trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 03/08/2014

Óvinurinn

Það er nöturleg staða í stjórnmálum þegar pólitíska umræðan snýst að stærstum hluta um eina manneskju, hvað hún hugsanlega gerði og hvað ekki, hvað hún vissi og sagði og hvað hún vissi ekki og þagði yfir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir gekk fram á sviðið ung og fersk og var fljótt gerð að lukkudýri þeirra sem ekki voru lengur í forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn en réðu honum og ráða enn, skuggaráðuneyti öldunganna. Þeir gömlu gerðu hana að borgarstjóra. Eftir hálft annað ár í starfi tapaði hún borginni fyrir fólki sem hún kallaði trúða. Eftir tapið blæddi flokknum. Ráðamennirnir kenndu formanninum um ófarirnar og tefldu Hönnu Birnu gegn honum. Kannanir sýndu að hún myndi hafa glæstan sigur. Kosning fór fram en hún tapaði illa. En skuggaverurnar gáfust ekki upp og buðu hana fram til þings. Hún náði kjöri. Varð ráðherra. Eftir rúmt ár í embætti hangir embættisferill hennar á bláþræði. Hún hefur tapað tiltrú. Ástæðan?  Ritstjóri DV leggur mig í einelti, segir hún, en ríkisstjórnin styður mig. Það segir hún fyrir hina ráðherrana; þeir hafa ekki sagt það með eigin orðum. Formaður Sjálfstæðisflokksins, sem lagði hann þegar henni var stefnt gegn honum, segir fátt um stöðu hennar. Hann er í klemmu og yrði úthrópaður af draugum síns eign flokks ef hann setti hana af. Það yrði kölluð hefnd gegn henni sem fór gegn honum. Hann er patt. Og með fullri virðingu fyrir mætti DV er það fráleitt skýring að blaðið eitt og sér hafi kippt undan henni fótunum.

Ef litið er yfir stjórnmálaferil innanríkisráðherrans með opnum augum er ljóst að það er hroki og orðabelgingur hennar sjálfrar sem hefur fellt hana hvað eftir annað. Eitruð blanda af óheilindum og stærilæti. Hanna Birna er versti óvinu sjálfs sín. Og kannski sá eini.

Umfjöllun um störf innanríkisráðherra þarf að ljúka sem fyrst. Fjölmörg aðkallandi mál bíða umræðu, mál sem skipta sköpum fyrir lífið í landinu. Mál Hönnu Birnu er ekki eitt af þeim.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,620