllast Islam sem hafa í gegnum tíðina teiknað og málað myndir af Muhammed. Réttu viðbrögðin eru því ekki að ritskoða myndir af Muhammed eða kalla það rasisma að dreifa teikningum úr Charlie Hebdo. Réttu viðbrögðin eru ekki að kalla eftir dauðarefsingu fyrir íslamska öfgamenn eða að ráðast á múslima og bænastaði þeirra. Réttu viðbrögðin eru ekki að segja að hryðjuverkamennirnir hafi ekki verið múslimar. Það er nokkuð vel staðfest að þeir voru múslimar, sama hversu brengluð túlkun þeirra á trúnni kann að vera. Réttu viðbrögðin eru ekki að byssuvæða lögregluna hér á landi. Réttu viðbrögðin eru ekki að kenna árásum Vesturlanda á Miðausturlönd um þetta. Það er stór munur á stríði og morði á saklausum borgurum. Réttu viðbrögðin eru ekki aukin ritskoðun á internetinu. Síðast en ekki síst eru réttu viðbrögðin ekki að kalla eftir auknu eftirliti með múslimum.

Í nýlegu viðtali við Ásmund Friðriksson í Kastljósi Ríkisútvarpsins opinberaði þingmaður Sjálfstæðisflokksins svakalega fáfræði sína. Sem betur fer hafa aðrir þingmenn flokksins verið duglegir að gagnrýna þessi ummæli. Ásmundur vill að fylgst sé með öfgafullum múslimum sérstaklega þrátt fyrir það að öfgafullir kristnir menn séu mun fleiri hér á landi. Hann fór síðan með kolrangt mál þegar hann sagði að Breivik ætti enga stuðningsmenn. Breivik á meira en nóg af stuðningsmönnum og fær þúsundir bréfa frá brjáluðum aðdáendum sínum í hverjum mánuði. Þessar uppástungur Ásmundar verða einungis til þess að einangra múslima hér á landi. Það ætti að vera hagur Íslendinga að gera þveröfugt og láta þeim líða eins og þeir séu velkomnir hér á landi.

Réttu viðbrögðin við voðaverkum eins og þeim sem áttu sér stað í Frakklandi er að auka tjáningarfrelsi. Öfgamenn þrífast á einangrun fólks og innflytjendur einangrast mjög gjarnan í samfélögum þar sem þeir fá ekki næg tækifæri til að aðlagast nýja samfélaginu sínu. Einnig er þess vert að muna að flest fórnarlömb hryðjuverka nú til dags eru múslimar og því er það sorglegt að sjá að það þurfi hryðjuverkaárasir á Vesturlöndum til þess að fólk átti sig á því hvað öfgahreyfingar eru mikið vandamál. Það sem Ísland getur gert til að sporna við því að slíkir öfgamenn þrífist hér á landi er að auka getu þeirra til að tjá sig og fá þá gagnrýni á sig sem þeir eiga skilið. Það þarf að taka mun betur á móti innflytjendum hér á landi og tryggja að þeim líði sem best og fái jöfn tækifæri til að þrífast og dafna í íslensku samfélagi.

Að lokum má nefna að Alþingi getur brugðist við þessu með því að gera tvennt. Samþykkja lagabreytingu um afnám við refsingu á guðlasti. Þar með er hægt að tryggja að hægt sé að gera grín að trúarbrögðum án þess að það sé mögulegt að fangelsa einstaklinga fyrir að tjá sig. Það er mikilvægt að gera grín að trúarbrögðum og þá sérstaklega þeim sem telja sig yfir gagnrýni hafin. Annað sem Alþingi getur gert er að spýta í lófana með IMMI (Icelandic Modern Media Initiative) og klára það verkefni svo við getum farið að gorta okkur af því hvað við erum framarlega í tjáningarfrelsi og öryggi fyrir blaðamenn. Þannig sýnum við alþjóðasamfélaginu hvernig á að bregðast rétt við hryðjuverkum og hvernig á að virða þá sem gefa líf sitt fyrir tjáningarfrelsið.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,290