trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 28/02/2017

Óafturkræf verðmæti

wineVið þekkjum það þegar kemur að framkvæmdum að sumar þeirra eru þess eðlis að þótt maður myndi rífa allt niður aftur væri ekki hægt að endurheimta náttúruna einsog hún var. Þetta á við um ýmislegt og nægir að nefna Kárahnjúkavirkjun og þau víðerni sem töpuðust við þá framkvæmd. Hvaða skoðun sem menn hafa á því og hvers virði það er sem tapast á móti því sem í staðinn kemur þá er mikill munur á framkvæmdum þar sem hægt væri að færa allt aftur í sama horf. Það eru óafturkræfar breytingar sem mest þarf að huga að.

En þetta á ekki bara við um framkvæmdir heldur um svo margt annað. Eitt, til dæmis, er það fyrirkomulag sem við höfum á sölu áfengra drykkja. Vínbúðirnar munu hverfa verði það frumvarp sem nú er rætt á Alþingi að lögum. Áfengi yrði þá selt um allt í matvörubúðum og ljóst að ómögulegt væri að snúa til baka. Fyrirkomulagið í dag eru óafturkræf verðmæti okkar þjóðfélags og það er illskiljanlegt að menn leggi svo mikið á sig sem raun ber vitni, ár eftir ár, til að sóa þessum verðmætum. Ég hygg, til að mynda, að margar þjóðir sem hafa það fyrirkomulag sem sumir þingmenn nú sækjast eftir fyrir okkur (án þess að við höfum beðið um það) myndu gjarnan búa við okkar fyrirkomulag. En þetta er einstefna, maður snýr ekki til baka.

Maður spyr sig, hví er aftur og aftur lagt af stað í þessa herferð að koma áfengi í búðir? Hver getur verið ástæðan?

Ég spyr mig af því að sonur minn hjó eftir því að ég hefði póstað hlutum þar sem andstaða við áfengisfrumvarpið – bús í búðir – var hampað. Hann spurði afhverju ég væri á móti því, sem væri greinilegt. Ég sé enga ástæðu til að breyta góðu fyrirkomulagi og hef fyrst og fremst verið á móti sem neytandi því ég tel einsýnt að bæði muni þjónustan versna til muna, úrval verða fátæklegt nema í rándýrum sérbúðum til að mynda. En það er bara margt fleira sem kemur til.
En snúum aftur að þessum spurningum, afhverju eru menn að þessu, afhverju núna?

Ekki er það vegna þess að það hafi um langt árabil verið krafa um það í þjóðfélaginu að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er ekki annað að sjá en að menn séu almennt ánægðir. Ég man þá tíð þegar vínbúðir voru fáar, nánast bara í Reykjavík og mikil örtröð þar sem afgreitt var yfir borð. Ég vann um sumar á Höfn í Hornafirði og þar varð maður að panta áfengi með pósti. Sem ungur maður þá klikkaði maður bara einu sinni á því að panta á mánudegi fyrir næstu helgi. Og fyrst maður pantaði þá auðvitað drakk maður það sem maður átti. Þarna varð skortur á aðgengi ekki alltaf til að minnka drykkjuna. En staðan í dag er önnur, á Höfn er engin skortur á aðgengi í dag, það er ekkert í póstkröfu þar í pósthúsinu.

Nei það hefur eiginlega enginn kallað eftir þessu. Einungis tveir hópar, annars vegar stórir aðilar í smásölu einsog Hagar og hinsvegar ungt frjálshyggjufólk sem virðist satt best að segja líta á þetta mál frekar í ætt við trúarbrögð en nokkuð annað. Og þá ofsatrúarbrögð í raun. Sem er bara sorglegt.

Afhverju ætli smásalar, sem eru nú samt risastórir, fákeppnisaðilar, afhverju kalla þeir eftir þessu? Er það umhyggja fyrir okkur sem eigum það til að fara í ríkið stöku sinnum? Varla. Ætli það sé ekki frekar að þeir sjái þann hag í þessu að geta hagnast um töluveraðar upphæðir. Og viljum við í alvöru að hagnaður af því að selja áfengi renni í vasa þeirra – til viðbótar við allt hitt – en ekki í ríkissjóð?

Hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir okkur neytendur? Ég get ímyndað mér að í Bónus, Krónunni, Nettó og Hagkaup og þeim búðum öllum myndu fást nokkrar, en bara nokkrar tegundir af bjór, nokkrar af léttvínum og örfáar tegundir af sterkum drykkjum. Þessir aðilar munu ekki bjóða upp á úrval af vínum, ekki tugi eða hundruði tegunda. Það er ekkert pláss til þess og það myndi nú bara taka af hagnaðinum. Og langlíklegast myndu menn bjóða upp á mes megnis ódýrt vín, sérstaklega í Bónus. Kaupmaðurinn á horninu myndi strax lenda í vandræðum, hann yrði að bjóða upp á eitthvað en það er nú ekki mikið plássið í hans búðum. Þannig að ekki er heldur pláss þar fyrir mikið úrval. Þetta myndi þýða að upp risu sérverslanir sem byðu upp á meira úrval og eflaust pöntunarþjónustu, en auðvitað yrði það miklu dýrara en það sem Vínbúðin nú býður upp á. Það væri hugsað fyrir þá efnameiri.

Og kannski er það líka draumur einhverra að pöpullinn verði látinn kaupa sér hratrauðvín í Bónus meðan Range Rover akandi burgeisinn kaupir eitthvað fínt og nógu andskoti dýrt í sinni sérverslun.

Nei það er bara þannig að mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti þessu og sá meirihlut fer vaxandi.

Hvers vegna sækja menn þetta þá svona fast ár eftir ár?

Afhverju eru menn svo fastir í því að sinna hagsmunum stórsmásala? Ég get ekki svarað því. Sama hvert litið er þá mótmælir fólk þessu áfengisfrumvarpi. Það er undirskriftasöfnun í gangi.

Allir sérfræðingar, allir sem koma að lýðheilsu, læknar, þeir sem koma að baráttunni gegn alkóhólismanum, sem sinna börnum og unglingum, skólum, sveitarstjórnir o.s.frv., o.s.frv. lýsa yfir mikilli andstöðu. En samt halda menn áfram. Menn eru einu sinni heilbrigðisráðherra og er þá á móti en verða annarskonar ráðherrar og eru þá með. Hvað hefur breyst?

Núverandi fyrirkomulag er nefnilega býsna gott, það er í raun frábært aðgengi, fjöldi búa, opið í sumum til átta á kvöldin, opið á laugardögum. Það er ekki vandamál að fara í Vínbúðina, þar er mikið úrval og mikla hjálp og aðstoð að fá. Þægilegt að halda veislur, maður getur fengið að skila á eftir. Einfaldlega topp þjónusta.

Þannig að skortur á aðgengi er engin rök fyrir breytingum. Síðan er gríðarlegur munur á aðgengi þar sem maður þarf að gera sér sérstaka ferð í ríkið til að kaupa áfengi eða að grípa það mér smérinu og kartöflunum, fyrir þá sem vilja forðast áfengið er það grundvallarmunur. Mér finnst lítið mál að fara í Vínbúðina ef það getur orðið til þess að létta öðrum lífið – og jafnvel bjarga því.

Það er ekkert að núverandi fyrirkomulagi, þegar frá líður munu fleiri og fleiri öfunda okkur af þessu fyrirkomulagi, það er enginn sem kallar eftir breytingum nema örfáir forríkir aðilar sem heimta að fá að græða enn meira. Breytingin yrði væri afturför í lýðheilsu og myndi kalla á meira fé úr ríkissjóði þess vegna til viðbótar við það fé sem tapast ef við afsölum okkur hagnaðinum af sölunni. En það sem mest er um vert að þjónustan myndi snarversna. Ég sem neytandi er ekki par sáttur við það.

Það er bara ekkert sem kallar á að við sóum þessum óafturkræfum verðmætum sem við erum svo heppin að sitja uppi með.

 

Flokkun : Pistlar
1,275