trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 29/10/2017

Sigurvegarar kosninganna – eða ekki!

Úrslit kosninganna. Fengið af vef Ríkisútvarpsins.

Það er skiljanlegt að stjórnmálamenn leitist eftir því að horfa á það sem jákvætt kemur upp úr kjörkössunum fyrir þá. Flestir finna þá eitthvað. Sumir vinna kosningarnar, aðrir vinna skoðanakannanir, enn aðrir vinna næsta stjórnmálaflokk, eða bara vinna talninguna – bæta við sig þegar á líður o.s.frv. Flestir segja eftir fyrstu tölur að nóttin sé ung og þeir hafi tilfinningu fyrir því að þeir eigi meira inni. Þetta er nú auðvitað bara mannlegt – að bera sig vel hvað sem á dynur.

Margar kosningar var það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn var alltaf að tapa skoðanakönnunum en nú síðustu ár hefur flokkurinn unnið skoðanakannanirnar og þannig gat formaður flokksins talað um sigur þótt hann hefði tapað nærri fjórum prósentum og heilum fimm mönnum. Fjórðungi þingmanna sinna. Og fengið næst slökustu kosningu í sögu flokksins. Stundum væri það tap en ekki sigur.

Ótvírætt er Flokkur fólksins sigurvegari, því flokkurinn vann bæði kosningarnar og skoðanakannanirnar. Það er þó nokkuð. Er óskrifað blað í pólitík. En með hjartað á réttum stað? Stundum a.m.k.

Miðflokkurinn og sérstaklega formaður hans er sigurvegari líka. Og sólginn í met, jafnaði met Borgarflokksins um stærstu innkomu nýs flokks. Og sló metið náttúrulega miðað við stuttan líftíma sinn. Þótt ég muni nú ekki alveg hvað Borgaraflokkurinn var gamall þegar kosið var, en örugglega var hann eitthvað eldri en Miðflokkurinn. Ég held hinsvegar að formaðurinn eigi met sem ekki verði slegið á næstunni, ef nokkurn tíma. Því daginn eftir að hann var spurður um það í Kastljósi, með sænskum hreim, hvað hann gæti sagt um „a company called Wintris?“ kom alger metfjöldi mótmælenda á Austurvöll, líklega a.m.k. 22-24.000 manns. Sem er ótrúleg tala, satt best að segja. En það er gott að geta safnað metum. Sé maður þannig þenkjandi.

Vinstri-græn og Samfylkingin töpuðu skoðanakönnunum þótt báðir flokkar hafi bætt við sig frá síðustu kosningum. En tölurnar voru bara svo miklu lægri en spárnar sögðu til um. Og tölur Samfylkingarnar auðvitað langt frá því sem var þegar Össur fékk ekki bara heil 31% atkvæða heldur líka bágt fyrir að það væri ekki meira. Sumir eru nefnilega alltaf að tapa, hversu mikið sem leynist í kjörkössunum. Viðreisn er svo með varnarsigur, enda unnu þau skoðanakannanirnar. Og héldu sér inni öfugt við Bjarta framtíð, sem hreinlega tapaði öllu. Píratar töpuðu fylgi en unnu því þeir komu mönnum að í þremur kosningunum í röð, sem á Íslandi er sigur. Stórsigur þess vegna.

Albaníu-Valdi vann svo krakkakosningarnar.

Menntakerfið finnst mér hinsvegar hafa tapað, sem og kvenþjóðin, en það er efni í annan pistil.

Og hvað þá, hvað á að gera með alla þessa sigurvegara?

Karlarnir (þótt erfitt sé aldurs vegna að kalla formann Miðflokksins karl) heimta umboðið til sín og það ekki seinna en strax. Svolítið einsog og að heimta lyklana að Stjórnarráðinu til baka. Frekt, já.

Því hvað sem sigurvegurum líður þá kolféll ríkisstjórnin með látum. Tapaði heilum tólf þingmönnum og 13,5 prósentum af fylgi. Það var ekki óvænt enda óvinsælasta ríkisstjórn Íslandssögunnar þótt ung væri. Ætti þá einhver þeirra flokka að fá umboðið? Auðvitað ekki. Þjóðin var að hafna þeirri ríkisstjórn og allir töpuðu flokkarnir stórt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðan verið í þremur ríkisstjórnum núna sem hafa sprungið á limminu. Og sú síðasta entist ekki út árið. Það er líka met held ég.

Miðflokkurinn gæti gert kröfu um að reyna að mynda ríkisstjórn. Er það raunhæft? Held ekki. Það er nýbúið að reka formanninn úr embætti forsætisráðherra, með Íslandsmeti í fjölda mótmælenda á Austurvelli.

Nei, ég held að það sé augljóst að stærsti flokkurinn sem vann á í gær eigi að fá umboðið fyrstur. Hvort það leiðir til niðurstöðu í fyrstu atrennu er undir mörgu komið.

Og verður spennandi að sjá hvernig það gengur fyrir sig.

En í næstu kosningum getum þá fjallað um það afhverju tvær ríkisstjórnir hafa hrökklast frá á einu ári? Og getum við þá kannski gert eitthvað í því? Við þurfum að draga úr spillingunni, fyrsta skref er að viðurkenna hana og horfast í augu við vandann.

PS. Svo er mjög ánægjulegt að sjá aukna kjörsókn. Betra að hafa hana a.m.k. yfir 80 prósentum en undir.

Flokkun : Pistlar
1,753