trusted online casino malaysia
Arnaldur Sigurðarson 25/06/2014

Klisjukendir fasistatilburðir…eða ekki?

Nú eru nokkrar vikur liðnar frá kosningum og ég hef gefið mér dágóðan tíma til þess að melta niðurstöðurnar. Af sjálfsögðu er ég mjög ánægður með að hafa fengið okkar mann, Halldór Auðar Svansson, inn í borgarstjórn. Hann er þegar búinn að gera margt gott fyrir Pírata, þar á meðal að koma okkur í meirihlutasamstarf, sem er svo að ég viti í fyrsta skipti sem Pírataflokkur á alþjóðavísu hefur gert slíkt. Í kjölfarið var mér boðin staða áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráði og að sjálfsögðu þáði ég þann heiður með þökkum. Ég er spenntur fyrir því að fá að taka þátt í að móta menntastefnu borgarinnar og svo virðist sem samstarfsflokkarnir séu með nokkuð Píratalegar nálganir þegar kemur að menntun.

Það sem veldur mér áhyggjum varðandi niðurstöður kosninganna hins vegar er árangur Framsóknarflokksins sem fengu 10,7% atkvæða og tvo menn inn. Allt stefndi í það að Framsókn fengi enga menn inn eins og áður en svo kemur skyndilega upp þetta moskumál og fylgi þeirra rýkur upp. Nú ætla ég ekki að halda því fram að Framsóknarflokkurinn sé fasistaflokkur, á heildina litið er hann ennþá langt frá því og það eru margir sem eru allt of gjarnir á að kasta orðinu fasismi fram án þess að skilja almennilega merkinguna á bak við það. Aðferðirnar sem Framsókn og flugvallarvinir beyttu í lok kosningabaráttunar minntu hins vegar ansi mikið á fasistalegar aðferðir. Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir sagðist vera „á móti úthlutun á lóð til byggingar mosku“ til að byrja með, svo breyttist það í „til allra trúfélaga“, en Þjóðkirkjan virtist aftur á móti vera í lagi. Núna segist hún ekki ætla að beita sér fyrir þessu máli og hunsar fasistafylgið sem flokkurinn fékk.

Þessi atburðarrás hefur verið vægast sagt furðuleg. Nú verð ég bara að rifja upp hitafundinn sem átti sér stað í Hinu Húsinu þar sem Salmam Tamimi ásakaði Sveinbjörgu um að kaupa atkvæði á kostnað mannréttinda. Það vill svo til að ég var á þessum fundi fyrir hönd Pírata. Moskumálið kom ekki upp fyrr en í lok fundar og ég hefði viljað ræða þetta mun meira enda var full ástæða til, en ég var ekki fundastjóri og fékk lítið um það að ráða. Þegar spurningin um moskuna kom upp var henni einungis beint til Sveinbjargar. Hún svaraði mjög óljóst um þetta mál. Frambjóðendur allra flokka vildu gjarnan tjá sig um þetta mál, ég var þeirra á meðal og reyndi því að fá upp úr henni afstöðu hennar til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Það náðist ekki í hita fundarins en það kom til mín ung dama eftir fundinn og spurði mig hvað ég hefði viljað segja þarna. Í þeirri andrá kemur Sveinbjörg til okkar og ég spyr hana út í afstöðu hennar til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Mér til mikillar furðu sagðist hún vera því fylgjandi. Ef hún hefði sagt frá byrjun að, hún væri á móti úthlutun lóða til trúfélaga yfir höfðuð og fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju, hefði það eflaust sparað henni mikið af leiðindum. Það væri fullkomnlega í samræmi við aðferðir til að stuðla að veraldlegra samfélagi, en ekki við klisjukenda fasistatilburði.

Fasismi er í eðli sínu alveg einstaklega klisjukendur. Það er hægt að sjá sömu aðferðirnar og sömu kringumstæðurnar aftur og aftur í gegnum söguna þar sem fasismi hefur blómstrað. Rauði þráðurinn hefur verið að beita hræðslu almennings við minnihluta í samfélaginu. Þetta hefur sést með tilkomu fasista fyrir seinni heimsstyrjöldina og allt upp að síðustu Evrópuþingskosningum sem áttu sér stað í lok maí. Þar urðu flokkar á borð við UKIP í Bretlandi, Front National í Frakklandi, Freedom Party í Austurríki, Dansk Folkeparti í Danmörku og Golden Dawn í Grikklandi miklir sigurvegarar. Allt eru þetta öfgafullir hægriflokkar og þegar kemur að Golden Dawn í Grikklandi þá er ekki einu sinni reynt að fela það, enda hafa þingmenn og liðsmenn þeirra ítrekað verið handteknir fyrir tengsl við ofbeldisverk.

Það sem er verulega óhuggulegt við þennan sigur Framsóknarflokksins í borginni er einfaldlega það að flokkurinn er búinn að sýna að það er hægt að beita hræðslu almennings við minnihlutahóp til að fá atkvæði hér á Íslandi, rétt eins og hefur verið gert erlendis. Þetta býður beinlínis upp á það að öfgafullri öfl en þetta geti átt möguleika á að komast til valda hér á landi. Ég mun ekki sitja hjá og þegja á meðan fasismi kemur til baka til Evrópu á sama klisjukennda hátt og sú hugmyndafræði gerði fyrir seinni heimsstyrjöld. Píratar eru að mínu mati andsvarið við þessari þróun. Fasistarnir segja okkur að hræðast minnihlutahópa og minnka frelsi eintaklinga. Píratar segja „útvíkkum borgararéttindi, eflum beint lýðræði og tjáningarfrelsi. Verum opin fyrir mannkyninu í öllum þeim fjölbreytileika sem það býður upp á“.

Ég ætla að ljúka þessari grein með því að vitna í Martin Niemöller, sem var prestur í Þýskaland á valdatíð Nasista og var um tíma stuðningsmaður þeirra.

„First they came for the Socialists, and I did not speak out—
Because I was not a Socialist.

Then they came for the Trade Unionists, and I did not speak out—
Because I was not a Trade Unionist.

Then they came for the Jews, and I did not speak out—
Because I was not a Jew.

Then they came for me—and there was no one left to speak for me“.

Latest posts by Arnaldur Sigurðarson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,321