trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 01/05/2016

Nei, þetta gengur ekki

Enn er mótmælt á Austurvelli og útlit fyrir að svo verði áfram um hríð. Það er að verða liðinn mánuður frá Kastljósþættinum um Panama-skjölin og afsögn forsætisráðherra. Bráðum mánuður síðan menn sögðu að kjósa ætti í haust. Samt bólar ekki á ákveðinni dagsetningu og ekki heldur alvöru skrá yfir þau mál sem Alþingi þyrfti að afgreiða.

Það er reyndar ekkert þannig að þess þurfi, það er einfaldast að kjósa strax og nýtt fólk með umboð þjóðarinnar takist síðan á við afnám hafta, sölu eignanna sem ríkið hefur fengið í fangið og til að smíða fjárlög fyrir árið 2017. Núverandi stjórnvöld eru ekki til þess hæf. Engan veginn enda bundin í bak og fyrir af aflandseyjaspillingu — hversu léttvægt sem sumir vilja líta það þá eru ráðherrar á kafi í því. Og það gengur aldrei til lengdar, og ætti ekki að ganga til skamms tíma heldur.

Fjármálaráðherra er sérstaklega tengdur, hann sem er svo óforskammaður á baráttudegi verkalýðsins að vitna í Margaret Thatcher og tísta um það. Tilvitnun um að vandamálið fyrir sósíalismann sé þegar peningar annarra séu uppurnir. Þetta segir maðurinn sem átti þátt í viðskiptalífi fyrir hrun sem einmitt notaði peninga annarra þangað til þeir voru uppurnir, það var kapítalisminn sem það gerði. Frjálshyggjan, eftirlitsleysið og gróðahyggja sem henni fylgir. Við erum að tala um neo-liberalism, sem ekki má rugla saman við liberalism sem er frjálsyndisstefna.

Sósíalisminn, jafnaðarmennskan, í Skandínavíu hefur einfaldlega farið aðra leið og eyðir ekki peningum annarra, heldur nýtir skattfé, þar sem þeir ríkustu borga mest, til þess að bæta kjör og hag allra. Og sú leið er mun betri.

Annars voru peningarnir ekki allir uppurnir, nei þessi snillingar, sem er ekkert hægt að kalla annað en þjófa, fóru með peninga á Tortólu, í skattaparadísir og skattaskjól. Peningana sem Ísland og íslenska þjóðin þurfit sem mest á að halda í hruninu. Þannig juku þeir vanda allra íslenksra heimila nema sinna eigin og skáru eld að sinni köku. Tóku stöðu gegn þjóðinni, gegn almenningi. Og fjármálaráðherra leyfir sér að vitna á þennan hátt. Hann kann ekki að skammast sín, svo mikið er ljóst.

En þetta Panama-mál lítur nú eiginlega þannig út, eftir því sem meira kemur í ljós um hið gerspillta Ísland, að óprúttnir einstaklingar komu sér í góða stöðu í gegnum tvo stjórnmálaflokka, komust með puttana í valdið í gegnum stjórnmálin og/eða inn í bankana sem illu heilli voru einkavæddir. Einkavæðing til vina spilltra stjórnmálamanna sem voru í kallfæri við flokka þeirra. Það er ekki hægt að kalla þá annað en spillta sem stóðu að einkavæðingu bankanna. Við verðum að fara að horfast í augu við það.

Næsta skref þessara óprúttnu manna var að kaupa fyrirtæki, stöndug og ágæt fyrirtæki í fínum rekstri, ekki fyrir sitt eigið fé, því það áttu þeir ekkert til, heldur með fé úr bönkunum, lánsfé. Þeir óðu síðan inn í fyrirtæki og hlutuðu þau sundur, eða hvað það annað sem menn gera, og tóku allt fémætt og alla peninga út úr fyrirtækjunum og skyldu þau svo eftir tóm, skel eina og skuldir.

Þegar hrunið kom þá komust þeir upp með að borga ekki neitt, þeir borguðu ekkert til að bjarga fyrirtækjunum og þeir borguðu aldrei lánin sem þeir tóku hjá bönkunum. Og ef allt annað brást þá voru þessar skuldir afskrifaðar.

Það væri nú allt eðlilegt nema þessir menn, einsog nú er ljóst, áttu fullt af peningum, mörg hundruð milljarða króna og voru búnir að koma þeim fyrir í aflandsfélögum, í félögum á ýmsum eyjum með aðstoð Mossack Fonseca í Panama.

Síðan tvöfalduðust þessir peningar á Tortóla þegar króna féll, fyrst í mars 2008 og síðan enn meira í hruninu síðar sama ár, hundrað milljarðar króna í gjaldeyri urðu að 200 milljörðum króna og ekki komu þessir menn með gjaldeyrinn heim til að hjálpa þjóðinni sinni, ó nei. Þeir tóku stöðu gegn Íslandi, gegn eigin þjóð og sú staðreynd að þeir héldu sínu fé og fóru með það á aflandseyjar þýddi enn meira fall krónunnar, enn meiri gróða fyrir þá, enn meira tap fyrir íslenskan almenning.

Og nú. Nú er staðan sú að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að hanga á völdum svo sem kostur er til þess að leyfa þessum mönnum koma inn með þetta sama fé á 20 prósenta álagi og leyfa þeim að kaupa öll þessi fyrirtæki sem ríkið situr uppi með á brunaútsölu. Fjármálaráðherrann boðar að allt eigi að selja á einu sumri, og viti menn hlutabréfaverðið í Kauphöllinni féll og féll þegar menn sáu fram á þessa brunaútsölu. Ja svei.

Og skýrist þá að einhverju leyti hví menn ætla ekki strax í kosningar. Það er sama spillingin og hefur grasserað á Íslandi í áratugi, sama spillingin og kom okkur í hrunið sem varð hér verra en annarsstaðar, sama spillingin og enn ræður ríkjum á Íslandi. Spillingin sem endurspeglast svo harmrænt í fjögurra síðna lofrullu og lygaþvælu háskóalaprófessors um þann mann sem allra mesta ábyrgð ber á ógöngum Íslands nú í heilan áratug. Ja svei og aftur svei.

Það verður þörf á því að standa áfram á Austurvelli. Annað er ei hægt.

 

Flokkun : Pistlar
1,499