trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 05/07/2014

Samsæri

Sjaldan þykja samsæriskenningar áreiðanlegar. Þær eru oftast taldar ómerkilegar.

Hér skal eigi að síður sagt frá tveimur slíkum sem nú fljúga fjaðralaust á milli manna. Önnur á augljóslega fullan rétt á sér. Það er samsæri Morgunblaðsins gegn Má seðlabakastjóra. Í marga mánuði hefur blaðið birt sömu frétt af og til. Hún er af fimm ára gamalli málshöfðun Más gegn bankanum vegna launamála og greiðslu málskostnaðar sem af málaferlunum hlaust. Það má hiklaust halda því fram að málið hafi ekki aukið hróður Más. Hitt er þó ljóst að Már braut engin lög með gjörðum sínum. Eigi að síður er hamast á honum og hann gerður tortryggilegur sem bankastjóri. Samt mun Már vera einn faglegast Seðlabankastjóri sem gegnt hefur embættinu. Hins vegar getur hann verið hættulegur í valdastóli vegna aðgangs að upplýsingum sem hann kann að hafa um það sem þar var aðhafst af þeim sem þar ríktu á undan honum. Það eru þeir sem vilja hann burt. Og ekki vegna vanhæfni heldur vegna vitneskju hans um liðna tíð. Kenningin gengur sum sé út á það að fyrrverandi stjórnendur bankans séu að verja sjálfa sig og gerðir sínar í þar með því að sverta Má og koma honum úr embætti.

Hin samsæriskenningin er óræðari. Hún snýr að verslun. Aðalhlutverkið virðist vera í höndum alþjóðlegu verslunarkeðjunar Costco. Hún vill fá að setja upp útibú hérlendis. Þetta er ofurpakkningaverslun með félagsaðild og fá ekki aðrir að versla þar en þeir sem ganga í vinafélag búðarinnar. Forsvarmennirnir tala útlensku og hrífa ráðamenn með framburði sínum. Iðnaðar og nýsköpunarráðherrann er til í að umturna verslunarháttum í landinu í sólarhring eftir að hann hefur átt fund með búðarmönnunum. Síðan bráir af honum og efasemdirnar hrúgast upp. Svo eyðast þær væntanlega undir erlendum orðaklið á næsta fundi.

Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja, hvað alþjóðleg verslunarkeðja er að sækja hingað í fámennið þegar ljóst er að það er ekki viðskiptamannafjöldinn sem verið er að fiska eftir. Óhjákvæmilega vaknar sú spurning hvort það geti verið vegna þess að þeir vita manna best hversu gríðarlega há álagning er á vörur hér, jafnvel í svokölluðum lágvöruverslunum, þannig að það þurfi ekki að selja svo mikið til þess að græða til jafns við það sem gerist í stærri samfélögum. Það er kannski freistandi að trúa því, en ótrúlegt er það samt.

Hver er þá ástæðan? Af hverju eru þeir að biðja um stafsleyfi? Gæti verið að innlendu búðarmennirnir hafi verið að sækja sér liðsstyrk í baráttu sinni fyrir því að fá að selja áfengi, lyf og hrátt kjöt frá útlöndum í búðum sínum, en þetta er meðal frumskilyrða sem Castco setur fyrir því að opna útibú hér? Og ráðamenn vikna og kikna í hnjáliðunum; stóri góði útlendingurinn vill koma hingað, vill vera með okkur. Við viljum það, segir ráðherrann, en fyrst þurfum við að breyta verslunarlöggjöfinni, þá fáum við lægra vöruverð, meira og betra vöruúrval. Krafa útlendinganna, sem til stendur að ganga að í fögnuði, er sú sem innlendu búðarmönnunum hefur verið neitað um hingað til. Og svo undarlegt sem það er þá fagna þeir síst minna en ráðherrann; fagna samkeppninni sem í raun merkir þó minni verslun hjá þeim. Af hverju? Gæti verið að Castco hafi aldrei ætlað sér að opna útibú hér heldur aðeins að greiða veg kollega sinna?

Og eins og með aðrar góðar falskenningar verður skúrkurinn sá sem berst gegn því að hún verði að veruleika.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,483