trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 29/05/2014

Neitar að afneita

Screen Shot 2014-05-29 at 13.14.24Verði maður var við rasisma, verði maður var við hugmyndir sem eru andstæðar mannréttindum, andstæðar stjórnarskrá Íslands þá þarf maður ekkert að hugsa sig um til að vera á móti. Hvort sem maður er ungur Framsóknarmaður eða formaður flokksins. Setjum það dæmi sem nú er í umræðunni öðruvísi upp:

Ef efsti maður á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík hefði sagt að menn sem hafa orðið uppvísir að heimilisofbeldi ættu að hafa forgang að lóðum í Reykjavík, hvað hefði formaður Framsóknarflokksins þurft mikinn tíma til þess að afneita þeirri skoðun forystumannsins í Reykjavík?

Auðvitað engan tíma.

Sama á við í mínum huga um þann rasisma sem felst í þeirri skoðun forystukonunnar í Reykjavík að það ætti að afturkalla úthlutun lóðar fyrir bænahús eða mosku islamtrúarfólks á Íslandi. Það skiptir engu máli að hún reyni örlítið að draga í land með því að segja að þetta eigi að gilda um aðra (nema þá kristnu kannski?). Í tilbúna dæminum um heimilisofbeldi væri það einsog að segja að allir ofbeldismenn ættu að hafa forgang að lóðum ekki bara þeir sem stunda heimilisofbeldi. Það þarf ekki að hugsa sig um.

Það þarf ekki að hugsa sig um til að vera á móti rasisma og til að fordæma útlendingaandúð og allt það sem elur á hatri, það kemur af sjálfu sér og það kemur strax.

Nú hefur formaður flokksins þagað dögum saman. Svo lengi að Framsóknarflokknum hefur tekist að draga úr skúmaskotum lítilsiglda kjósendur, útlendinghatara og rasista sem dugir til að fleyta einum manni í borgarstjórn.

Þá kemur loks hljóð úr ranni.

Sem hefst svona: „Ég ætla ekki að blanda mér í umræðu um hvort Reykjavíkurborg eigi að gefa trúfélögum ókeypis lóðir eða ekki.“

Rasisma forystukonunnar í Reykjavík er ekki hafnað. Hann segir að það sé ekki hægt að ræða málin af yfirvegun og það sé vísasta leið að veita öfgahreyfingum hljómgrunn að bæla niður umræðu.

En það hefur enginn verið að bæla niður umræðu, þvert á móti. Formaðurinn hefur hinsvegar neitað að taka þátt í umræðunni þar til núna. Og auðvitað er gripið til gamalkunnra raka. Icesave.

Icesave er sem sé einhverskonar réttlæting á því að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík veiði atkvæði út á rasisma og útlendingahatur og hatur á múslimum.

Formaður Framsóknarflokksins afneitar ekki rasismanum í Reykjavík en vísar vissulega til stefnu Framsóknarflokksins: „Þeim sem vilja kynna sér stefnu Framsóknarflokksins og hugmyndir okkar sem þar störfum um samfélagið bendi ég á að lesa stefnuskrá Framsóknarflokksins og skoða verk flokksins í ríkisstjórn síðastliðið ár. Af því má læra að við byggjum starf okkar á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu á grundvelli skynsemi. Skynsamlegustu leiðina er best að finna á grundvelli rökræðu, ekki með aðferðum eins og birst hafa undanfarna daga.“

Allt í góðu með það, en af hverju er rasismanum í Reykjavík ekki afneitað? Hann vill rökræður og leyfa umræðu. Allt í góðu með það líka, en það virðist samt ekki þannig að umræða um þögn hans hingað til, umræða um fólskuna sem felst í rasismanum, útlendingahatrinu og þeirri staðreynd að hugmyndir forystukonunnar í Reykjavík stangast ekki bara á við mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að, stangast ekki bara á við réttlætiskennt meginþorra Íslendinga, heldur stangast þær líka algerlega á við stefnu Framsóknarflokksins.

Það dugir samt ekki til þess að formaður flokksins afneiti þessum hugmyndum, hann sem sé tekur stöðu með forystunni í Reykjavík gegn stefnu flokksins. Hann tekur stöðu með rasismanum.

Ungliðar í flokknum, stjórn SUF, mótmælti þessu harðlega í ályktun sem var birt á heimasíðu flokksins og á Facebook síðu ungliðanna en ályktunin var snarlega tekin út. Þarna var brugðist rétt við þótt seint væri og ályktun samin á grundvelli stefnu flokksins. Sjá frétt hér um málið. Afhverju var þetta tekið út af síðunum?

Viðtal við fyrrverandi annan mann á lista flokksins í Reykjavík, innanbúðarmanneskju, virðist taka af öll tvímæli um að rasisminn og útlendingahatrið er ekki tilviljun eða mistök. Heldur skipulagt dæmi ef satt og rétt er sagt frá. Sjá skrif hennar hér.

Þessar staðreyndir, skrif formannsins, þar sem rasismanum er ekki hafnað en sagt að gagnrýnendur leggist lágt, að harðorð og að ákveðin ályktun ungliðanna hafi verið tekin niður af síðum flokksins umsvifalaust og upplýsingar innanbúðarmannsins fyrrverandi, benda til þess, því miður, að flokkurinn ætli að feta braut öfganna, rasismans og útlendingahaturs.

Það er einfaldlega ekki hægt að skilja þetta allt saman öðruvísi. Þótt mann langi sárlega til þess.

Flokkun : Pistlar
1,424