trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 03/07/2015

Skerum niður niðurskurðarstefnuna

Austerity-is-failing-no-to-austerityHvernig má það vera að menn ríghalda í stefnur sem eru ekki bara úr sér gengnar heldur hafa aldrei fært okkur nokkuð fram á veg? Hversvegna erum við ekki búin að koma okkur saman um að frjálshyggjan er gersamlega ónothæf? Það var á sínum tíma býsna auðvelt fyrir þau Thatcher og Reagan að búa til skrýmsli úr ríkinu og gera það að óvininum. En hvernig má það vera? Ríkið, hvað er það? Ríkið er samfélagið, ríkið er samkomulag okkar þegnanna um verkefni sem við vinnum saman fyrir alla, fyrir allra hag.

Það þarf varla að nefna það, því það er í fréttum daglega að ójöfnuður í heiminum eykst og eykst. Ríkasta eina prósentið verður alltaf ríkara og ríkara. Líka á Íslandi. Nú eiga 10 prósentin ríkustu 70 prósent af öllu. Og ójöfnuðurinn heldur áfram. Sköttum er breytt sem nýtast þeim ríkustu best, auðlindum allrar þjóðarinnar er sóað beint í veski örfárra. Öryrkjar og lífeyrisþegar fá ekki sömu hækkanir á sínum litla en lífsnauðsynlega lífeyri, hjúkkur fá ekki laun sem heldur þeim í landinu og á það við um margar stéttir. Og hvað gerist þegar þær og þeir líka verða farnir? Ríkið er mikilvægast til að jafna kjör þegnanna og tryggja öllum gott líf, heilbrigði, menntun og jafna möguleika. Sem er auðvitað allra hagkvæmast fyrir okkur öll þegar til lengri tíma er litið. Að enginn líði skort og að allir nái að nýta hæfileika sína hverjir sem þeir eru.

Frjálshyggjunni er sama um það. Það á að skera niður í ríkinu, það á að lækka skatta, það er mantran.

Vissulega er heilbrigt að skila ríkissjóði með afgangi, og það er til lengri tíma litið alveg nauðsynlegt. En mantran eilífa um skattalækkanir þýðir líka eilífan niðurskurð í ríkisrekstrinum, sem er þó ekki annað en rekstur á samfélagi okkar Íslendinga, reksturinn á velferðinni, skólunum, sjúkrahúsunum, vegakerfinu, eftirlitinu með atvinnulífinu sem er nú ekki vanþörf á – þarf nokkuð að nefna bankana – og allt annað sem við gerum saman.

Grikkland er gott dæmi, nú er meira að segja Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn búinn að sjá ljósið, niðurskurðinn er ekkert að virka, hann gerir bara illt verra. Evrópusambandið tregðast enn við með Þýskaland í þeim fronti. Samband sem þó ætti að vita betur um samheldni og nauðsyn velferðar allra, ekki bara fjármagnsins.

En við hér á klakanum erum í sömu sporum í raun. Það er skiljanlegt að menn þurftu að skera niður eftir að einkageirinn var næstum búinn að leggja hér allt í rúst. En skattar voru líka hækkaðir, það var ekki bara niðurskurður. En nú er verið að lækka skattana, sérstaklega fyrir auðmenn, og það á að halda áfram í eilífum niðurskurði.

Hverju skilar það?

Menn nefna jú afgang á fjárlögum svo nýta megi hann til að lækka skuldir. Gott og vel. En hvað þýðir niðurskurður, t.d. í viðhaldi vega? Af því að ég þekki þar til. Jú það þýðir að vegakerfið ekki bara veikist og verður lélegra heldur er hættan að langir kaflar hreinlega hrynji, því það kemur að skuldadögunum. Þegar fram líða stundir munum við þurfa að fara í stórátak til að bjarga viðhaldsskortinum. Er það ekki það sama og halli á fjárlögum? Er það ekki það sama og senda reikninginn til framtíðarinnar? Rétt er þó að benda á að núverandi stjórnvöld hafa á þessu ágætan skilning, og þau hafa aukið framlög til viðhalds, en bara ekki þannig að þörfinni sé mætt. Því fyrsta hugsun er alltaf niðurskurður hjá ríkinu, sjaldan er fyrsta hugsunin uppbyggingin. Nema ef væri álver. En það er annað mál sem ekki verður farið út í hér og nú.

Vinur minn í Skotlandi sagði sögu af því að nokkrum sinnum hefði hann þurft að fara með bílinn á verkstæði út af skemmdum og álagi af völdum lélegs viðhalds vegakerfisins. Hann sagði að menn væru nú að finna fyrir niðurskurði Thatchers fyrir áratugum síðan. Það var auðvelt fyrir hana að láta hlutina líta vel út þarna upp úr 1980 með því að skera niður viðhaldið á vegunum, skera niður ríkið. Af því að afleiðingar eru að koma í ljós núna, aldarfjórðungi síðar. Það er þannig sem þetta virkar.

Nei við verðum að komast út úr þessu. Við verðum að leggja skattana okkar af mörkum til að skapa betra samfélag fyrir okkur öll. Og auðvitað eiga þeir sem mest bera úr býtum að borga hæstu skattana. Þeir eru aflögufærastir.

Hvað græðum við á því að brauðristar lækki í verði? Hvað græðum við á því ef við þurfum svo að vera á biðlista mánuðum og jafnvel árum saman eftir nauðsynlegri læknisþjónustu? Viljum við frekar geta fengið okkur nýja brauðrist á tveggja ára fresti en að geta gengið að alvöru heilbrigðisþjónustu?

Það er komið nógu, fleygjum þessari frjálshyggju og niðurskurðarstefnu á haugana, þar sem hún hefur alltaf átt heima.

 

PS. Myndin er héðan.

Flokkun : Pistlar
1,300