trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 19/05/2014

Um óskiljanleikann og stríðsdansinn

10365874_303198593176530_2683390938764430788_nÞað er erfitt að átta sig á því á hvaða vegferð stjórnvöld dagsins eru. Seðlabankinn segir að skuldaniðurfærslan geti leitt til þess að viðskiptajöfnuður á næstu fjórum árum verði allt að 125 milljörðum króna lakari en ella.

Á næstu fjórum árum þurfum við að útvega eina 600 milljarða króna í gjaldeyri til að borga af lánum, eitthvað er til en samt ljóst að núverandi viðskiptajöfnuður dugir alls ekki til að brúa bilið, hvað þá ef hann versnar um 125 milljarða króna.

Samt er hætt við því líka að verðbólga aukist og að skuldaniðurfærslan þá bara hverfi; og við þessi sauðsvarti almúgi stöndum þá í sömu sporum og áður. Nema náttúrulega þeir sem enga niðurfærslu fá, þeirra lán verða þá bara hærri — skref aftur á bak

Og sveitarfélögin tapa einhverjum milljörðum líka, tugum milljarða og Íbúðalánasjóður líka, en við ábyrgjumst hann jú.

Það er erfitt að skilja lógíkina í þessu.

Sem skattgreiðendur verðum við líka að borga þessa 80 milljarða, í hærri sköttum, eða í lakari þjónustu hins opinbera. Því ef það verður hægt að ná í þessar tekjur frá þrotabúum gömlu bankanna þá er augljóst að nota mætti féð á skynsaman hátt, lækka skuldir, byggja nýjan spítala, það er af nógu að taka. Framtíðar Íslendingar borga svo 70 milljarðana eða þann hluta þeirra sem ella hefðu verið skatttekjur framtíðarinnar af séreignarsparnaðinum

Það er heldur ekki gott að skilja það.

Þetta leggja menn höfðuáherslu á þessi dægrin en lítið virðist eiga sér stað varðandi afnám gjaldeyrishafta. Sem tengist auðvitað því að menn vilja ekki horfast í augu við veruleikann. Þann veruleika að gjaldeyrishöft verða ekki afnumin samhliða því að halda í krónuna.

Þetta er samt stærsta málin og snýr að framtíðinni, snýr að því hvort hér verði nokkurn veginn sómasamlegt samfélag þar sem eðlileg viðskipti geta átt sér stað. Hin leiðin stefnir hraðbyri á innflutningshöft, klíkuskap og spillingu. Kannski vilja menn fara þá leið?

Hvað veit maður?

Það eitt að menn stinga bara hausnum í sandinn og líta ekki upp nema til að dansa stríðsdans – sem enginn skilur.

Flokkun : Pistlar
1,308