trusted online casino malaysia
G. Pétur Matthíasson 01/08/2014

Laugavegurinn lifir – lengur og lengri

LaugavegurinnÞað er frábært að vera laus þessa sumardaga við bílana á Laugaveginum. Þegar það er þannig. Það virðist nefnilega bara vera stundum þannig. Veit ekki hvernig það er skipulagt en mér finnst það skrítið. Ég vildi sjá Laugaveginn lokaðan bílum miklu meira og á miklu stærra svæði, t.d. frá alveg Snorrabraut.Og auðvitað á hann að vera lokaður bílum allt árið. Enda er túristatímabilið alltaf að lengjast.

Ég skil ekki hversu veiklunduð borgaryfirvöld virðast fyrir því sem manni sýnist vera mikill minnihluti kaupmanna á Laugaveginum. Sem hefur auk þess rangt fyrir sér. Ég sé ekki að þessir sem eru á bílunum séu að höndla mikið í búðunum, þeir eru í bílunum sínum og keyra niður Laugaveginn – aðallega. OK. Eflaust margir sem ætla að kaupa eitthvað, eða erindast í bænum og leggja í hann niður Laugaveginn í leit að bílastæði, en hvað svo? Líklega fá þeir ekki stæði í fyrstu atrennu, og fara aðra ferð, eftir þriðju ferðina myndi ég halda að þeir tæku bara strikið í Kringluna eða Smáralind. Því það eru engin stæði laus á Laugaveginum nema maður sé heppinn og einhver sé að fara akkúrat þegar maður ekur framhjá.

Svo er þetta líka bara spurning um upplifun. Hvað ætli það sé langt í Eymundsson á Skólavörðustíg frá bílastæðahúsinu gegnt Þjóðleikhúsinu? Gæti verið að það sé álíka langt og frá bílastæði utarlega við Smáralindina og í Eymundsson inni í húsinu? Hef ekki mælt það, sem væri áhugavert að gera. En ég er viss um að munurinn er ekki mikill.

En ég skil heldur ekki þessa linku borgaryfirvalda. Nú eru þau tilbúin í allskonar vitleysu aðra, á Hofsvallagötu og í Borgartúninu. Þar eru þau yfirvöld tilbúin að ganga gegn álitum sinna eigin stofnana svo sem lögreglunnar. En ekki á Laugaveginum þar sem þó ég held að menn hefðu langstærstan hluta almennings með sér og lögregluna jafnvel líka. Sérstaklega ef skrefið væri stigið til fulls og fólk myndi læra að leggja og labba.

Því til þess að Laugavegurinn án bíla virki enn betur þarf fleira að koma til. Það þarf að lengja svæðið. Ég spyr, hvers vegna í ósköpunum er bílaumferð leyfð niður Bankastrætið? Óskiljanleg bara. En það sem þarf að gera er að taka bílagötuna, malbikið, í burtu og gera götuna vinalega fyrir fótgangandi, sýna að fótgangandi séu í aðalhlutverki. Núna í sumar sést vel hvernig búðareigendur og eigendur veitinghúsanna fá svigrúm fyrir starfsemi sína á gangstéttinni þegar búið er að loka fyrir bílana. Þetta þarf að gera þeim auðveldara og taka burt akbrautina og auðvelda þeim að setja upp tjöld og borð og aðra aðstöðu á gangstéttinni og götunni ef vill. Þannig myndi lífið á Laugaveginum aukast enn. Og verslunin auðvitað líka. Er það ekki einmitt keppikefli kaupmannanna?

Og það á ekki að vera erfitt að koma fyrir því að menn komi aðdráttum á sína staði á Laugaveginum með því að leyfa sendibílum og þeim öðrum sem koma með aðföng að aka í göngugötunni Laugaveginum t.d. fyrir hádegi, eða fyrir 11 eða eitthvað slíkt. Eða halda menn að búðirnar á Strikinu í Kaupmannahöfn fái engar vörur?

Nei ég hvet borgaryfirvöld til þess að ganga þarna ákveðið til verks. Fyrir alla borgarbúa og alla túrista sem óvart eru þeir sem halda lífinu í miðbænum, og halda lífinu í kaupmönnunum. Það er nefnilega ekki öfugt.

Flokkun : Pistlar
1,336