trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 27/05/2014

Stjórnmálamenn að vinna saman…svona einu sinni

Nú er kosningabarátta til sveitarstjórnarkosninga komin á fullt skrið og hafa þegar hafist neikvæðar árásir á persónur innan flokka og ákveðin stefnumál. Þetta er þróun sem ég hef tekið eftir að verður sífellt verri og grimmari með hverju árinu sem líður. Nú er ég sjálfur engan veginn saklaus þegar kemur að þessum málum og get gagnrýnt aðra flokka fram að ragnarökum. Mér hefur hins vegar þótt áhugaverðara að skoða hvað mismunandi flokkar eiga sameiginlegt og þegar maður skoðar það nánar er alveg hellingur af málefnum sem við getum verið sammála um. Samt endar það þannig í hverri einustu kosningabaráttu að það er eins og allir gleymi því sem þeir geta verið sammála um og einbeiti sér frekar að því hvernig þeir geta ráðist á andstæðinginn.

Ég sjálfur var kominn með upp í kok af þeirri stjórnmálahefð sem hefur myndast hér á Íslandi og sagði meira að segja lengi vel að ég myndi aldrei nokkurn tímann bjóða mig fram í embætti. Núna hef ég hins vegar tekið þátt í bæði Alþingiskosningum og sveitarstjórnarkosningum. Enginn hörgull hefur verið á persónulegum árásum eða árásum á ákveðin stefnumál Pírata. Sveitarstjórnarkosningarnar 2010 gáfu mér hins vegar smá von um að hægt væri að snúa þessari þróun við. Allt í einu birtist flokkur sem virtist hvorki stunda persónulegar né málefnalegar árasir. Hér á ég að sjálfsögðu við Besta flokkinn. Það er hefð sem ég tel að allir stjórnmálaflokkar ættu að tileinka sér.

Eins og staðan er nú ber almenningur mjög lítið traust til stjórnmálamanna og hefur góða ástæðu til. Persónuárásir og skotgrafapólítik skiptir orðið meira máli en að koma landinu í betri farveg. Ég hef því tileinkað mér það að reyna að skoða hvaða áherslur hinna ýmsu flokka eru sameiginlegar með Pírötum. Þegar maður skoðar það nokkuð vel þá áttar maður sig á því, að þær eru þó nokkrar. Ég vil mun frekar einbeita mér að því hvar ég get fundið sameiginlegan grundvöll til samstarfs við aðra flokka en að ráðast gegn því sem ég er ósammála.

Nú hef ég starfað töluvert innan Ungra Pírata og komist að því, eftir spjall við fólk innan hinna ungliðahreyfinganna, að við eigum ýmislegt sameiginlegt. Við erum vissulega ósammála um ákveðin áhersluatriði en ég er farinn að hallast að því að þau séu smávægilegri en fólk vill viðurkenna. Píratar hafa með því að vera opnir fyrir að vinna með hverjum sem er að sameiginlegum áherslumálum byrjað að brúa bilið milli hægri og vinstri. Við höfum sýnt það með gjörðum okkar að við stundum einfaldlega ekki skotgrafastjórnmál og einbeitum okkur frekar að því að koma málefnum okkar á framfæri. Væri ekki fínt að sjá stjórnmálamenn vinna almennilega saman svona einu sinni, að finna sameiginlegan grundvöll óháð því hvaða flokki þeir tilheyra og virkilega vinna almennilega saman?

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,219