trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 04/04/2014

Umsögn um þingsályktunartillögur

GPM_0415

 

Við Katla sendum áðan þessa umsögn um mál málanna til utanríkismálanefndar og vonum að þar sé fólk sem hlustar:

 

 

 

 

Umsögn um 340. mál, 344. mál og 352. mál.

Tillaga til þingsályktunar

um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki.

og

um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

og

um formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar.

Góð samskipti Íslands við umheiminn og við erlend ríki hafa sjaldan eða aldrei verið jafnmikilvæg og nú. Eftir efnhagshrunið sem varð haustið 2008 hefur mikilvægi samstarfs við aðrar þjóðir, möguleikana á því að koma íslenskum vörum á markað, og viðskipti almennt við umheiminn sjaldan verið þýðingarmeira.

Mikilvægust eru samskiptin við Norðurlandaþjóðirnar og önnur ríki Evrópu. Nú hafa 28 þjóðríki sammælst um að vinna saman í Evrópusambandinu. Það er ekki að ástæðulausu því allar sjá þjóðirnar sér mikinn hag í aðild að Evrópusambandinu, því það styrkir allar þjóðirnar að vinna saman og eykur hag meira en 500 milljóna íbúa ríkjanna.

Aðild er því augljóslega utanríkismál sem Ísland verður að skoða og velta fyrir sér í þaula við núverandi aðstæður. Við búum við gjaldeyrishöft sem ekki verður séð hvernig leyst verða öðruvísi en með mikilli áhættu fyrir gengi krónunnar. Hún gæti við afnám hafta hrunið um tugi prósenta. Skýrsla Seðlabankans um gjaldmiðilsmál, „Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum“ frá september 2012 er meira en tvíþverhandarþykk en niðurstaðan eigi að síður einföld. Það eru tveir kostir í stöðunni, að halda krónunni eða taka upp evru með aðild að Evrópusambandinu.

Með samþykkt umræddrar þingsályktunartillögu og sliti á viðræðum við Evrópusambandið væri lokað á annan möguleikann. Þann möguleika sem þó felur í sér betri leið til að komast út úr gjaldeyrishöftunum án mikils skaða fyrir íslenskan almenning og þann möguleika sem auk þess myndi bæta hag allra á landinu með lægri vöxtum, lægra vöruverði, stærri markaði fyrir íslenskar vörur, auknum möguleikum íslenskra námsmanna svo fátt eitt sé nefnt.

Viðskipti Íslendinga og samskipti almennt eru fyrst og fremst við þjóðir Evrópu, það er þangað sem við leitum með vörur á markað og það er þangað sem við leitum fyrir okkur með innflutning. Langstærsti hluti viðskipta okkar er við Evrópu og mun verða áfram. Það er hinn augljósi raunveruleiki sem utanríkisstefna hverrar þjóðar verður að taka mið af hverju sinni. Og ástæðulaust að taka áhættu með stærsta markaðssvæðið.

Það er ekkert á þessum tímapunkti sem kallar á viðræðuslit. Það er enginn ávinningur fyrir nokkurn mann að slíta viðræðunum. Í fyrsta lagi er sú staða uppi að aðildarviðræður ríkja við Evrópusambandið hafa legið niðri um lengri eða skemmri tíma án vandkvæða. Í öðru lagi er þetta mál þannig vaxið að það á ekki að loka á framtíðarmöguleika þjóðarinnar með því að slíta viðræðum.

Eðlilegast væri þó að kosið yrði um áframhald viðræðna núna líkt og hugur 82 prósenta Íslendinga stendur til samkvæmt könnunum. Forseta lýðveldisins hefur á undanförnum árum verið tíðrætt um gjá milli þjóðar og þings. Hvort sú gjá sé til staðar ræðst af þessu þingmáli. Vilji þjóðarinnar, 82 prósenta hennar, er skýr. Þá hafa ríflega 53 þúsund manns eða 22 prósent kosningabærra manna skrifað undir áskorun um að það verði kosið um málið. Það er álíka fjöldi og mestur hefur orðið í slíkum undirskrifasöfnunum sem síðan hafa leitt til þjóðaratkvæðnagreiðslna. Það er þá einungis spurningin um þingviljann.

Lýðræði felst ekki eingöngu í því að kjósa á fjögurra ára fresti. Það verður líka að vera lýðræði á milli kosninga, sterkar lýðræðisstofnanir, sterk lýðræðishefð, öflugir fjölmiðlar sem tryggja lýðræðislega umræðu, dómstólar sem dæma að lögum o.s.frv. eru jafnnauðsynleg lýðræðinu og kosningar. Sama á við um aðkomu almennings að umræðu og ákvarðanatöku í lýðræðisríki, almenning á ekki að hunsa, það er ólýðræðislegt.

Þingið getur á þessum tímapunkti hlýtt þjóðarviljanum og lagt þessa þings­ályktunar­tillögu til hliðar og ákveðið í staðinn að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið. Nú eða ef vill; lokið viðræðum við Evrópusambandið um aðildarsamning. Í hverri könnuninni á fætur annarri er meirihluti fyrir þeirri leið, þótt það segi ekki til um hug almennings til aðildar og samningsins þegar hann lægi á borðinu.

Reynsla síðstu ára og þau gríðarlegu áföll sem riðið hafa yfir íslenskt efnahagslíf, hag fyrirtækja og almennings, ætti að sýna okkur fram á að það er beinlínis hættulegt að loka á möguleika þjóðarinnar. Slit á viðræðum þýðir einangrun þjóðarinnar, býður hættunni heim varðandi framtíð EES-samningsins, torveldar viðskipti og gerir fyrir­tækjum erfiðara fyrir að sækja á evópskan markað. Reynslan segir okkur að skoða möguleikana sem felast í aðild með því að ljúka aðildarsamningi, þegar samningur liggur á borðinu ákveður þjóðin framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við skorum því á Alþingi að leggja til hliðar tillögu utanríkisráðherra og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin vilji ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Signerað: G. Pétur Matthíasson og Katla Lárusdóttir

Flokkun : Pistlar
1,506