trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 20/05/2014

Muhammed teikningar og tjáningarfrelsi

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur fyrir fullu tjáningarfrelsi. Í ljósi þess er áhugavert að horfa til þess að ummræða um þessar blessuðu Muhammed teikningar sem birtust í Jyllands Posten haustið 2005 muni seint taka enda. Nú verð ég að taka það skýrt fram að ég ber mikla virðingu fyrir Salmann Tamimi og það sem hann hefur gert fyrir múslima á Íslandi. Ég var snöggur til að gagnrýna þá sem helltu svínsblóði á lóðina sem hefur verið úthlutað fyrir byggingu bænahúss múslima á Íslandi.

En í tilefni dagsins finn mig knúinn til að svara ummælum Salmann Tamimi um þetta mál enda virðist hann svolítið misskilja hvað tjáningarfrelsi þýðir.

Þegar Salmann Tamimi var spurður út í nýlegri grein sem birt var á visir.is, hafði hann eftirfarandi að segja um Muhammed teikningarnar:

„„Ég styð tjáningarfrelsi. En þetta get ég ekki tengt við tjáningarfrelsi. Hér erum við að tala um asnalegar teikningar af manni sem er mikils virtur af þriðjungi mannkyns og getur ekki varið sig sjálfur. Hann gerði engum mein,“

Nú verður maður einfaldlega að kryfja þessu ummæli rækilega. Jafnvel þótt að þessar teikningar hafi verið frekar smekklausar, þá eru þær svo sannarlega hluti af tjáningarfrelsinu sem við metum svo mikils í vestrænum þjóðum. Tjáningarfrelsi á ekki bara við þegar talað er um blóm, regnboga og aðra fallega hluti. Tjáningarfrelsi á sérstaklega við þegar fólk er að tjá sig um eitthvað sem er mjög umdeilt. Hluti af því getur t.d. verið að teikna smekklausa mynd af Muhammed eða af Jesú, Búdda eða hvaða trúarlega merki sem manni gæti dottið í hug. Svo er einnig áhugavert að það eru meira en nóg af dæmum í gegnum söguna af múslimum sem hafa að sársaukalausu málað myndir af Muhammed, en svo að ég viti hafa þau málverk ekki valdið uppþotum. Hvað varðar spurninguna um hvort Muhammed hafi nokkurntíman gert einhverjum mein er í besta falli sögulega umdeilanlegt.

Jesús er dæmi um manneskju sem er mikið virtur af stórum hluta mannkynsins. En fáir telja það brýna nauðsyn að stunda sjálfsritskoðun þegar birtar eru myndir af honum sem eru ansi smekklausar. Sjálfur lít ég mjög mikið upp til fólks á borð við Charles Darwin og Albert Einstein en ég kippi mér ekki upp við að fólk geri grín að þeim. Það er komin upp sú merkilega staða á vesturlöndum að flestir fjölmiðlar stunda sjálfsritskoðun þegar kemur að því að birta myndir af Muhammed. Þetta gerist þrátt fyrir það að við teljum okkur virða skoðanna og tjáningarfrelsi sem getur falist einmitt í því að gera grín að trúarbrögðum.

Það hefur valdið mér þó nokkrum áhyggjum hvernig viðbrögð bæði vesturlanda og miðausturlanda hafa verið gagnvart þessu máli, og því vöktu orð Salmans mig til umhugsunar. Málið gekk meira að segja svo langt að um tíma þar deilt mikið um hvort SÞ ættu að beita sér fyrir ályktun sem myndi banna guðlast. Diplómatar frá nokkrum íhaldssömum múslimaríkjum fóru fram á að forsætisráðherra Danmerkur á þeim tíma myndi beyta ritskoðun gegn Jyllands Posten, nokkuð sem stangast algjörlega á við stjórnarskrá Danmerkur. Á Íslandi ríkir tjáningarfrelsi og fæstir samþykkja ritskoðun, óháð trúarbrögðum eða lífsskoðunum. Það eru gildi sem ég vil standa vörð um, líka þegar það er pólitískt óþægilegt.

Þeir sem eru ekki múslimar eiga ekki að þurfa að gjalda um ákveðna siðferði sem á við í Islam. Ég bjó sjálfur í Danmörku þegar þetta mál kom upp og mér finnst það vægast sagt sjokkerandi að fólk hefur verið fljótara að fordæma þessar teikningar en það hefur verið að fordæma viðbrögðin við þeim. Kurt Westergaard, maðurinn sem teiknaði þessar myndir hefur fengið fjölmargar hótanir. Þar á meðal kom maður á heimili Kurts með öxi til að ráða hann af dögum, og fann þess í stað fyrir 5 ára barnabarnið hans. Það að bregðast við slíku með því að stunda sjálfsritskoðun í stað þess að standa öll við hlið Kurt Westergaard og verja rét hans til að tjá sig segir mér að það er eitthvað verulega að tjáningarfrelsinu og hvað telst pólitískt viðeigandi.

Það er mjög auðvellt að segjast trúa á tjáningarfrelsi, það gerir litlar sem engar kröfur til þín sem einstaklings. En að verja og berjast fyrir tjáningarfrelsi, það er mun erfiðari leikur. Tjáningarfrelsi er að standa upp og verja eða jafnvel berjast (ef þarf) fyrir sínum skoðunum. Það getur verið að tjáning sé óvinsæl, það getur verið að tjáning þýði að fólk hóti manni lífláti. Það er samt sem áður mikilvægt að stíga ekki eitt skref afturábak þegar kemur að tjáningarfrelsi. Fólk á borð við Martin Luther King, Rosa Parks, Chelsea Manning, Edward Snowden svo örfá dæmi séu nefnd hafa þurft að berjast fyrir sínu tjáningarfrelsi. Stöndum frekar upp fyrir tjáningarfrelsið í staðinn fyrir að beygja okkur niður fyrir hótunum. Ég tek það skírt fram að ég er ekki að verja rétt fólks til að móðga, ég er að verja rétt fólks til þess að tjá sig sem ætti að vera heilagri en nokkur annar réttur. Um leið og við byrjum að setja tjáningarfrelsinu takmörk erum við komin á mjög slæma braut.

Þegar kemur að tjáningarfrelsi hef ég alltaf ákveðna setningu aftan í kollinum á mér sem er gjarnan ranglega eignuð við Voltaire en kom þó ekki fram fyrr en í ævisögu Evelyn Beatrice Hall um hann.

„I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it“

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,354