trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 25/05/2020

Eitt skal yfir suma ganga

Karl Th. Birgisson skrifar

Mér sýnist hætta á því að í skugga faraldurs geri stjórnvöld kröfur til fólks, sem þau eiga varla nokkuð með. Og mismuni því þar með.

Ég skal reyna að útskýra.

Á dögunum snæddi ég kvöldverð með ítölskum vini, sem starfaði lengi að netöryggismálum. Þar kynntist hann möguleikum til misnotkunar, eftirlits, þjófnaðar og annarra glæpa sem flestir hafa orðið að veruleika.

Við ræddum vitaskuld lífið eftir kófið. Hann hefur orðið þess áþreifanlega var á Ítalíu, að kröfur aukast um snjallsímavæðingu. Án snjallsíma geturðu varla verið virkur samborgari eins og áður.

Faðir hans á níræðisaldri neyðist til að kaupa sér snjallsíma til að eiga einföldustu bankaviðskipti. Gamli maðurinn hefur varla efni á slíkum síma og langar þess utan ekkert í hann, hvað þá að læra á svoleiðis tæki. Lífið hefur verið bærilegt án þess í marga áratugi, takk fyrir samt.

En hann er neyddur til þess, af því að hann er vanur að greiða reikningana sína og ætlar ekki að verða vanskilamaður svona rétt fyrir andlátið.

Vinur minn bætti við að amma hans í hina ættina hefði aldrei keypt sér sjónvarp. Hún vildi frekar hlusta á útvarp og lesa blöðin.

Nú lít ég mér nær. Ég hafði gælt við að heimsækja Ísland í sumar eins og ég geri jafnan, til að hitta fjölskyldu og vini. Þá hnýt ég um soldið.

Við komuna í Keflavík yrði mér skylt að gangast undir covid-próf. Barasta alveg sjálfsagt (þótt enn virðist ekki alveg ljóst hver á að greiða fyrir prófið). En svo er hitt.

Mér yrði líka gert að hlaða niður appi sem skráir ferðir mínar, ef eitthvert smitvesen kæmi upp á. Þetta app færi í snjallsímann. Sem ég á ekki. Og langar ekkert í.

Við Marco gamli hinn ítalski eigum það sameiginlegt.

Nýjustu fréttir herma líka að „ferðagjöfin“ – fimmþúsundkallinn frægi sem á að hvetja til ferða innan lands – verði aðeins nothæfur í gegnum sérstakt app. Vel gert.

––––––––

Sko. Ég ber mikla virðingu þeim hafa tekizt á við kófið með undraverðum árangri. Og ekki vil ég stofna smitsjúkdómavörnum á Íslandi í hættu með því að eiga ekki snjallsíma.

En ég er líka eindreginn talsmaður þess að eitt skuli yfir alla ganga.

Nú þykist ég vita hvað mörg ykkar hugsa: Hvers vegna færðu þér ekki bara almennilegan síma og hættir þessu væli?

Það er röng spurning. Alveg óháð því hvort mig eða einhvern annan langar í snjallsíma eða viljum ekki eiga slíka græju af einhverjum ástæðum, þá er í grundvallarstriðum allt rangt við þessa hugsun:

„Eitt skal yfir alla ganga. En samt bara þá sem eiga snjallsíma.“

Ég þekki fleiri en tíu og fleiri en fjörutíu sem eiga ekki snjallsíma. Flestir náttúrlega aldraðir, eins og við Marco. Við okkur eldra fólkið er ríkisstjórnin að segja: Ef þú vilt koma til landsins þarftu að eiga snjallsíma.

Og ef þú vilt nýta þér fimm þúsund króna „gjöfina“ frá okkur – sem er auðvitað „gjöf“ frá skattgreiðendum – þá þarftu að kaupa þér snjallsíma fyrst.

Fjöldi okkar nítjándu aldar fólksins skiptir vitaskuld engu máli, heldur hin almenna regla.

Nú er rétt að ítreka: Þessar hugmyndir stjórnvalda eru án efa fallega hugsaðar og beinast í átt að góðri niðurstöðu, en meiraðsegja velviljuðu fólki eru takmörk sett.

Stjórnvöld mega ekki undir nokkrum kringumstæðum setja lög og almennar reglur – hvað þá að bjóða fríðindi –, sem sjálfkrafa útiloka tiltekinn hóp borgaranna.

Stjórnvöld mega ekki setja borgurunum reglur sem meina þeim að falla undir þær nema þeir kaupi sér tiltekin tæki. Sem þeir vilja jafnvel alls ekkert eiga.

Það heitir að lágmarki mismunun. Og mismunun er vond.

Karl Th. Birgisson

Flokkun : Efst á baugi
1,445