trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 26/03/2014

Strákar eru töff

Sjálfur fluttist ég að heiman 16 ára gamall og hef séð um mig sjálfur að mestu síðan þá. Bjó svo sem ekki alltaf við besta mögulegan kost fyrir tvítugt en maður bjargaði sér og lifði á sumarhýrunni sem þá var alveg hægt. Með reyndar mikilli sparsemi og dreifbýlisstyrknum sem við menntskælingar utan af landi fengum. Hann var ekkert hár en brúaði bil sumarkaups og blankheita.

Þannig að þegar ég og bróðir minn fluttumst saman og leigðum öðrum strákum með okkur þá höfðum við gott skipulag á eldamennsku og þrifum. Vorum búnir að vera í þessu sjálfir í nokkurn tíma. Allt í föstum skorðum þar og við strákarnir áttum alveg okkar spretti þótt kannski margt hafi verið ólært, annað en það sem okkur var kennt í gaggó þegar farið var yfir ritið „Unga stúlkan og eldhússtörfin“. Sem „Unga fólkið og eldhússtörfin“ hét í mínu ungdæmi.

Ég hélt á þessum tíma að heimilshald og hlutverk kynjanna væri nú bara á réttri leið og bara á einni leið.

Ég varð þess vegna hissa löngu seinna þegar ég kynntist körlum eða strákum sem voru mörgum árum yngri en ég en kunnu engin heimilisverk, eða fá, og sinntu þeim nánast ekki. Ég hafði einhvern veginn haldið að allir sem væru yngri en ég væru lengra komnir á þessari eðlilegu jafnréttisbraut heimilisverka.

En það var bara ekki þannig og ég held að því miður séum við ekki komin alltof langt frá því sem var þegar við bræður fluttum saman án „fullorðinna“ árið 1982.

Þess vegna gladdist ég mjög í Nóatúni áðan þegar ég var að kaupa í matinn, til að elda handa mínum yngsta og sjálfum mér. Verð samt að játa á mig lélegt uppeldi í heimilisverkum, því miður. Hef enga afsökun aðra en þá að sjálfur lærði ég af sjálfum mér (man reyndar að í eitt sinn hringdi ég í mömmu til að forvitnast um hvernig maður gerði uppstúf, ég kunni ekki að gera uppbakaða sósu) og þess vegna bara gefið mér að eins yrði um mína stráka.

Sem sé ég var í Nóatúni.

Ég var í gamaldags matar þankagangi, sá súpukjöt í kistunni og langaði þá í smásteik. En svoleiðis er ekki hægt að fá í íslenskum kjötborðum lengur, ég hef stundum náð í járnsögina og sagað mína eigin smásteik. En nú ákvað ég að láta reyna á það hvort strákarnir í kjötborðinu gætu bara ekki sagað súpukjötið í smásteik. Og jú jú, það gátu þeir og gerðu svikalaust.

En á meðan ég beið kom að ungur maður, kannski 19 eða 20 ára. Hann var að kaupa dágóðan slatta af nautakjöti og fékk það skorið í sneiðar. Spurði svo piltinn, sem var á svipuðu aldri, hinu megin við kjötborðið, hvort hann ætti nú ekki að steikja nautasteikurnar og setja þær svo inn í ofn. Spurði óhræddur og eðlilega út í það og drengurinn hinu megin var líka með þetta allt á hreinu. Þarna fór fram heilmikil miðlun þekkingar. Kaupandinn spurði líka út í hnetur sem hann ætlaði að hafa í salatinu og hvernig best væri að fara með þær, ætti ekki að steikja þær og svoleiðis. Og jú jú, hinn vissi það líka, hvernig ætti að þurrsteikja og allt það.

Þá ræddu þeir líka bearnaise-sósuna sem piltur hafði keypt tilbúna. Ég sat á mér að segja að það væri náttúrulega lang best að útbúa bearnaise sósu frá grunni, og að þegar maður hefði einu sinni gert það væri hreinlega ekki aftur snúið.

Í fyrsta lagi þá var þetta örugglega nóg að læra inn á að steikja nautakjötið á réttan hátt og að útbúa salat svo maður færi nú ekki að gera bearnaise frá grunni. Hitt er svo að síðast þegar ég reyndi að gera bearnaise frá grunni þá skildi hún sig sósan, æi já. Mér hefur þó tekist það einu sinni en þarf augljóslega að æfa mig töluvert. Og þess vegna ekkert rétti maðurinn til að fara að monta sig af bearnaise-sósugerð frá grunni.

Mikið var hún miklu betri þessi sem tókst en eitthvað tilbúið. En það er önnur saga.

Hvað um það, mér fannst þessir strákar töff, mér fannst þeir flottir, hvernig það var í fyrsta lagi alveg eðlilegt að þeir væru að elda flókin mat, heldur í öðru lagi líka að það var þeim alveg eðlilegt að tala um það og fræðast. Ófeimnir við það. Hattinn ofan.

Svo er bara að vona að maður verði vitni að samsskonar samtali í Húsasmiðjunni í skúringafötudeildinni.

Flokkun : Pistlar
1,317