trusted online casino malaysia
Jón Knútur Ásmundsson 16/09/2014

Point Arena

Nokkrum árum eftir að ég kom til Point Arena á vesturströnd Bandaríkjanna, rétt norðan við San Fransisco, gúggla ég staðinn. Eini frægi maðurinn sem tengist staðnum virðist vera Jim nokkur Hodder, sá sem trommaði með Steely Dan á fyrstu tveimur plötunum. Jim þessi hafði misst tökin á lífi sínu og endaði það í sundlaug í Point Arena sumarið 1990. Þetta er bæjarins claim to fame.

Pete nokkur Rose bjó í Point Arena. Hitti hann á bar við ströndina eitt kvöldið og ég spurði hann hvernig væri að búa í bæ sem ég fyndi ekki einu sinni á kortinu mínu. Hann yppti öxlum og svaraði mér ekki. Sagði mér frekar frá því að í skóginum fyrir ofan bæinn byggju hippar eða “draft dodgers” sem ekki hafði spurst til síðan á tímum Víet Nam stríðsins.

Hann pantaði bjór handa okkur. Veskið fullt af seðlum. Eitt andartak datt mér í hug að Kerouac hefði skrifað hann svo ferðalagið mitt um Bandaríkin yrði viðburðaríkara. Hann talaði hratt og eingöngu um sjálfan sig – spurði mig aldrei útí neitt jafnvel þótt ég væri Íslendingur sem flestum fannst “awesome”. Ég var feginn enda orðinn dauðleiður á svara spurningum um huldufólk, álfa, Björk og annað fólk sem ég hafði aldrei séð.

Pete var hollensk ættaður Portúgali. Hafði búið í Bandaríkjunum allt sitt líf. Sagðist hafa átt góða ævi fram þrítugu. Þá var hann handtekinn fyrir mannrán. Núna, tíu árum síðar, sat á hann á bar við höfnina í smábæ sem finnst ekki á korti ásamt vinkonu sinni Nabinu sem starfaði sem grasalæknir í litlum bæ nálægt Los Angeles.

“They found the guy who did it and let me out – gave me lots of money,“ sagði Pete Rose og skálaði við ferðamanninn.  „Never have to work again.”

“He’s telling the truth,” bætti Nabina við, horfði á mig og kinkaði kolli í sífellu. Grasalæknar eru eflaust vanir að bera kennsl á hina vantrúuðu. Ég sannfærðist enn frekar um að ég væri að drekka bjór með glæpamönnum.

“They’re writing a book about it,” sagði Pete. Ég kinkaði kolli, enn vantrúaðri. Við drukkum bjór í tvo tíma og spjölluðum. Come Away with Me með Noruh Jones í hljóðkerfinu og um það leyti sem Nabina sýndi mér hálsmen sem læknar flösu var mannræninginn sofnaður fram á barborðið.

Nokkrum árum síðar gúggla ég Pete Rose. Hann sagði satt. Hann sat saklaus í grjótinu fyrir glæp sem hann framdi ekki. Að vísu mannrán OG nauðgun. Vildi sennilega ekki hræða mig. Vesalings túristann.

Jón Knútur Ásmundsson
Latest posts by Jón Knútur Ásmundsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,349