trusted online casino malaysia
Jón Knútur Ásmundsson 05/02/2015

Heimsóknin

Leiðið hans pabba er rétt við kirkjugarðshliðið. Það komu ekki nema tveir staðir til greina og við Halldór, elsti bróðir minn, völdum þennan stað með mömmu. Yfir reitnum er ljósastaur sem lýsir leiðið upp í svartasta skammdeginu. Mömmu hugnast vel að það sé einhver birta yfir kallinum. Hún býr í húsi rétt hjá og þarf ekki nema að opna útidyrahurðina til að sjá til hans.

Umsjónarmaður garðsins segir okkur að gallinn við þennan stað sé sá að stundum sé traffík í garðinum og þá fái maður kannski ekki þann frið sem maður vill fá. Ég glotti þegar hann notar orðið traffík en kemst að því síðar að orðaval hans var ekki úr lausu lofti gripið. Það er gestkvæmt hjá látnum Norðfirðingum. Hjá sumum þeirra ef til vill meiri gestagangur en á meðan þeir lifðu.

Ég stend fyrir framan krossinn hans pabba. Hef ekki enn vanist því að hann liggi þarna undir grasinu. Hef reynt að tala við hann, jafnvel kynnt hann fyrir dóttur minni en þegar ég heyri sjálfan mig opna munninn og segja eitthvað hætti ég jafn óðum. Horfi í kringum mig og kanna hvort einhver hafi heyrt í mér. Líður eins og kjána.

Fyrst ég hef tíma ákveð ég að kíkja á nýjustu leiðin í garðinum. Heimsæki fólk sem mér datt ekki í hug að heimsækja í lifanda lífi. Merkilegt nokk gerðum við pabbi þetta stundum. Gengum á milli leiða og hann sagði frá fólkinu. Sumar sögurnar heyrði ég oftar en einu sinni og var farinn að þekkja þær vel. Kannski of vel því mér leið eins og samferðamanni fólks sem dó áður en ég fæddist.

Nokkrum reitum frá pabba liggur maður sem á sinn hátt var þekktur maður hér í bæ. Kannski goðsögn vilji maður grípa í stór en núorðið innantóm orð. Veiktist á geði sem ungur maður og sást ekki framar á götum bæjarins.

Breyttist í orðróm.

Latest posts by Jón Knútur Ásmundsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,261