trusted online casino malaysia
Grímur Atlason 04/04/2014

Jöfnunarsjóður – eins og hann er

Ísland_sveitarfélög-eftir-mannfjölda

Elliði Vignisson birtir í dag á bloggi sínu tölur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Því miður snýst samantektin aðeins um hagsmuni Vestmannaeyjabæjar og því haldið fram að íbúar sveitarfélagsins greiði meira en aðrir í jöfnunarsjóð. Án efa greiða Vestmanneyingar meira en íbúar Borgarfjarðarhrepps eða Langanesbyggðar í jöfnunarsjóð en það skyldi þó aldrei vera að íbúafjöldi ráði þar einhverju um? Getur verið að íbúar Kópavogs greiði meira en Vestmannaeyingar? Auðvitað gera þeir það og það er eðlilegt.

Á Íslandi eru 74 sveitarfélög. Þeim kann reyndar að fækka í 73 í næstu sveitarstjórnarkosningum en þá kjósa íbúar Skorradalshrepps og Borgarbyggðar hvort sameina eigi sveitarfélögin. Skorradalshreppur er eitt af 5 sveitarfélögum á Íslandi hvar færri en 100 eiga lögheimili. Það segir sig sjálft að erfitt getur verið að halda úti þjónustu, sem sveitarfélög eiga að veita samkvæmt lögum, þegar íbúarnir eru þetta fáir. Það má halda því fram með nokkuð góðum rökum að erfitt geti verið að halda úti grunnþjónustu þegar íbúar eru færri en 5000 svo ekki sé talað um færri en 1000.

Í slíku fámenni er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir hvað kostar að reka nærþjónustuna og hvernig kaupin gerast á eyrinni. Hvert fara peningarnir og hvaðan koma þeir? Það er einnig mikilvægt að gera sér grein fyrir hvort og þá hvernig megi spara þannig að almenningur fái meiri og helst betri þjónustu fyrir skattpeningana. Reyndar eru ekki allir sammála því að þetta sé mikilvægt – það er líklega þess vegna sem landið er ennþá nokkur kjördæmi og 74 sveitarfélög.

Heildarskatttekjur sveitarfélaganna 74, árið 2012, voru 176,1 milljarðar. Þar af voru tekjur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga 25,7 milljarðar. Hlutfall jöfnunarsjóðs í heildarskatttekjum nam þannig 14,2% árið 2012. Eins og gefur að skilja er hlutfallið afar misjafnt eftir sveitarfélögum allt frá 5% í Kópavogi að 56% í Skagabyggð. Hlutfallið í Vestmannaeyjabæ er 14%. Hvert eðlilegt hlutfall ætti að vera er án efa misjafnt eftir aðstæðum en það ætti varla að þurfa að fara yfir 20%.

Á Íslandi eru 25 sveitarfélög þar sem hlutfall jöfnunarsjóðs af heildarskatttekjum er á bilinu 25 til 35%. Síðan eru 20 sveitarfélög hvar hlutfallið er hærra en 35% af heildarskatttekjum sveitarfélagsins. Hjá 12 þessara sveitarfélaga fer hlutfallið yfir 40%. Þessi sveitarfélög eru:

Skagabyggð: 104 íbúar
Jöfnunarsjóður: 35,7 m.kr.
Per íbúa: 443.150 kr.
Heildarskatttekjur: 153 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 50%

Súðavíkurhreppur 182 íbúar
Jöfnunarsjóður: 76,1 m.kr.
Per íbúa: 418.440 kr.
Heildarskatttekjur: 153 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 50%

Borgarfjarðarhreppur 129 íbúar
Jöfnunarsjóður: 42,8 m.kr.
Per íbúa: 331.939 kr.
Heildarskatttekjur: 85,4 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 50%

Reykhólahreppur 271 íbúar
Jöfnunarsjóður: 86,1 m.kr.
Per íbúa: 317.681 kr.
Heildarskatttekjur: 182,6 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 47%

Dalabyggð 686 íbúar
Jöfnunarsjóður: 205 m.kr.
Per íbúa: 298.871 kr.
Heildarskatttekjur: 446 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 46%

Strandabyggð 516 íbúar
Jöfnunarsjóður: 155.6 m.kr.
Per íbúa: 301.548 kr.
Heildarskatttekjur: 353 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 44%

Húnaþing Vestra 1187 íbúar
Jöfnunarsjóður: 333 m.kr.
Per íbúa: 280.684 kr.
Heildarskatttekjur: 750 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 44%

Kaldrananeshreppur 104 íbúar
Jöfnunarsjóður: 30 m.kr.
Per íbúa: 290.192 kr.
Heildarskatttekjur: 70 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 43%

Flóahreppur 602 íbúar
Jöfnunarsjóður: 164 m.kr.
Per íbúa: 271.862 kr.
Heildarskatttekjur: 386 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 42%

Svalbarðshreppur 102 íbúar
Jöfnunarsjóður: 25 m.kr.
Per íbúa: 242.784 kr.
Heildarskatttekjur: 58 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 41%

Þingeyjarsveit 915 íbúar
Jöfnunarsjóður: 237 m.kr.
Per íbúa: 259.404 kr.
Heildarskatttekjur: 589 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 40%

Hörgársveit 584 íbúar
Jöfnunarsjóður: 144 m.kr.
Per íbúa: 245.924 kr.
Heildarskatttekjur: 359 m.kr.
Hlutfall jöfnunarsjóðs: 40%

Eins og rakið var í þessari glósu kostar rekstur skrifstofu og sveitarstjórna ofangreindra sveitarfélaga umtalsverða fjármuni. Þannig greiðir hver íbúi Reykhólahrepps 111 þús.kr. á ári svo halda megi úti sveitarstjórn og skrifstofu hreppsstjóra. Íbúar Borgarfjarðarhrepps þurfa að punga út 109 þús. kr. í verkefnið og íbúar Kaldrananeshrepps 101 þús.kr. Fjölmörg sveitarfélög eru á svipuðum slóðum hvað þetta varðar og það má spyrja sig hvort eðlilegt geti talist að sveitarfélög, sem fá yfir 30% tekna sinna frá jöfnunarsjóði, noti hátt í 20% af heildarskatttekjum sínum í rekstur yfirstjórnar sveitarfélagsins?

Það er alveg ljóst að jafna þarf búsetuskilyrði fólks á Íslandi. Jöfnunarsjóður er mikilvægt tæki til þess. Það er hins vegar umdeilanlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, hvort fjármunum skattgreiðenda er vel varið í dag. Núverandi kerfi jafnar ekki búsetuskilyrði landsmanna heldur þvert á móti eykur ójöfnuð þannig að sumir íbúar Íslands njóta umtalsvert lakari búsetuskilyrða en aðrir. Kostnaður við yfirbyggingu og skortur á fagmennsku kemur í veg fyrir framþróun. Þúfnahyggjan og kjördæmapotið fælir ungt fólk frá því að stofna heimili víða um land og nýsköpun er lítil sem engin.

Hvers vegna er það ásættanlegt í dag á tímum erfiðleika í ríkisrekstri að milljarðar fari á ári hverju í eitthvað sem fáir geta fært rök fyrir að sé nauðsynlegt? Það er beinlínis grátlegt að vorið 2014 sé eini möguleikinn á fækkun sveitarfélaga á Íslandi að Skorradalshreppur sameinist Borgarbyggð. Hvers vegna liggur ekkert frumvarp fyrir Alþingi? Hvers vegna ályktar Samband sveitarfélaga ekki um málið? Hvers vegna fara íbúarnir ekki út á götu til að mótmæla skertum búsetuskilyrðum? Hvers vegna sér bæjarstjórinn í Vestmannaeyjabæ ekki heildarsamhengið? Hvers vegna? Því miður er svarið eins og alltaf: Þúfnahyggjan ræður för.

Flokkun : Pistlar
1,274