trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 25/05/2014

Umræðan um moskuna er á villigötum

Mikið hefur verið rætt um fyrirhugaða byggingu mosku í Reykjavík undanfarið og þar sem ég hef mjög sterkar skoðanir um trúmál tel ég það sjálfsagt að ég dembi mér aðeins í þetta tiltekna málefni. Sumir myndu kalla mig trúlausan en það er einfaldlega ekki nógu góð lýsing á minni persónulegu afstöðu til trúmála, kannski er besta lýsingin sem ég hef rekist á hingað til enska hugtakið anti-theist. Þrátt fyrir það að ég hafi ekki fundið hjá mér þörf fyrir því að trúa á æðri mátt síðan ég var unglingur þá tel ég það mjög mikilvægt að fólk hafi rétt til þess að hafa sínar eigin skoðanir um trúmál rétt eins og ég. Aftur á móti hefur sagan sýnt að þegar trúfélög blanda sér í málefni hins opinbera, hefur það oftar en ekki mjög neikvæðar afleiðingar.

Þegar kemur að trúmálum hér á landi, höfum við Íslendingar verið á villigötum í langan tíma. Hér er þjóðkirkja, en Ísland er ein af fáum evrópuþjóðum sem er ennþá með slíkt fyrirkomulag. Þetta stangast hressilega á við þau sjálfsögðu mannréttindi sem kallast trúfrelsi. Þar af leiðandi er Reykjavíkurborg skyldug til þess að úthluta öllum trúfélögum lóðum fyrir byggingar sínar en ekki bara þjóðkirkjunni. Það hefur verið mjög einkennilegt að fylgjast með umræðunni um moskuna í ljósi þessara staðreynda. Umræðan hefur verið sérstaklega furðuleg í ljósi þess að rússneska rétttrúnaðarkirkjan fékk líka lóð úthlutaðri og ekki hefur heyrst í mörgum röddum sem kvarta yfir því.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá virðist aðalgagnrýnin koma frá fólki sem er meðlimir í íslensku þjóðkirkjunni og öðrum kristnum söfnuðum. Mér finnst mjög furðulegt að sumum þeirra finnist allt í lagi að múslimar hafi lítið félagsheimili sem mér skilst að rúmi ekki lengur allt fólkið sem mætir til bæna. Þetta er fólk sem talar um umburðalyndi og náungakærleik en á sama tíma vill það ekki virða rétt fólks til þess að stunda sína eigin trú í almennilegu húsnæði. Það er vissulega rétt að borgin ætti ekki að deila út ókeypis lóðum handa trúfélögum en þá ætti það líka að eiga við öll önnur trúfélög, þar á meðal þjóðkirkjuna. Hins vegar er staðan sú að við erum bæði með þjóðkirkju og trúfrelsi, sem þýðir að við getum ekki boðið einungis þjóðkirkjunni upp á ókeypis lóðir undir sína starfsemi og útilokað önnur trúfélög. Það væri hrein og bein mismunun og myndi beinlínis fara gegn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Ef við eigum að hætta að niðurgreiða lóðir fyrir trúfélög þá þurfum við sem þjóð að fara að íhuga alvarlega að taka fyrstu skrefin í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Einungis þannig gætum við sloppið við að niðurgreiða lóðir fyrir trúfélög og stuðlað á sama tíma að raunverulegu trúfrelsi þar sem öll trúfélög eru í raun og veru jöfn í augum laganna.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,228