trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 10/04/2014

Vangaveltur um hugtök

Maður á það gjarnan til að velta því fyrir sér hvaða merkingingu fólk leggur í mismunandi hugtök. Maður heyrir fólk gjarnan lýsa sér sem jafnréttissinna, femínista, anarkista, frjálshyggjumanni og endalaust mætti halda áfram. Mér finnst mjög erfitt að nota þessi hugtök til þess að lýsa sjálfum mér enda fer það algjörlega eftir því hvern maður er að tala við hvaða merkingu viðkomandi leggur í þessi hugtök.

Ég tel mig vera jafnréttissinna enda styð ég jafnrétti allra hvort sem þú ert karl, kona, svartur, hvítur, samkynhneigður, gagnkynhneigður eða gulur, rauður, grænn og blár. Það kom nú einn grænn maður til landsins fyrir ekki svo löngu síðan. Hann er kallaður eðlumaðurinn eða Lizzardman og á skilið jafnrétti þó hann kunni að virka furðulegur fyrir sumum. Gallinn hins vegar við að nota orðið jafnréttissinni er að sumir nota það hugtak til þess að aðskilja sig frá femínistum og sumir þeirra eru ósmekklegar karlrembur.

Ég tel mig vera femínista en ég er rosalega varkár að nota það hugtak enda eru til óteljandi margar stefnur innan femínisma. Rétt eins og femínistar vilja ekki láta dæma sig út frá skoðunum allra femínista vijla þeir sem kjósa að kalla sig jafnréttissina ekki láta dæma sig út frá sömu forsendum. Ef femínisti er sá sem telur að jafnrétti kynjanna sé ekki náð þá er ég vissulega femínisti. Ef femínisti er sá sem vill koma á netsíu til að stöðva dreifingu kláms eða sá sem vill segja konum hvað þær mega gera við eiginn líkama þá er ég alls enginn femínisti. Ýmsu er ábótavant þegar kemur að réttindum beggja kynja og stundum finnst ungum karlmönnum vanta smá umræðu um hverju er ábótavant þegar kemur að jafnrétti karla. Þeir lesa umræðu femínista á netinu og sjá kannski sumar mjög öfgafullar umræður og setja þann breiða skala sem femínismi er undir sama hatt.

Ef femínismi á að snúast um jafnrétti kynjanna ætti umræðan að snúast jafnt um hverju er ábótavant hjá báðum kynjum. Þar sem ég er karlmaður þá langar mig að koma inn á hvað mér finnst vanta þegar kemur að jafnrétti fyrir karla. Áður en ég hóf nám við Háskóla Íslands starfaði ég sem leiðbeinandi á leikskóla. Þetta er vinnustaður þar sem yfirgnæfandi meirihluti starfsmanna eru konur. Þetta er æðislegt starf en ég er einnig mjög meðvitaður og áhyggjufullur af stöðu starfsbræðra minna á leikskólum í Danmörku. Þar eru karlkyns starfsmönnum settar ýmsar ósanngjarnar takmarkanir sem er ætlað að koma í veg fyrir misnotkun á börnum.  Ég vona að ég þurfi aldrei að hugsa mig tvisvar um hvort ég sé að gera eitthvað rangt þegar ég faðma eða hugga litlu vini mína í vinnunni. Ég hef líka miklar áhyggjur af brotfalli drengja úr námi eftir grunnskóla. Ég er ekki fyrir kynjahlutföll í skólum frekar en annars staðar en það mætti nú prófa að láta eitthvað af náminu höfða meira til drengja. Tíðni brottfalls hjá drengjum úr námi er orðið algjörlega óásættanlegt. Það mætti í raun segja að það eigi sér stað kerfisbundin mismunun á drengjum innan menntunarkerfisins enda hefur Ísland hlotið þann leiðinlega titil sem sú þjóð sem skrifar út flesta lyfseðla fyrir lyfjum gegn athyglisbrest og ofvirkni miðað við höfuðtölu í heiminum í dag. Drengir eru í yfirgnæfandi meirihluta af þeim sem greinast með athyglisbrest og ofvirkni og það er ekkert sem bendir til þess að þessir kvillar séu algengari hér en annars staðar.

Ég pirra mig stundum yfir einföldum spurningum frá fólki og fjölmiðlum í dag eins og t.d.: ertu femínisti já eða nei? Mitt svar er að þetta er allt of einföld spurning. Femínisti er einfaldlega ekki nóg til að útskýra flókið fyrirbæri eins og jafnrétti kynjanna. Ég væri til í að vera spurður aðeins oftar: hvaða merkingu leggur þú í orðið femínisti?

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,283