trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 12/12/2014

Veraldlegri jól takk

Það hefur lengi tíðkast hjá flestum vestrænum þjóðum að halda trúmálum og hinu opinbera aðskildum. Svo virðist sem að Evrópa verði stöðugt veraldlegri með árunum og fátt virðist hægja á þeirri þróun. Íslendingar hafa að mörgu leyti fylgt þessari þróun eftir enda eykst sá fjöldi sem skráir sig úr þjóðkirkjunni á hverju ári. Ólíkt því sem biskup Íslands heldur fram þá er ekki hægt að rekja þessa þróun til brottflutnings margra Íslendinga. Rétt eins og annars staðar í Evrópu fer fjöldi þeirra sem mæta í kirkju reglulega sífellt minnkandi. Það er því furðulegt að fylgjast með umræðunni sem á sér stað nánast árlega hér á landi í kjölfar þess að mannréttindaráð Reykjavíkurborgar breytti reglum um aðkomu trúfélaga að menntastofnunum borgarinnar til að skerpa á skilunum þarna á milli.

Þegar kemur að heimsóknum presta eða heimsóknum barna í kirkju á skólatíma í kringum hátíðirnar virðast margir verða mun „kristnari“ en þeir eru aðra hluta ársins. Viðbrögðin við því þegar Líf Magneudóttir, núverandi formaður mannréttindaráðs, tjáði sig á Facebook um ákveðna slíka heimsókn hafa sum hver verið ansi skrautleg. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði háværan minnihluta þjóðarinnar vilja úthýsa jólagleðinni og boðskap jólanna úr lífi skólabarna. Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, talaði um kristni sem hluta af menningu Íslendinga og að það væri því eðlilegt að börn færu í kirkju til að læra um menningu okkar. Svo hafa athugasemdakerfi vefmiðlanna víðsvegar logað um þetta mál og aftur og aftur sér maður fólk færa rök sem einfalda má niður í það að „í lýðræði ræður meirihlutinn”.

Sem áheyrnarfulltrúi í skóla- og frístundaráði tel ég það vera hluta af skyldum mínum að upplýsa um það hvers vegna ég styð stefnumörkun mannréttindaráðs um það að koma í veg fyrir trúboð hjá menntastofnum borgarinnar. Það er svo sannarlega ekki nokkur áhugi hjá borginni fyrir því að úthýsa jólunum úr stofnunum borgarinnar. Ég ætla ekki að rekja sagnfræðilegu hliðina á jólunum neitt ítarlega en ætla þó að taka það fram að kristni á ekki einkarétt á jólunum og flestar þær hefðir sem við tengjum hvað mest við jólin eru langt í frá af kristnum uppruna. Menning okkar Íslendinga er vissulega eitthvað sem við ættum að fagna og styðja. En hvers vegna er það þá eðlilegt að börn fái presta í heimsókn í skólann og fari í kirkju en fái ekki goða í heimsókn og að fara í hof? Ásatrú var um tíma ríkistrú hér á landi og hluti af okkar menningu. Mörgum, mér meðtöldum, myndi hins vegar þykja óeðlilegt ef fulltrúar trúarinnar fengju sérstakan aðgang að menntastofnunum borgarinnar, sama hverjir þeir væru.

Ég hef starfað í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu og hef því reynslu af því hvernig nýja fyrirkomulagið breytti hlutunum. Börn sem eru ekki í þjóðkirkjunni, hvort sem þau eru trúlaus, búddistar, vottar Jehóva eða annað, sjá sér nú fært að mæta þótt að það sé verið að syngja jólalög og hafa það huggulegt. Sama var ekki hægt að segja þegar eðlilegt þótti að prestur kæmi að spjalla við börnin. Trúboð getur nefnilega verið frekar lúmskt fyrirbæri og línan á milli þess sem telst vera trúboð annars vegar og fræðsla hins vegar er oft mjög óljós. Gídeonfélaginu er til dæmis ekki heimilt að úthluta Nýja testamentinu til barna í skólum borgarinnar lengur, vegna þess að þó svo að það kunni að virðast sem fríar bækur séu bara fræðsla þá er trúboð samt sem áður yfirlýst og opinbert markmið Gídeonfélagsins. Félaginu er hins vegar núna heimilt að gefa skólunum þessar bækur svo þau börn sem vilja leita í þær geti það.

Það er algjör rökleysa að halda því fram að meirihlutinn ráði alltaf í lýðræði og hafa þeir sem halda slíku fram lítið vit á því hvernig vestrænt lýðræði hefur þróast á undaförnum árum og frekar lítið vit á því hvað felst í trúfrelsi. Lýðræði þýðir ekkert alltaf að meirihlutinn ráð öllu, sama hvaði. Lýðræðinu er ætlað að tryggja réttindi hinna valdaminni gagnvart misbeitingu hinna valdameiri. Trúfrelsi er ekki bara frelsi til að trúa því sem maður vill heldur einnig frelsi frá trú. Reykjavíkurborg ber skylda til að fara eftir fjölmörgum alþjóðasamningum sem íslenska ríkið hefur samþykkt. Meðal þeirra má nefna Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ákvörðun mannréttindaráðs um að breyta reglum um samskipti trúfélaga við menntastofnanir endurspeglar einmitt þau ákvæði sem varða trúarbrögð í þessum alþjóðasáttmálum. Þarna er verið að gæta réttinda barna í umhverfi sem þau eru lögum samkvæmt skyldug til að vera í.

Þessar reglur koma engan veginn í veg fyrir það að börn læri um kristna menningu hér á landi enda er það mikilvægur hluti af kennslu um trúarbrögð. En það á að eiga sér stað á faglegum grunni með tilliti til aðalnámskrár en ekki á forsendum trúarlegrar innrætingar. Þegar kemur að trú verða menntastofnanir að vera hlutlausar. Það er kannski erfitt að tryggja algjört hlutleysi, skólarnir eru alltaf hluti af samfélaginu og straumum þess og stefnum, en það þýðir ekki að við eigum ekki að reyna það eftir fremsta megni. Trú er mörgum mjög persónuleg og því mjög óréttlátt að foreldrar lendi í þeirri stöðu að þurfa að gefa upp trú sína svo að sumir geti komið börnunum sínum í kirkju. Mér hafa persónulega borist nokkrar kvartanir frá foreldrum út af þessu. Betra væri að þeir foreldrar sem vilja að börn sín fari í kirkju geri það á sínum eigin frítíma en ekki á tíma þar sem þarf að taka tillit til trúfrelsis og mannréttinda. Þannig er það gert í langflestum þjóðum í Evrópu og það er kominn tími til að Ísland stigi þetta mikilvæga skref inn í 21. öldina. Sem betur fer hafa flestir skólar hér í Reykjavík tekið þá skynsamlegu ákvörðun að virða ákvörðun mannréttindaráðs en það er greinilega ennþá verk að vinna þegar kemur að því að innleiða reglurnar. Við skulum vona að um næstu jól verði sú þróun og umræðan komin á aðeins betra stig. Þetta á ekki að vera svona mikið mál.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,273